Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu sinni.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu sinni. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stóra tjónið er að þessi fyrirtæki, sem ætluðu að taka til starfa eða auka umfang sitt eða byggja upp á Íslandi og skapa hérna útflutningstekjur, koma ekki. Það er risatjónið.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Hvammsvirkjun muni verða að veruleika, jafnvel þótt héraðsdómur hafi fellt úr gildi virkjunarleyfi sem Orkustofnun hafði veitt fyrirtækinu. Segir hann ríkan vilja hjá yfirvöldum til þess að þessi framkvæmd komist á koppinn, enda séu gríðarlegir hagsmunir undir.

Hörður er gestur Spursmála að þessu sinni og upplýsir þar að tekjur af virkjuninni, þegar hún verði komin í gagnið, geti numið um 7 til 8 milljörðum króna á ári. Það sé þó aðeins brotabrot af þeim hagsmunum sem séu undir, því að orkunni sem virkjunin geti framleitt verði fleytt til verkefna. Þau verði hins vegar ekki að veruleika fyrr en virkjunin sé komin á koppinn og því séu áframhaldandi tafir á framkvæmdum til mikils skaða fyrir þjóðarbúið.

„Það er risatjónið“

„Stóra tjónið er að þessi virkjun hefði komist í gagnið 2029 og ef hún frestast um eitt til tvö ár, og ef við missum sumarið, frestast hún sjálfkrafa um eitt ár, það eru áhrifin á samfélagið [...] stóra tjónið er að þessi fyrirtæki, sem ætluðu að taka til starfa eða auka umfang sitt eða byggja upp á Íslandi og skapa hérna útflutningstekjur, koma ekki. Það er risatjónið,“ segir Hörður og bendir á að tjónið í þessu tilliti nemi tugum milljarða króna.

Hörður viðurkennir þó að niðurstaða héraðsdóms hafi nú þegar leitt yfir fyrirtækið tjón sem nemi einhverjum hundruðum milljóna en sé viðráðanlegt. Þá verði að hægja á útboðsferli og að bótaskylda muni myndast gagnvart þeim verkefnum sem muni stöðvast. Ekki gangi að leggja af stað í frekari útboð að svo stöddu, þar sem það geti meðal annars skaðað trúverðugleika fyrirtækisins til frambúðar ef ekki sé hægt að standa við gerða samninga.

Orkuveitan ber ábyrgð

Verst segir Hörður að líta til þess að sú staða sem upp er komin sé komin til vegna ákvarðana sem Íslendingar hafi sjálfir tekið. Þannig sé ekki nægilegt framboð af orku, sem þó hefði verið hægt að afla. Bendir hann á að þar sé ábyrgð þeirra sem töluðu á þann veg að næg orka væri í landinu nú þegar mjög mikil.

Er hann þá spurður hvort hann sé þar að vísa til Bjarna Bjarnasonar, fyrrverandi forstjóra Orkuveitunnar, og játar hann því. Fleiri eigi þó hlut að máli. „Sérstaklega fagfólkið eins og þessir stjórnendur Orkuveitunnar á þessum tíma. Þótt það hafi breyst ber fyrirtækið mikla ábyrgð. Þetta eru mikið til sömu starfsmenn enn þá sem í hvert sinn þegar við komum fram og bentum á þetta drógu úr þessu, að við værum haldin einhverju virkjanablæti og að okkur liði bara illa ef við værum ekki að virkja.“

Segir Hörður að þessi staða sé bagaleg. Hún valdi því að fyrirtæki geti ekki haldið atvinnuuppbyggingu áfram og þá sé hætt við að þetta ástand leiði til hækkunar orkuverðs.

Laxinn dafnar vel

Í viðtalinu er rætt við Hörð um laxastofninn í Þjórsá og hafa umhverfissamtök bent á að með Hvammsvirkjun væri honum ógnað. Bendir Hörður á að þessi sami stofn hafi stækkað fjórfalt frá því að virkjanaframkvæmdir hófust í Þjórsá. Þá séu um 40% af stofninum veidd neðar í ánni og ef þörf krefði til þess að verja stofninn væri mönnum í lófa lagið að draga úr veiðum. Hins vegar sýni reynslan, bæði í Blöndu fyrir norðan og Jöklu fyrir austan, að sambýli Landsvirkjunar og laxins hafi reynst báðum heilladrjúgt.

Markmið Landsvirkjunar sé að stofninn styrkist í tengslum við framkvæmdir fyrirtækisins. Fyrirtækið hafi metnað til þess að það takist.

Stórtíðindi úr heimi stjórnmála og handbolta

Lið Íslands firnasterkt

Hermann Nökkvi Gunnarsson blaðamaður Morgunblaðsins var staddur í Washington D.C. þegar Donald Trump var settur í embætti. Hann segir magnað að hafa upplifað höfuðborgina þennan dag. Hann telur fráleitt að Elon Musk hafi heilsað að nasistasið þegar hann kom fram á samkomu í tengslum við embættistöku forsetans. Andstæðingar hans og Trumps noti þetta atvik til þess að afbaka framferði uppfinningamannsins.

Bjarni Helgason, íþrótta‑
fréttamaður á Morgunblaðinu, tekur í sama streng. Hans hugur er þó fremur við heimsmeistaramótið í handbolta. Hann fer yfir stöðuna á íslenska landsliðinu í Spursmálum að þessu sinni. Hann telur liðið geta unnið öll önnur lið á mótinu, að Danmörku undanskilinni.

Höf.: Stefán E. Stefánsson