Laugardalur Síðastliðið haust var byrjað að fjarlægja grasið af vellinum.
Laugardalur Síðastliðið haust var byrjað að fjarlægja grasið af vellinum. — Morgunblaðið/Karítas
Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) hefur verið veitt framkvæmdaleyfi vegna færslu Laugardalsvallar og uppsetningar á hybrid-hitunarkerfi. KSÍ lagði inn umsókn 9. janúar sl. og á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 16

Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) hefur verið veitt framkvæmdaleyfi vegna færslu Laugardalsvallar og uppsetningar á hybrid-hitunarkerfi.

KSÍ lagði inn umsókn 9. janúar sl. og á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 16. janúar var samþykkt að gefa út leyfi og var vísað til skrifstofu stjórnsýslu og gæða að gefa það út.

Um er að ræða fyrsta áfanga í uppbyggingu Laugardalsvallar. Þessi fyrsti áfangi miðar að því að skipta út núverandi grasi fyrir svokallað hybrid-gras og setja hitunarkerfi undir keppnisvöllinn (grasflötinn).

Jafnframt verður grasflöturinn færður um átta metra að vestanverðri stúku Laugardalsvallar, þ.e. aðalstúkunni. Með þessari framkvæmd verður mögulegt að keppnisleikir fari fram á vellinum stærstan hluta ársins.

Í umsögn verkefnastjóra skipulagsstjóra kemur fram að ekki er lagst gegn því að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir umræddri framkvæmd í tengslum við uppbyggingu þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu, Laugardalsvallar.

Þetta sé fyrsti áfangi í mikilvægri framkvæmd sem lýtur að því að bæta bágbornar núverandi aðstæður á Laugardalsvelli.

Verkefnastjórinn segir að verkið sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og gildandi deiliskipulag fyrir vesturhluta Laugardals. Áætlað er að framkvæmdum ljúki í vor og hægt verði að leika á vellinum í sumar. sisi@mbl.is