Uppsetning Tækin á fjallinu, orkugjafar og fjarskiptabúnaður, stillt af.
Uppsetning Tækin á fjallinu, orkugjafar og fjarskiptabúnaður, stillt af. — Ljósmynd/Neyðarlínan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sendar, sem þjóna í senn farsímum og Tetra-kerfum viðbragðssveita, voru á dögunum settir upp á Dynjandisheiði á Vestfjörðum þar sem nú er heilsársvegur. Búnaði þessum var valinn staður nærri svonefndu Urðarfelli, norðarlega á heiðinni ofan við Dynjandisvog þar sem ekið er upp úr Arnarfirði

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sendar, sem þjóna í senn farsímum og Tetra-kerfum viðbragðssveita, voru á dögunum settir upp á Dynjandisheiði á Vestfjörðum þar sem nú er heilsársvegur. Búnaði þessum var valinn staður nærri svonefndu Urðarfelli, norðarlega á heiðinni ofan við Dynjandisvog þar sem ekið er upp úr Arnarfirði. „Þarna er fínt samband sem nær alveg frá Dynjanda og yfir stóran hluta hásléttunnar þarna á heiðinni,“ segir Sigurður Ingi Hauksson, forstöðumaður dreifikerfa hjá Neyðarlínunni.

Aflgjafar sendanna, sem eru í gámi, eru dísilrafstöð og svo sólarsellur. Frá þeim fer rafmagn inn á hlöður úr gömlum rafmagnsbílum, sem þarna eru endurnýttar og reynast vel. „Þarna var enginn möguleiki á rafmagni frá háspennulínum eða annarri rafveitu. Við fórum því þessa leið, en þetta krafðist svolítilla pælinga um tæknilegar útfærslur sem svo hafa að mestu gengið upp,“ segir Sigurður.

Fjarskiptasambandinu við tækin þarna er haldið uppi með því sem kallað er lágflugsgervihnattatækni. Kerfin styðja við 4G-farsímakerfið en í þessu verkefni er samvinna milli Neyðarlínu og Nova. Viðskiptavinir annarra símafyrirtækja komast þó inn á kerfið en mikil áhersla var lögð á slíkt. Öryggismál eru leiðarljósið í starfinu, það er að fólk sem er þarna á ferð geti kallað eftir aðstoð ef í nauðir rekur.

Víða á Vestfjörðum eru göt í farsímakerfi. Firðir í Reykhólasveit og Ísafjarðardjúpi eru þar sérstaklega nefndir, en á síðustu árum hafa þar orðið slys þar sem takmarkað fjarskiptasamband hefur tafið björgunaraðgerðir. Fyrir liggur áætlun um átak til úrbóta þarna, en framgangurinn er hægur. Talað hefur verið um að setja þurfi í þessu skyni upp alls 24 farsímasenda víða á Vestfjörðum. Því átti að vera lokið fyrir lok næsta árs, hvað sem verður.