Það var áhugavert að fylgjast með Hákoni Arnari Haraldssyni á stóra sviðinu í fyrrakvöld. Hann var mættur með franska liðinu Lille á einhvern erfiðasta útivöll í Evrópu, og mótherjarnir líklega besta knattspyrnulið álfunnar um þessar mundir

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Það var áhugavert að fylgjast með Hákoni Arnari Haraldssyni á stóra sviðinu í fyrrakvöld.

Hann var mættur með franska liðinu Lille á einhvern erfiðasta útivöll í Evrópu, og mótherjarnir líklega besta knattspyrnulið álfunnar um þessar mundir.

Liverpool er með fullt hús stiga í Meistaradeildinni og örugga forystu í ensku úrvalsdeildinni.

En Skagamaðurinn sýndi á Anfield að hann á heima í þessum gæðaflokki. Smá mistök snemma leiks slógu Hákon engan veginn út af laginu og hann var einn besti maður Frakkanna þegar upp var staðið.

Átti stóran þátt í markinu í naumum ósigri Lille, 2:1, var sjálfur nálægt því að skora og var óhræddur við að vera með boltann og leita að leiðum í gegnum vörn enska liðsins. Sem honum tókst skemmtilega oft.

Hákon er byrjunarliðsmaður og í stóru hlutverki í liði sem er við topp frönsku deildarinnar og á leið í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Það er orðið langt síðan við höfum átt leikmann í þessari stöðu. Albert Guðmundsson er nálægt þessu hjá Fiorentina en Hákon er sex árum yngri og á heldur betur framtíðina fyrir sér.

Þessir tveir standa fremstir íslenskra fótboltamanna í dag og hvorugur var með í leikjum íslenska landsliðsins í Þjóðadeildinni í haust.

Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn landsliðsþjálfari, var á Anfield í fyrrakvöld og er örugglega ánægður með sinn mann.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt einhver af bestu liðum Englands væru komin með Hákon á sinn innkaupalista eftir leikinn í fyrrakvöld, hafi hann ekki þegar verið kominn þangað.