Ellert B. Schram, fv. ritstjóri og þingmaður, lést í fyrrinótt, 85 ára að aldri.
Ellert fæddist í Reykjavík 10. október 1939. Foreldrar hans voru Björgvin Schram, stórkaupmaður í Reykjavík, og Aldís Þorbjörg Brynjólfsdóttir húsmóðir.
Ellert lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1966 og öðlaðist lögmannsréttindi sama ár. Hann var blaðamaður á Vísi, vann á málflutningsskrifstofu Eyjólfs K. Jónssonar og fleiri 1965 og 1966, var skrifstofustjóri borgarverkfræðings 1966-71, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1971-79 og 1983-87, alþingismaður Samfylkingarinnar 2007-2009 og fór tvisvar á þing sem varaþingmaður, 2018 og 2019. Hann var ritstjóri Vísis og DV 1980-95, formaður KSÍ 1973-89, forseti ÍSÍ 1991 til 2006.
Ellert var formaður Stúdentaráðs HÍ, SUS 1969-73 og fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hann sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969-73 og 1978-81 og var í útvarpsráði 1975-83. Ellert sat í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 1982-86 og 1990-94, var einn af varaforsetum UEFA 1984-86 og gegndi áhrifastörfum fyrir UEFA allt til 2010.
Ellert varð fimm sinnum Íslandsmeistari í fótbolta með KR árin 1959-1968 og sjöfaldur bikarmeistari á sama tímabili. Hann var allt til 2019 markahæstur KR-inga frá stofnun félagsins. Hann lék 23 landsleiki og var í fjórgang sæmdur titlinum knattspyrnumaður ársins. Ellert sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960-69 og var formaður síðustu tvö árin. Hann var sæmdur fálkaorðunni og gullmerki KR, var heiðursformaður KSÍ og heiðursforseti ÍSÍ.
Ellert skrifaði bækurnar Eins og fólk er flest, safn greina og smásagna, árið 1991, og Á undan sinni samtíð, sem kom út 2006. Árið 2020 komu endurminningar hans út á bók er nefndist Ellert – Endurminningar Ellerts B. Schram.
Eftirlifandi eiginkona Ellerts er Ágústa Jóhannsdóttir, framhaldsskólakennari, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Eva Þorbjörg og Ellert Björgvin. Með fyrri eiginkonu, Önnu G. Ásgeirsdóttur, átti Ellert börnin Ásdísi Björgu, Örnu, d. 2022, Aldísi Brynju og Höskuld Kára. Sonur Ellerts og Ásdísar Þórðardóttur er Arnar Þór Jónsson, ættleiddur.