Skáldið Rýnir segir verkið fallega skrifaðan ljóðaseið um liðinn tíma, minningar og vonina.
Skáldið Rýnir segir verkið fallega skrifaðan ljóðaseið um liðinn tíma, minningar og vonina. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Pólstjarnan fylgir okkur heim ★★★★· Eftir Margréti Lóu Jónsdóttur. Salka, 2024. Kilja, 37 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar voru fyrst veitt fyrir þremur áratugum, í byrjun fyrir skáldsögu annað hvert ár en frá 2005 árlega fyrir ljóðahandrit. Það er vel við hæfi að minnast skáldsins Tómasar með svo uppbyggilegum hætti og hefur valnefndunum auðnast að verðlauna mörg áhugaverð handrit á þeim árum, eftir bæði nýliða í útgáfu ljóða og reynslubolta. Nýjasti verðlaunahafinn og sá nítjándi fyllir svo sannarlega seinni flokkinn, því Margrét Lóa Jónsdóttir hefur áður sent frá sér 11 ljóðabækur og skáldsögu að auki; í á fjórða áratug hefur rýnir reglulega lesið skrif hennar og stundum fjallað um þau.

Pólstjarnan fylgir okkur heim er einn samfelldur bálkur sem teygist yfir rúmlega 30 síður, knappur og fagmannlega slípaður af þjálfuðu skáldinu; „ljóðaseiður“ kallar dómnefnd verðlaunanna hann og á ágætlega við. Ljóðmælandinn er á útikaffihúsi erlendis og hugurinn reikar aftur í tímann – „tek í útrétta hönd tímans“ segir á einum stað um hugrenningarnar; ljóðið flæðir fram í athyglisverðu og vel mótuðu vitundarstreymi. Og þar sem vindurinn flettir í minnisbók ljóðmælandans hugsar hann um hið liðna, „á meðan jörðin snýst / einsog skopparakringla / um möndul sinn“, og hvernig í lífinu eru bæði ljós og skuggar: „ég hugsa um svartamyrkur og brim / og sólskinið heima sem við fáum / aldrei nóg af“. Hugsað er um flóttafólk og þá sem fallið hafa í stríði, um ástina þar sem „kviður snertir kvið / í orðlausum ástarleik“ og áhrifarík unglingsárin eru lykiltími mótunar í þessum snúningi um möndulinn. Svo vitaskuld dauðinn; lát móður markar skil sem fallega er ort um og ljóðmælandinn nálgast svo veikan föður og „með gagnsæjum fingrum / snertir andartakið lokuð augu þín“. Eftir hugleiðingar um hið liðna finnur lesandinn fyrir þakklæti í orðunum sem ljómælandinn raðar sáttur upp, um „fegurð tímans sem býr innra með mér / og löngunina til að skilja heiminn“. Og hin gamla festa á stjörnuhimninum sem um aldir hefur hjálpað ferðalöngum að rata er fallega notuð hér til að vísa leiðina áfram í lífinu: „pólstjarnan fylgir okkur heim / þegar við villumst / þegar við siglum inn í nóttina án áttavita“.

Ljóðið Pólstjarnan fylgir okkur heim flæðir vel mótað yfir síðurnar sem eru án blaðsíðutals og það hnykkir á því að um eitt heildstætt verk er að ræða. Margrét Lóa er fallega myndvíst skáld og skrif hennar eru öguð en þó líka tilfinningarík. Í umsögn dómnefndar Tómasarverðlaunanna er talað um að verkið sé vandað og vel byggt, með „skýrum boga“, með tæru og grípandi ljóðmáli. Taka má undir þau orð um þennan fallega skrifaða ljóðaseið um liðinn tíma, minningar og vonina.