Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Á sunnudaginn verður þess minnst í ensku hafnarborginni Hull að 70 ár eru liðin frá því að 40 sjómenn drukknuðu þegar bresku togararnir Lorella og Roderigo fórust við Íslandsstrendur.
Athöfnin er raunar til að minnast allra togarasjómanna frá Hull sem hvíla í votri gröf en þess er sérstaklega getið að nú í janúar séu 70 ár frá þessum sorglegu atburðum við Ísland. Fer hún fram frá St John the Baptist kirkjunni í Kingston upon Hull eins og borgin heitir en er iðulega kölluð Hull.
Togararnir tveir brugðust við hjálparbeiðni frá breska togaranum Kingston Garnet sem virtist í vanda staddur í kolvitlausu veðri á norðanverðum Vestfjörðum hinn 26. janúar 1955. Örlögin höguðu því hins vegar þannig að Kingston Garnet stóð af sér veðrið en ekki Lorella og Roderigo en sá síðarnefndi mun hafa þótt vera einn glæsilegasti togarinn í breska skipaflotanum á þessum árum. Þar var 21 maður um borð.
Flugvélar sneru við
Í greinum breskra blaða og Morgunblaðsins frá þessum tíma er ýjað að því að fárviðri hafi grandað togurunum. Þeir hafi ekki farið á hliðina vegna mikillar ísingar eins og dæmi voru um og átti eftir að gerast síðar í óveðrinu í Ísafjarðardjúpi árið 1968.
Til stóð að gera umfangsmikla leit að togurunum eftir að neyðarkallið barst frá þeim en veðurguðirnir settu stórt strik í reikninginn samkvæmt frétt í Morgunblaðinu föstudaginn 28. janúar 1955.
„Átta flugvélar lögðu upp frá Keflavíkurflugvelli í gærmorgun til að leita að togurunum, en þær urðu fljótlega að snúa við aftur vegna veðurs. Skyggni var og mjög vont.“
„Skipinu hvolfir“
Í Sjómannablaðinu Víkingi birtist grein 1. mars 1955 og þar er þýðing á viðtali sem skipstjóri breska togarans Zircon veitti blaðinu The Fishing News. Skipstjórinn hét Bob Rivett og stóð sjálfur í stórræðum á vestfirsku miðunum þegar veðrið skall á sunnudaginn 23. janúar.
Þar lýsir hann veðrinu og því hvernig hann reyndi að stýra skipinu með þeim hætti að sem minnstur sjór gengi yfir skipið. Eins og frekast væri unnt. Í greininni kemur fram að loftskeytamennirnir á Roderigo og Lorellu hafi staðið vaktina þar til yfir lauk eins og það er orðað. Lorella fórst fyrr en Roderigo. Tilkynningin „Skipinu hvolfir“ kom klukkan 14.36 miðvikudaginn 26. janúar og hættu sendingar frá Lorellu eftir það.
Um klukkutíma síðar fóru að berast tilkynningar frá Roderigo um að þar væri staðan orðin tvísýn. Reyndi þá ameríska björgunarflugvélin 5301 að vera í sambandi við skipið og fá staðsetningu þess uppgefna og var svarað að Roderigo væri 90 sjómílur norðaustur af Horni.
Síðasta orðsendingin kom klukkan 17.12: „Roderigo hvolfir.“
Strand Egils rauða
Stórbrotin björgun
Togarinn Egill rauði frá Neskaupstað strandaði undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi í fárviðrinu í janúar 1955. Ljóst þykir að þar var unnið stórbrotið björgunarafrek þegar tókst að bjarga 29 mönnum af skipinu en fimm létu lífið.
Sjómenn hafa í gegnum tíðina kallað Grænuhlíð hótelið því að þar fara skip í var í erfiðri norðanátt. Þar höfðust nokkur skip við þegar Egill rauði strandaði. Skyggni var lítið sem ekkert og varð mönnum ljóst að björgun til sjós var svo gott sem ómöguleg. Svo fór að björgunaraðgerðir voru gerðar frá landi. Björgunarsveitarmenn sigldu yfir frá Ísafirði með Heiðrúnu ÍS og sjómenn um borð í Austfirðingi undir Grænuhlíð fóru yfir í varðskip og þaðan í land.
Gísli Jónsson var kunnugur á þessum slóðum og fór fyrir hópnum en hann var einungis 18 ára gamall. Var hann á leið í bíó á Ísafirði þegar hann ákvað að fara frekar um borð í Heiðrúnu. Hann leiddi björgunarmenn áfram við erfiðar aðstæður í lélegu skyggni. Árið 2019 eignuðust Ísfirðingar nýtt björgunarskip og var því gefið nafnið Gísli Jónsson.
Þegar skotið var björgunarlínu í Egil rauða héldu tveir menn um byssuna auk skyttunnar sjálfrar. Samkvæmt frásögnum voru lukkudísirnar með í för þegar þeir hittu brúna í Agli rauða í annarri skottilrauninni.
Áhugasömum er bent á þrjú viðtöl í Bæjarins besta 22. desember 2004 þegar tæp 50 ár voru liðin frá atburðunum.