Baksvið
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Ekki liggur fyrir mótuð starfsáætlun um hvernig íslensk yfirvöld hyggjast ná markmiði um að vernda 30% hafsvæðisins umhverfis Ísland fyrir 2030 líkt og stjórnvöld segjast stefna að. Aðeins 1,6% af tæplega 760 þúsund ferkílómetra efnahagslögsögu Íslands þykja uppfylla viðmið um virka svæðisvernd og liggja ekki fyrir nein útlistuð verndunaráform. Að óbreyttu er óvíst að markmiðinu verði náð.
Umhverfisstofnun Evrópu (e. European Environment Agency) greindi frá því nýverið að stofnunin teldi ólíklegt að Evrópusambandinu tækist að ná markmiðinu um verndun 30% hafsvæða fyrir 2030. Þó kom fram að aðildarríki Evrópusambandsins hefðu skilgreint 12,3% af hafsvæðum sínum sem sérstök verndarsvæði, meira en sjö sinnum stærra hlutfall en Íslendingar.
Matvælaráðuneytið fullyrðir þó að enn sé stefnt að því að ná verndarmarkmiðunum.
Langt í land
Í desember 2022 ákváðu ríki með aðild að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (e. Convention on Biodiversity), þar með talið Ísland, að taka upp svokallaða 30x30-stefnu er snýr að verndun 30% hafsins fyrir árið 2030. Í mars 2023 var síðan tilkynnt að Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra hefði undirritað reglugerð um verndarráðstafanir vegna viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa. Gerði reglugerðin ráð fyrir þremur nýjum verndarsvæðum á Íslandsmiðum og voru þau þá orðin sautján talsins og ná til 2% af efnahagslögsögu Íslands.
Á þessum svæðum er óheimilt að stunda botnveiðar og í raun allar veiðar bannaðar nema handfæraveiðar og veiðar á uppsjávarfiski með flotvörpu og hringnót.
Sérstakur stýrihópur, sem skipaður var í apríl 2023, skilaði skýrslu um verndun hafsins í ágúst 2024. Þar leggur hópurinn til að svæði þar sem gildandi vernd er talin uppfylla skilyrði um aðra virka svæðisvernd verði tilkynnt til stofnana Sameinuðu þjóðanna og þannig gerð formlegur hluti af alþjóðlega verndarátakinu. Stýrihópurinn sagði hins vegar þau svæði sem uppfylla skilyrðin aðeins ná yfir 1,6% af efnahagslögsögunni.
Þá lagði stýrihópurinn einnig til að svæði sem njóta annars konar verndar á heilsársgrundvelli verði greind frekar og að skoðað verði hvaða breytingar þurfi að gera á reglugerðum til að viðmiðin séu uppfyllt. Athygli vekur að þessi svæði eru aðeins 1,1% af efnahagslögsögunni og ef yrðu gerðar breytingar til þess að þau uppfylli verndarskilyrðin myndi hlutfallið aðeins færast upp í 2,7%.
Töluverð áskorun
Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins um framvindu vinnu við að ná yfirlýstu markmiði um verndun 30% hafsvæða bendir matvælaráðuneytið á skýrslu stýrihópsins.
Vitnar ráðuneytið í skýrsluna þar sem segir: „Stýrihópurinn telur að í ljósi stöðu þekkingar á vistkerfum hafsins sé talsverð áskorun að ná markmiði um verndun 30% efnahagslögsögu Íslands fyrir árið 2030 í skilningi stefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Hins vegar er raunhæft að stíga strax skref byggð á þeirri þekkingu og því stjórnkerfi sem er til staðar og skilgreina hvernig unnið verði að þessu markmiði á næstu árum.“
Stýrihópurinn skilgreinir hins vegar ekki með nákvæmri útlistun hvernig hægt yrði að ná yfirlýstu markmiði um vernd innan þess tímaramma sem gefinn er.
Matvælaráðuneytið svarar því ekki hvort talið sé líklegt að Íslandi nái settu markmiði, en bendir á að í fjármálaáætlun 2025-2029 sem Alþingi samþykkti vorið 2024 segi: „Vistkerfisnálgun og verndun viðkvæmra vistkerfa til framtíðar verður fléttuð málaflokkunum (sjávarútvegi og lagareldi) og m.a. er stefnt að verndun viðkvæmra botnvistkerfa í efnahagslögsögu Íslands.“ Jafnframt sé þar að finna markmið um að hlutfall skilgreindra verndarsvæða í efnahagslögsögu Íslands verði 30% árið 2029.
Trúverðugar yfirlýsingar?
Því er hvergi lýst hvernig stjórnvöld hyggjast ná sínum háleitu markmiðum. Fram kemur í fyrrnefndri skýrslu að þörf sé á heildstæðri stefnu í málefnum hafsins. „Slíkt verkefni krefst aðkomu margra ráðuneyta og stofnana. Jafnframt væri æskilegt að hefja vinnu við að skilgreina svæðisbundið skipulag innan efnahagslögsögu. Skoða þarf lagagrundvöll slíkrar vinnu,“ segir í skýrslunni.
Einnig er talið nauðsynlegt að „kortleggja svæði með hátt verndargildi og vinna samhliða skipulega að rannsóknum á þeim svæðum þar sem líklegt þykir að slík vistkerfi finnist.“
Hve langan tíma taki að finna lausn á mögulegri lagalegri óvissu, kortleggja svæði með hátt verndargildi, eiga samráð við hagaðila í aðdraganda reglugerðar- eða lagasetningar eða vinna að öðrum þáttum verkefnisins er ekki vitað. Fjölmörg dæmi eru þó um að víðtæk stefnumörkun og flókin ákvarðanataka stjórnvalda geti tekið mörg ár.
Vert er að rifja upp að íslensk yfirvöld hafa áður undirritað alþjóðlegar skuldbindingar um að vernda 10% af hafinu umhverfis Ísland fyrir árið 2020, ljóst er að því markmiði var ekki náð.