Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Við höfum undanfarin fimm ár dregið fram mikilvægi geðræktar með þessum hætti,“ segir Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar, en á morgun fer af stað árlegt átak Geðhjálpar þar sem
seld eru dagatöl með geðræktandi ráðum, sem Grímur kallar G-vítamín.
Kaffispjallið á laugardögum
„G-vítamínin eru eiginlega jafnmörg og við erum í heiminum. Mitt uppáhalds G-vítamín er t.d. að drekka kaffi með Helgu Völu á laugardögum, sem við höfum gert undanfarin 25 ár. Þetta er gæðastund og er regla sem við höfum og ég finn að hún bætir lífið. Í þau skipti sem við höfum ekki verið á sama stað þá saknar maður þessarar stundar. Þetta snýst um að finna aðferð til að rækta sjálfan sig, finna gleðina í litlu hlutunum og einhvern ramma sem hentar manni vel.“
Það getur verið mismunandi hvað hentar hverjum og einum þegar kemur að G-vítamínunum.
„Ég hitti einu sinni mann í Neskaupstað og spurði hann hvað væri hans G-vítamín. Hann sagði við mig að það væri að gera við Baader-vélar. Þegar maður hugsar út í það, þá er það ástundun núvitundar að sökkva sér ofan í svona vinnu,“ segir Grímur og bætir við að það skipti miklu máli að hlúa að sjálfum sér og finna sér sín G-vítamín.
„Það þarf ekkert alltaf að gera eitthvað mikið eins og að gjörbreyta um lífsstíl og hella sér í ræktina alla daga og borða ekkert nema hollmeti,“ segir Grímur og bendir á að litlu hlutirnir og viðhorfið séu ekki síður mikilvæg. „Það er líka hægt að ákveða að hrósa samstarfsmanni sínum í dag eða svara játandi ef manni er boðið eitthvað eða jafnvel bara að draga andann djúpt reglulega yfir daginn.“
Á þessum árstíma, þorranum, eru veður oft válynd og ennþá langt í sumar og sól.
Að þreyja þorrann
„Þorrinn er sá tími sem mörgum finnst erfiður, enda talað um að þreyja þorrann. Í gegnum tíðina hefur þessi tími verið erfiður, oft lítið til af ferskum mat, jafnvel hart í ári og vont veður og mikið myrkur. Það fylgir okkur svolítið enn, þó lífsgæði hafi aukist, að þetta myrkur og kuldi er ennþá og vorið er ekki alveg handan hornsins. Þá er mikilvægast að hlúa vel að sér. Við erum með dagatalið alltaf til sölu á þessum tíma, til að minna á litlu hlutina sem hægt er að gera til að sinna sjálfum sér vel. Hugmyndin er líka að kíkja á dagatalið og byrja daginn vel, en við viljum ekki vera að tala niður til fólks. Einungis að koma með hugmyndir sem gætu nýst einhverjum vel, því lífið er jú allskonar og ýmislegt getur gerst hjá fólki,“ segir Grímur.
Dagatal Geðræktar er selt í Krónuverslunum og eins er hægt að kaupa það á vefsvæði samtakanna gvitamin.is. „Við viljum senda jákvæð skilaboð til landsmanna inn í þorrann.“