Í Vancouver Sigrún til hægri varð kanadískur ríkisborgari í ágúst í fyrra.
Í Vancouver Sigrún til hægri varð kanadískur ríkisborgari í ágúst í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Ásmundsson, dóttir Gunnvarar Daníelsdóttur og Snorra Ásmundssonar, flutti á fimmta ári með foreldrum sínum frá Íslandi 1970, ólst upp í Winnipeg til 15 ára aldurs, þegar fjölskyldan flutti nær Gimli, býr í Vancouver, varð kanadískur…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigrún Ásmundsson, dóttir Gunnvarar Daníelsdóttur og Snorra Ásmundssonar, flutti á fimmta ári með foreldrum sínum frá Íslandi 1970, ólst upp í Winnipeg til 15 ára aldurs, þegar fjölskyldan flutti nær Gimli, býr í Vancouver, varð kanadískur ríkisborgari í fyrrasumar og tekur við sem forseti Íslendingadagshátíðarinnar á Gimli í febrúar en hún hefur verið í stjórninni frá 2018 og meðal annars haft þar umsjón með íslenskri tískusýningu frá 2019. „Á hátíðinni í ár beinum við athyglinni að þeim sem hafa byggt upp íslenska samfélagið hérna síðan 1875 og lagt sitt af mörkum í Kanada,“ segir hún.

Gunnvör hefur látið til sín taka í íslenska samfélaginu í Winnipeg og á Gimli. Sigrún segist því hafa kynnst starfseminni vel og tekið þátt í mörgum viðburðum áður en hún tók sæti í stjórn hátíðarinnar. „Ég fór fyrst í íslensku sumarbúðirnar á Gimli þegar ég var 10 ára og kynntist þá vesturíslenskum krökkum. Fleiri bættust í vinahópinn eftir að við fluttum í Húsatún skammt frá Gimli og við höfum haldið góðu sambandi síðan.“

Vegleg hátíð

Sigrún leggur áherslu á að hún hafi alltaf hrifist af Vestur-Íslendingum og íslenskum hefðum þeirra, stutt þá í einu og öllu, en aldrei litið á sig sem hluta af hópnum. „Ég varð fyrst Vestur-Íslendingur þegar ég varð kanadískur ríkisborgari í ágúst 2024.“

Nokkrar íslenskar fjölskyldur fluttu til Winnipeg í kringum 1970 og var mikill samgangur þeirra á milli. „Við töluðum alltaf íslensku heima sem og við aðra Íslendinga og ég leit alltaf á mig sem Íslending,“ rifjar Sigrún upp. Hún segir að samskiptin við ættingja á Íslandi hafi ávallt verið mikil og þegar hún var 12 ára hafi hún verið í eitt ár á Íslandi og farið í íslenskan skóla til að bæta íslenskuna. „Ég man enn þann dag þegar ég áttaði mig á því að ég hugsaði á íslensku en ekki ensku.“ Hún hafi farið reglulega til Íslands og Daníel Guðmundur Bergman, sonur sinn, sé með tvöfalt ríkisfang.

Í haust verða 150 ár frá því að Íslendingar settust fyrst að við Winnipegvatn og verður þess minnst með ýmsum hætti. Íslendingadagshátíðin um verslunarmannahelgina verður í veglegri kantinum, gert er ráð fyrir mörgum sérstökum gestum og meðal annars hefur forseta Íslands verið boðið, en hefð er fyrir því að ráðamenn í Kanada og á Íslandi sæki hátíðina. „Hátíðin hefur orðið stærri í sniðum með hverju árinu,“ segir Sigrún og bætir við að sem fyrr sé áhersla lögð á að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Á meðal hápunkta á hátíðinni í sumar verða tónleikar Sigrúnar Stellu Haraldsdóttur, aflraunakeppni undir stjórn Magnúsar Vers Magnússonar og víkingaþorp, þar sem handverk verður til sýnis og brugðið verður á leik sem fyrr. „Undanfarin ár höfum við boðið íslenskum hönnuðum að sýna verk sín sér að kostnaðarlausu, aðstoðað þá með gistingu og við að koma vörum sínum á framfæri, og tökum enn við umsóknum. Persónulega er ég spenntust fyrir að fjallkonan fái nýjan kyrtil, sem nemendur hjá Annríki í Hafnarfirði eru að gera og ætla að færa okkur, gjöf frá konum á Íslandi til kvenna í Nýja-Íslandi.“

Undanfarin ár hefur Íslendinganefnd í samstarfi við Icelandair og fleiri boðið tveimur til þremur tónlistarmönnum frá Íslandi á hátíðina. „Vonandi náum við að bjóða fimm manns í sumar en auk þess kemur sameinaður kór Karlakórs Hreppamanna og Sprettskórsins fram á hátíðinni.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson