Snæfellsjökull Gefur hratt eftir og gæti verið horfinn innan aldar.
Snæfellsjökull Gefur hratt eftir og gæti verið horfinn innan aldar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sitthvað merkilegt bætist í ár inn á almanak Sameinuðu þjóðanna sem standa fyrir alþjóðlegum dögum til að efla alþjóðlega vitund og aðgerðir á tilteknum sviðum. Alls eru nú 216 alþjóðlegir dagar á vegum SÞ og þeim er að fjölga

Sitthvað merkilegt bætist í ár inn á almanak Sameinuðu þjóðanna sem standa fyrir alþjóðlegum dögum til að efla alþjóðlega vitund og aðgerðir á tilteknum sviðum. Alls eru nú 216 alþjóðlegir dagar á vegum SÞ og þeim er að fjölga.
Til marks um fjölbreytni á dagatali þessu má nefna alþjóðlegan knattspyrnudag sem er 25. maí og 21. desember er tileinkaður körfubolta. Svo mætti áfram telja. „Í ár munum við sérstaklega setja fókus á fyrsta alþjóðadag jökla 21. mars næstkomandi,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið. Hún bætir við:

„Þá er nú einnig hafið alþjóðaár jökla á hverfanda hveli og áratugur alþjóðlegs átaks í jöklarannsóknum. Því munum við gefa sérstakan gaum í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Jöklarannsóknafélag Íslands, Náttúruverndarstofnun, Jarðvísinda- og Sjálfbærnistofnun HÍ, Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn Íslands með skipulagningu viðburða og fræðslu. Þessa vegferð hófum við síðastliðinn þriðjudag, 21. janúar, og margt verður gert af þessu tilefni á næstu mánuðum. Þetta er í samhengi hlutanna brennandi mál, meðal anars í tengslum við umræðu um hlýnun andrúmsloftsins.“

Í tilefni af degi jökla er efnt til samkeppni á meðal barna og ungmenna á aldrinum 10-20 ára. Óskað er eftir verkum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru. Nánari upplýsingar má finna á www.un.is/jöklar. Aðrir nýir alþjóðlegir dagar eru í ár meðal annars:

•Dagur drenglyndis – 19. maí

•Dagur samræðu milli siðmenningarsvæða – 10. júní

•Dagur þróunar dreifbýlis – 6 júlí

•Dagur stöðuvatna – 27. ágúst

•Dagur baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi þvert á landamæri – 15. nóvember.