Albert Þór Jónsson
Albert Þór Jónsson
Í íslenskri heilbrigðisþjónustu er margt framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk og vilji til góðra verka en slök stjórnun og framtíðarsýn.

Albert Þór Jónsson

Skortur á samkeppni og framtíðarsýn hafa haft veruleg áhrif á þróun heilbrigðiskerfisins á undanförnum árum. Í ljósi þess að 30% af ríkisútgjöldum fara til heilbrigðismála hefur mikilvægi meðferðar fjármuna aldrei verið meira. Hámarka þarf nýtingu fjármuna skattgreiðenda og það gerist með því að vera með næga samkeppni á markaði milli aðila sem starfa í opinbera kerfinu og þeirra sem starfa á einkamarkaði. Skilgreina þarf virðiskeðjuna betur. Hefjum sókn í heilbrigðismálum og gerum íslenska heilbrigðiskerfið öflugra og skilvirkara með breyttri stefnumörkun og framtíðarsýn sem tekur mið af viðskiptavinum þess, sem eru íslenskir skattgreiðendur. Æskilegt er að íslenska heilbrigðiskerfið hafi ákveðna grunnþjónustu fyrir alla landsmenn án endurgjalds en að sérhæfðari meðferðir séu fáanlegar á markaði. Með þessu er gætt jafnræðissjónarmiða auk þess að virkja einkageirann í heilbrigðiskerfinu og auka þannig skilvirkni og samkeppni. Á Norðurlöndum hafa rekstrarform á einkamarkaði veitt opinberum rekstri verulegt aðhald til að efla samkeppni og auka samkeppnishæfni.

Margar meðferðir og aðgerðir eru betur komnar í höndum einkaaðila í ljósi þess að þeir eru betri í að meta eftirspurn eftir þjónustunni á hverjum tíma. Með ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins verður til mikil sóun en mikilvægi þess að neytendur taki eigin ákvarðanir er oft vanmetið. Rekstrarform á einkamarkaði eru nauðsynlegur valkostur í heilbrigðismálum til að ná hámarksárangri í rekstri.

Skynsamlegt væri að líta til uppbyggingar hjá vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum á sínum heilbrigðiskerfum sem eru með þeim fremstu í heimi. Hérlendis þurfa eldri borgarar og fólk sem þarf aðhlynningar vegna ýmissa sjúkdóma að sætta sig við ófullnægjandi þjónustu vegna skorts á skipulagi og óskýrum verkferlum. Skortur á hjúkrunarheimilum, heimaþjónustu, forvörnum og heilbrigðri skynsemi hefur aukið verulega á vandann. Í íslenskri heilbrigðisþjónustu er margt framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk og vilji til góðra verka en slök stjórnun og framtíðarsýn. Mikilvægt er að auka samkeppni með rekstrarformum á einkamarkaði sem veita aðhald og gera þannig kröfu til opinbers rekstrar. Mikilvægt er að gera ráð fyrir nýjum rekstrarformum þannig að biðlistar hverfi og þjónustan sé með svipuðum hætti og hjá frændum okkar á Norðurlöndunum. Sá sem hefur heilsu hefur von, og sá sem hefur von hefur allt.

Höfundur er viðskiptafræðingur (cand. oecon).

Höf.: Albert Þór Jónsson