Vetrarbrautin yfir Íslandi með Þór/Júpiter á svipuðum slóðum og hann er nú, rétt fyrir framan og ofan við stjörnumerkið sem samtíðarmenn Snorra kölluðu Úlfskjaft, skammt fyrir ofan Orion.
Vetrarbrautin yfir Íslandi með Þór/Júpiter á svipuðum slóðum og hann er nú, rétt fyrir framan og ofan við stjörnumerkið sem samtíðarmenn Snorra kölluðu Úlfskjaft, skammt fyrir ofan Orion. — Mynd/Zastavki.com
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorri gekk í garð í gær, föstudag í 13. viku vetrar. Árni Björnsson rekur í kafla um tímatal í 7. bindi Íslenskrar þjóðmenningar að ekki sé ljóst hvernig fornu mánuðirnir voru stilltir af í öndverðu

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Þorri gekk í garð í gær, föstudag í 13. viku vetrar. Árni Björnsson rekur í kafla um tímatal í 7. bindi Íslenskrar þjóðmenningar að ekki sé ljóst hvernig fornu mánuðirnir voru stilltir af í öndverðu. Í Skáldskaparmálum Snorra Eddu segir: „Frá jafndægri er haust, til þess er sól sest í eyktarstað. Þá er vetur til jafndægris, þá er vor til fardaga, þá er sumar til jafndægris.“ Í fornu rímtali frá dögum Snorra er stöku sinnum vísað til þess hvernig heiðnir menn töluðu um tímatal og himintungl: „Heiðnir menn gáfu nöfn sólmerkjum eftir því sem þeim þótti veðráttu farið eða gróða hvern mánuð.“

Með sólmerkjum er átt við það sem við köllum merki Dýrahringsins, á þeim baug á himni sem sól, tungl og reikistjörnur ganga um – frá jörðu séð. Tunglið kviknar alltaf í nýju merki í hverjum tunglmánuði og mjakar sér þannig eftir þessum sólbaug yfir árið; kviknar þó aldrei alveg á sama stað ár eftir ár, heldur tekur það nítján ár að komast aftur á sama stað. Þá tímaeiningu kölluðu fornmenn tunglöld. Sólin fer eina ferð um bauginn á ári en frá öld til aldar færir hún sig löturhægt á milli sólmerkja, miðað við dagatalið. Á dögum Snorra var vorpunktur sólar kominn langt inn í fiskamerkið, en heimsaldur fiskanna hafði runnið upp í kringum fæðingu Krists – þegar vorpunkturinn mjakaðist inn í það merki. Nú er sólin að komast yfir í Vatnsberann á vorjafndægri og dögun nýs heimsaldurs því runnin upp.

Ekki er ólíklegt að þau nöfn sem talað er um að heiðnir menn hafi gefið sólmerkjum séu varðveitt í mánaðaheitunum gömlu og að þau hafi tekið mið af gangi sólarinnar sem Völuspá segir að eigi salina á himni. Í tengslum við þá takmörkuðu fróðleiksmola sem okkur eru skammtaðir um heiti tímaskeiða í Alvíssmálum kemur fram að heiti næturinnar hafi ekki verið þau sömu með mönnum og ólíkum goðmögnum. Engar heimildir eru þó um að gömlu mánuðirnir hafi haft ólík heiti eftir tilverustigum.

Í Gylfaginningu er sagt frá hinu goðmagnaða tungutaki um fyrirbæri heimsins á borð við regnbogann – sem heiti Bifröst í heimi guðanna og sé brú þeirra til himins – og því gæti þorrinn með sama hætti hafa heitið eitthvað annað með ásum. Þorrinn er oft talinn tengjast Þór – sem var heiti reikistjörnunnar Júpiters á dögum Snorra. Í tilefni þorrakomunnar er því við hæfi að líta upp og fylgjast með Þór sem nálgast nú hið forna stjörnumerki Úlfskjaft (þekkt sem Regnstirnið eða Hyades), vaff-laga merki rétt ofan og til hægri við Orion og neðan við Sjöstirnið. Þór snýr fljótlega til baka, vonandi án þess að til átaka komi við Úlfinn. Þór er sjaldan heima hjá sér en hann á ríki þar er Þrúðvangar heita með höllinni Bilskirni sem Snorri talar um sem sal. Höllin er því líklega á sólbaugnum, og þá hugsanlega það sólmerki sem kallað er Þorri með mönnum – en kannski Þrúðvangar eða Bilskirnir með ásum.