Brynjólfur Guðjón Brynjólfsson fæddist á Eyrarbakka 26. september 1946. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 12. janúar 2025. Foreldrar hans voru Brynjólfur H. Guðjónsson, f. 19.11. 1915, d. 6.7. 1946, og Fanney G. Hannesdóttir, f. 2.3. 1922, d. 14.7. 2009. Systir Brynjólfs er Bára, f. 28.3. 1945.
Brynjólfur kvæntist 1977 Emmu Eyþórsdóttur, f. 3.9. 1953. Foreldrar hennar eru Eyþór Einarsson, f. 18.6. 1912, d. 23.12. 1987, og Guðborg Aðalsteinsdóttir, f. 11.10. 1933. Dóttir Brynjólfs og Emmu er Sólveig Hlín Brynjólfsdóttir, f. 15.2. 1991, sambýlismaður Helgi Hrafn Björnsson, f. 14.8. 1991. Sonur þeirra er Húmi, f. 2024.
Brynjólfur ólst upp á Eyrarbakka hjá móður sinni en faðir hans lést af slysförum áður en hann fæddist. Hann var einnig mikið hjá föðursystkinum sínum á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka og vann þar við bústörf og fleira á unglingsárum. Hann gekk í Barnaskólann á Eyrarbakka og síðan í Héraðsskólann á Laugarvatni og var stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1969. Hann stundaði nám í líffræði við Háskóla Íslands í eitt ár en hélt síðan til Noregs til náms í sálfræði við háskólann í Osló. Hann flutti sig yfir til Danmerkur og lauk cand. psyk.-prófi frá háskólanum í Árósum 1983. Að námi loknu réðst hann til starfa hjá Sálfræðideild skóla í Reykjavík og starfaði þar til 1996. Á árunum 1996 til 1999 starfaði hann sem meðferðarsálfræðingur við Fjölskylduráðgjöfina Samvist í Reykjavík. Frá 1999 gegndi hann starfi skólasálfræðings í Garðabæ, fyrst í hlutastarfi en seinni árin í fullu starfi til starfsloka. Hann rak jafnframt eigin sálfræðistofu og sinnti sálfræðiþjónustu við ýmsa skóla á landsbyggðinni, aðallega á Vesturlandi. Brynjólfur var virkur í félagsstarfi sálfræðinga bæði í Sálfræðingafélagi Íslands og í Félagi skólasálfræðinga.
Brynjólfur hafði mikinn áhuga á ljósmyndun, sérstaklega á yngri árum og eftir hann liggur fjöldi ljósmynda, þ. á m. svarthvítar myndir sem hann vann sjálfur. Úrval mynda sem hann tók á Eyrarbakka á 7. áratug síðustu aldar kom út í bókinni Mannlífsmyndir frá Eyrarbakka, árið 2024.
Brynjólfur og Emma bjuggu lengst af á Kársnesi í Kópavogi en fluttu nýlega í Miðleiti í Reykjavík. Þau reistu sér sumarbústað í Ásabyggð í landi Högnastaða í Hrunamannahreppi árið 1988 og ræktuðu þar skjólsælan reit þar sem þau undu sér vel og Brynjólfur sinnti trjárækt af áhuga.
Heilsu Brynjólfs hrakaði hratt undanfarin tvö ár af völdum parkinson-sjúkdóms og hann lést eftir örstutta sjúkrahúsvist.
Útför hans fer fram í Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 23. janúar 2025, kl. 13.
Langar að minnast hans Binna með nokkrum orðum. Binni var frændi mannsins míns og dóttur og ég minnist þess vel þegar ég hitti hann og Emmu fyrst. Það sem einkenndi Binna og Emmu umfram allt var þessi hlýja, gamansemi og kankvísi. Binni var að austan eins og ég, hann frá Eyrarbakka en ég frá Stokkseyri. Í veislum og mannfögnuðum var endalaust hægt að rifja upp sögur af skyldmennum og ættmennum að austan. Binni kom oft auga á hið spaugilega og sagði sögur af fólki og atburðum svo allir hlustuðu með andakt. Binni og Emma voru höfðingjar heim að sækja og ég efast um að það hafi verið flottari kökuborð en í veislunum þeirra. Þegar eitthvað stóð til hjá öðrum þá voru þau líka boðin og búin að leggja lið með bakstri eða öðru. Þegar stundir liðu uxu dætur okkar úr grasi og fóru báðar út að mennta sig og voru í góðu sambandi frænkurnar. Þær hittust oft og komu í heimsókn hvor til annarrar enda aðeins yfir sundið að fara frá Kaupmannahöfn yfir til Svíþjóðar. Það er ómetanlegt að eiga góðar og vel gefnar dætur og mikið var Binni stoltur af sinni sem ég af minni. Binni var virtur fræðimaður og kunnur af sínum góðu verkum, vel liðinn og vinsæll. Síðari árin hittumst við oft á alls konar fyrirlestrum og fundum þar sem Emma og Binni voru mjög virk í alls konar félagsstarfi og Háskóla þriðja æviskeiðsins. Stundum er sagt: lifðu lífinu lifandi það átti svo sannarlega við hann Binna hann gerði það svo sannarlega. Vakinn og sofinn yfir velferð fjölskyldunnar og hélt utan um margar frænkur og frændur sem alltaf komu í hvers kyns afmæli og veislur.
Man hvað það var gaman í einni afmælisveislu hjá Binna, þar var vel mætt og margir á mælendaskrá, en stundin leið hratt og áður en varði var dagurinn liðinn ógnarhratt. Mér segir svo hugur um að Binni hafi fengið nokkur af þorpinu með sér í bæinn. Hann gleymdi aldrei fólkinu sínu og núna rétt fyrir jólin kom út þessa fína bók um Eyrarbakka með ljósmyndum sem Binni tók þegar hann var ungur maður. Við hugsum til góðu stundanna og alls þess sem hann gaf okkur nú þegar komið er að kveðjustund. Langar líka að þakka einstaka gestrisni og tryggð við okkur fjölskylduna gegnum tíðina. Votta Emmu, Sólveigu Hlín og allri fjölskyldunni innilega samúð. Megi góður guð styrkja ykkur.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Katrín Þorsteinsdóttir.
Við Brynjólfur vorum herbergisfélagar menntaskólaárin okkar á Laugarvatni. Þetta voru ólíkir tímar og ólíkt þjóðfélag frá því sem nú er. Innviðirnir voru ekki beysnir. Á vorin var vegurinn frá Selfossi að Laugarvatni sundurgrafinn af drulluhvörfum. Ég man ekki til þess að við námsmenn hefðum af þessu miklar áhyggjur. Við vorum uppteknir við að lesa frásagnir af herferðum Rómverja á frummálinu og kvæði Goethes þóttu heppilegt lestrarefni fyrir byrjendur í þýsku. Jóhann skólameistari var sérlega frjálslyndur og lét t.d. óátalið þótt nemendur söfnuðu bítlahári, sem var bannað í öðrum skólum á Laugarvatni.
Okkur Binna varð strax vel til vina. Hann var rólegur og vildi hafa röð og reglu í kringum sig. Þegar hann tók til í herberginu var það handbragð ræstitæknis.
Binni var Eyrbekkingur og sagði okkur hinum ótrúlegustu sögur af fólkinu á Bakkanum. Hann ólst upp að miklu leyti hjá frændfólki sínu á Litlu-Háeyri, sem var eins konar sveitabær í miðju þorpinu. Það er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Margar sögur Binna af Bakkanum fjölluðu um það þegar hann ásamt öðrum krökkum var að sniglast í kringum fullorðna fólkið og mátti þar segja að litlir pottar hafa líka eyru. En Binni lét ekki þar við sitja. Ungur hafði hann eignast myndavél og ljósmyndaði mannlífið í dagsins önn. Á síðasta ári kom hann því í verk að velja úrval gamalla mynda sem hann átti í fórum sínum og fékk útgefna stórmerkilega ljósmyndabók sem hann nefndi Mannlífsmyndir frá Eyrarbakka.
Eftir Laugarvatnsdvölina hófst sálfræðinám Binna, fyrst í Noregi og síðar í Danmörku. Á þeim tíma skiptumst við á bréfum. Bréfin hans Binna voru löng og ítarleg og auðvitað var margt á seyði þegar menn eru ungir og frískir.
Á sumrin og í jólafríum gafst tími til að líta á hin rómuðu sveitaböll hér sunnanlands. Ég man glöggt eftir óborganlegu atriði eftir vel heppnað sveitaball á annan í jólum. Binni gisti hjá mér í Geirakoti og morguninn eftir vildi hann leggja lið við bústörf og mætti í fjós. Ég rétti honum heykvísl og setti hann í að moka súrheyi ofan úr turni. Þegar ég hafði lokið mjöltum fór ég að athuga hvernig honum gengi. Var hann þá búinn að moka niður nokkurra daga gjöf, orðinn ber að ofan og löðursveittur í 11 stiga frosti.
Á þessum æskuárum lá leið Binna oft austur fyrir fjall. Stundum var slegið upp teiti í Geirakoti og sótti þær samkomur gjarnan lausafólk frá næstu bæjum. Og þarna var gæfuhjóli Brynjólfs snúið þegar hann hitti hana Emmu sem síðan hefur fylgt honum í gegnum súrt og sætt í hálfa öld.
Í áratugi hefur okkar góða samband verið óslitið. Síðustu árin byrjaði svo kartöflurækt Binna og Emmu í Geirakoti og færðist þá endurnýjaður kraftur í samskiptin. Ég þóttist sjá gamla takta hjá Binna við uppskerustörfin. Allt var í röð og reglu, uppskeran var flokkuð og kirfilega gengið frá vetrarforðanum í geymslu. En ég sá líka að smátt og smátt dró úr mínum gamla félaga og undir það síðasta var sjúkdómurinn búinn að koma honum á hnén. Farsælu lífi er lokið, góða ferð vinur.
Ólafur Kristjánsson.
Mig langar að minnast í örfáum orðum Brynjólfs G. Brynjólfssonar sálfræðings sem var samstarfsfélagi minn um nokkurra ára skeið.
Á tíunda áratug síðustu aldar eða nánar tiltekið, frá hausti 1996 til aprílloka 1999, var rekin fjölskylduráðgjöf fyrir barnafjölskyldur sem bar heitið Samvist. Rekstraraðilar voru Reykjavíkurborg og Mosfellsbær. Um tilraunaverkefni var að ræða til 3ja ára.
Undirrituð var svo lánsöm að fá að stýra þessu verkefni ásamt úrvalsliði félagsráðgjafa og sálfræðinga. Brynjólfur eða Binni, eins og hann var kallaður, var þar á meðal. Ljóst var frá upphafi að þar fór fagmaður fram í fingurgóma. Binni var maður hógværðar og hugprýði. Hann mætti skjólstæðingum sínum af virðingu, innlifun og samkennd ásamt þeim skilningi að sorgir, áföll og hvers konar kreppur í lífi fólks fara ekki í manngreinarálit. Það var bæði ánægjulegt og lærdómsríkt að vinna með honum. Færni hans naut sín hvað best í stuðningi við börn og foreldra. Algengt var að málum væri vísað til Samvistar frá grunnskólum eða barna- og unglingageðdeild (Bugl) þar sem biðlistar eftir skólasálfræðingum eða innlögnum á Bugl voru ansi langir. Best þótti okkur ef stuðningur við fjölskyldur, áður en í óefni var komið, gat nýst til að koma í veg fyrir innlögn á sjúkrastofnanir. Binni var sérstaklega næmur á líðan og aðstæður annarra. Hann var mannvinur og fann til gleði þegar ljóst var að meðferð hafði skilað árangri og fært fjölskyldum betri líðan og starfshæfni.
Þannig er í flestum tilvikum að þeir sem starfa við meðferðarstörf gera það í kyrrþey vegna þagnarskyldunnar sem starfið leggur þeim á herðar. Oft eru það því einungis samstarfsfélagar og þeir sem þjónustuna fá sem vita um þá fjölbreyttu hæfileika, mannúð og mannskilning sem að baki býr hverju máli. Ég tel að við öll sem störfuðum með Binna á þessum tíma höfum gert okkur góða grein fyrir mannkostum hans og hæfileikum sem klínísks sálfræðings og fjölskylduþerapista. Í umræðum og samtölum í teyminu okkar var jafnan stutt í kímni og glettni hjá Binna sem er svo ómetanlegur eiginleiki að hafa með í för þegar fjallað er um flókinn fjölskylduvanda.
Við kveðjum góðan og eftirminnilegan dreng í dag. Ég votta Emmu, Sólveigu dóttur hans og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Minningin lifir.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Brynjólfur Guðjón Brynjólfsson, Binni, skipaði sérstakan sess í þéttu bræðralagi nokkurra félaga sem stunduðu nám í sálfræði á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar og héldu hópinn síðan. Við nefndum hann Árósahópinn. Hver og einn skipaði vitaskuld sinn sess en hlutur Binna var einstakur; hann sagði sögur af snilld og listfengi á við fáa. Þær voru ósjaldan af sérstæðum karakterum á Eyrarbakka á árum áður, háttum þeirra og tilsvörum. En hann sagði líka jafn óborganlegar sögur úr minningasjóði hópsins svo við tókum bakföll.
Í sagnameistaranum okkar bjó þó viss þversögn því annars var hann meðal orðvörustu manna. En þegar orðvarir menn tala, sem vita að orð eru dýr, þá er hlustað grannt.
Binni hrópaði því ekki á torgum – en fór heldur ekki með veggjum. Hann orðaði hugsanir sínar vandlega og af nærgætni og hallaði aldrei réttu máli né orði til nokkurs manns. Þegar við bar að okkur félögum hans brást nærfærnin í gaspri eða slúðri um náungann laumaði hann jafnvel að gamalli minningu sem varpaði bjartara ljósi á atvik mála. Án þess að við gerðum okkur endilega grein fyrir því.
Þessir eðliskostir okkar góða vinar sýndu sig jafnframt í því að trúa mátti honum fyrir hverju sem var og það var vel geymt. Af því skapaðist traust og trúnaðarþörf. Ásamt með mildilegri veru og visku var allt yfirbragð hans prýðilega fallið til þeirra starfa sem hann menntaði sig til og gerði að ævistarfi. Í því fólst náin þjónusta við börn, foreldra þeirra og kennara, greining vanda, ráðgjöf og leiðsögn.
Sá var jafnframt háttur Binna, stæði hann andspænis mikilvægum ákvörðunum, að hann velti vandlega fyrir sér hverjum kosti og tók til þess þann tíma sem þurfti. Þar var engri hvatvísi fyrir að fara. Næsta víst er að í hugskoti hans ríkti einatt sú hugsun að allt orki tvímælis þegar gert er – og hugsað er. Þessi varfærni olli honum ugglaust nokkrum sálarháska þegar mest lét, en gerði það jafnframt að verkum að aldrei var flanað að neinu. Og niðurstaðan var jafnan farsæl.
Fáum duldist að fyrir Binna var Eyrarbakki miðpunktur alheimsins, enda rætur hans þar og uppvaxtarár. Yfir minningunum sveif heiðbjartur himinn og ólgandi brimið. Strákar að leik. Hann yfirgaf „Bakkann“ aldrei að fullu og þakkaði rækilega fyrir sig á liðnu ári með bókinni Mannlífsmyndir frá Eyrarbakka. Auk myndanna vöktu athygli afar glöggir myndatextar Binna. Menningarsjóður Bakkans er auðugri af.
Emma var kletturinn í lífi Binna fyrr og síðar. Sá klettur var einkar traustur síðustu árin eftir að skráveifur parkinsons fóru að herja, allt til síðasta dags. Samvistir þeirra voru farsælar, Sólveig Hlín sólargeislinn sem doktoreraði frá Kaupmannahafnarháskóla í hitteðfyrra og blessaði þau hjón sem afa og ömmu á liðnu ári með syninum Húma.
Fjölskylda og vinir syrgja nú genginn förunaut, þeirra á meðal Bára kæran bróður. En mildileg minningin lifir.
Brynjólfur G. Brynjólfsson var gegnheill maður í lund og reynd. Blessuð sé minning hans.
F.h. Árósahópsins,
Ásgeir Sigurgestsson