Kristín Helga „Fullorðið fólk og börn eru alltaf saman að glíma við sameiginlegan veruleika og viðfangsefni.“
Kristín Helga „Fullorðið fólk og börn eru alltaf saman að glíma við sameiginlegan veruleika og viðfangsefni.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég byrjaði seint að skrifa, var 35 ára þegar fyrsta bókin mín kom út. Þá var ég að vinna á Stöð 2 og var barnshafandi, gekk með dóttur mína Soffíu Sóleyju, en á meðgöngunni var ég með klemmda taug í rassinum og gat hvorki staðið né setið

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég byrjaði seint að skrifa, var 35 ára þegar fyrsta bókin mín kom út. Þá var ég að vinna á Stöð 2 og var barnshafandi, gekk með dóttur mína Soffíu Sóleyju, en á meðgöngunni var ég með klemmda taug í rassinum og gat hvorki staðið né setið. Ég þurfti því að liggja heima um hásumar og það eina sem ég gat gert var að skrifa. Afraksturinn var fyrsta bókin á mínum rithöfundarferli, Elsku besta Binna mín,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur sem sendi frá sér tvær bækur á nýliðinu ári, fimmtu bókina um Obbuló í Kósímó, og áttundu bókina um Fíusól, í logandi vandræðum. Fyrrnefnd dóttir Kristínar Helgu, Soffía Sóley, er fyrirmyndin að gleðisprengjunni Fíusól, sem er orðin vel þekkt meðal bæði barna og fullorðinna, enda 21 ár frá því fyrsta bókin um þá kraftmiklu stelpu kom út.

„Ég hafði verið dugleg árin á undan að skrifa eina til tvær bækur á ári og ætlaði að taka mér smá andrými, en skrifaði persónulegar sögur fyrir litlu manneskjuna mína, hana Soffíu Sóleyju sem þá var sjö ára. Hún var skapstór og bráðlát dramadrottning, en við vorum báðar leiðar á sífelldum neikvæðum samskiptum. Mér fannst ég alltaf vera að segja hættu, stattu, sittu, vertu. Mig langaði því að skrifa bók um þessi samskipti okkar, sem gátu verið svolítið skondin og skemmtileg líka. Svo kom í ljós að það voru 20 þúsund börn í landinu að glíma við svipaða hluti.

Bækurnar um Fíusól fjalla allar um fjölskyldusamskipti, hvernig við tölum við hvert annað og hvað kemur upp á hjá okkur í daglega lífinu, sem getur verið risastórt og óyfirstíganlegt fyrir litla manneskju, þó okkur fullorðna fólkinu finnist það smávægilegt. Börnin eru alltaf að klífa tinda, frá því þau vakna á morgnana og þar til þau sofna á kvöldin. Tilgangur minn var að eiga þetta samtal við mína frábæru litlu konu, sem samt var svo stór í sér og átti að fá að vera það,“ segir Kristín Helga og bætir við að það sé ekkert launungarmál að hún sæki margt í sitt líf og fjölskyldu sinnar, sérstaklega í bókunum um Fíusól.

„Auðvitað ræni ég eins og allir höfundar samtölum, samskiptum og uppákomum úr hringnum mínum. Í þessum hliðarheimi sem sögurnar eru þá er Soffía Sóley fyrirmyndin að Fíusól og ég á aðra dóttur sem heitir Birta og kallast á við Biddu í bókunum, og þriðja dóttir mín heitir Erla en er kölluð Pippa í bókunum og oft í veruleikanum líka. Kjölturakkar bókanna voru líka til í raunheimum og eru grafnir í garðinum okkar. Grænilundur er samt ekki Einilundur og Grasabær er ekki Garðabær, en allt dansar þetta hlið við hlið. Ég er búin að stela svo mörgum sögum frá dætrum mínum að þær segja stundum að þær viti ekki lengur hvað gerðist í alvörunni og hvað sé skáldskapur. Þær grínast með að ég hafi rústað barnæsku þeirra því þær eigi svo mikið af fölskum minningum úr bókunum. Það er rosalegt að bera ábyrgð á þessu!“ segir Kristín Helga og hlær.

Mikilvægur söngleikur

Kristín Helga segir að Fíasól hafi þó klofið sig hratt frá veruleikanum og farið að lifa sjálfstæðu lífi.

„Hún óx upp fyrir mig og fór langt frá okkur öllum í fjölskyldunni, í sitt eigið ferðalag, án þess þó að yfirgefa okkur. Hún er alltaf kunnuglegt þema. Ég ákvað að skrifa nýjustu bókina um Fíusól í kjölfar leiksýningarinnar um hana, þar sem Bragi Valdimar samdi dásamlega söngtexta og tónlist.

Mér fannst söngleikurinn svo mikilvægur, ekki aðeins í barnamenningarlegu samhengi, heldur líka sem innlegg í risastóra og alvarlega umræðu um og við börn, og réttindi þeirra og öryggi. Þau í Borgarleikhúsinu gripu þann þráð listilega. Þórunn Arna og Maríanna Clara tóku efnið svo fallega í fangið í þessari uppsetningu, að börn verða að vera meðvituð um réttindi sín, um barnasáttmálann og standa með hvert öðru. Fíasól á alltaf meira og meira erindi með þennan boðskap sýningarinnar, því börn á Íslandi lifa við ofboðslega mismunandi aðstæður, samsetning samfélagsins er líka að verða flókin og við verðum að gæta bræðra okkar og systra,“ segir Kristín Helga og bætir við að þau fjölskyldan hafi setið í salnum á frumsýningu og tárfellt.

„Við höfðum öll upplifað í raunheimum ýmis samtöl sem þar fóru fram, og þessi sýning snerti mig mikið. Hún ber í sér mikilvæg skilaboð. Fíasól er aktívisti sem veður í verkin. Ýmislegt í nýju bókinni sæki ég í raunheima, til dæmis þegar hún tekur þátt í Skólavisjón en vinnur ekki. Stóru sigrarnir eru alltaf í hjartanu, við þurfum öll að muna það. Að sigurtilfinningin geti verið til staðar í þínu hjarta þó að þú hafir ekki fengið bikarinn. Atriðið þar sem mamma Fíusólar hellti yfir tölvuna er líka úr raunheimum. Ég hellti yfir mína tölvu þegar ég var að skrifa þessa nýju bók.“

Heppin með samstarfsmann

Kristín Helga segist þakklát fyrir samstarfið við Halldór Baldursson, en hann hefur myndlýst bæði bækur hennar um Fíusól og þær sem fjalla um Obbuló í Kósímó, auk fleiri bóka.

„Halldór er einn okkar besti teiknari hér á landi á, og þó víðar væri leitað. Bækurnar okkar um Obbuló í Kósímó komu þannig til að okkur Halldór langaði að gera bók saman þar sem myndirnar væru í öndvegi, þær segðu söguna en textinn myndi styðja við þær, en ekki öfugt, eins og í bókunum um Fíusól. Halldór á í dóttur sinni eina litla Obbuló sem er „gammel klog“-týpa og það skilar sér í teikningunum. Honum tekst að gera allt fyndið og kasta því lengra með verkum sínum. Ég er ótrúlega heppin að eiga samstarfsmann í Halldóri, en okkur langaði líka með bókunum um Obbuló að segja hversdagssögur af litlum leikskólamanneskjum, því fullorðið fólk og börn eru alltaf saman að glíma við sameiginlegan veruleika og viðfangsefni. Alls konar aðstæður, bæði fyndnar og dramatískar, má ræða út frá Obbuló.

Þegar ég skoða bækur sem verið er að gefa út fyrir yngstu krakkana, þá sé ég að við eigum ótrúlega magnaða höfunda, en því miður er líka mikið gefið út af lítt vönduðu efni fyrir minnstu börnin. Til dæmis er mikið gert af því að nota gervigreind til að myndlýsa bækur í stað þess að leita til raunverulegra listamanna. Útkoman er steindauðar myndir sem vantar alla dýpt. Þá hverfur einhver tilfinning sem við skynjum í stílbrögðum alvöru teiknara. Mig langar að teppaleggja Ísland með bókum eftir fólk eins og Halldór Baldursson, Rán Flygenring, Áslaugu Jóns, Sigrúnu Eldjárn, Lindu Ólafs, Bergrúnu Írisi og fleiri frábæra myndhöfunda okkar,“ segir Kristín Helga sem starfar sem skíðaleiðsögumaður á Ítalíu nú í janúar og febrúar, eins og oft áður.

„Þetta er hin vinnan mín, leynivinnan, og þar fæ ég líka oft hugmyndir í sögur.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir