Ríkisstjórnarfundur Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra og talsmaður ríkisstjórnarinnar í styrkjamálinu, svaraði spurningum um hina ólögmætu ríkisstyrki til Flokks fólksins en kjörnir ráðherrar vildu ekkert segja.
Ríkisstjórnarfundur Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra og talsmaður ríkisstjórnarinnar í styrkjamálinu, svaraði spurningum um hina ólögmætu ríkisstyrki til Flokks fólksins en kjörnir ráðherrar vildu ekkert segja. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir Flokk fólksins ekki fá greiddan ríkisstyrk vegna ársins 2025, en styrkina ber lögum samkvæmt að greiða út fyrir 25. janúar ár hvert. Hins vegar er enn óljóst hvernig verður tekið á 240 milljóna króna…

Andrea Sigurðardóttir

Andrés Magnússon

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir Flokk fólksins ekki fá greiddan ríkisstyrk vegna ársins 2025, en styrkina ber lögum samkvæmt að greiða út fyrir 25. janúar ár hvert. Hins vegar er enn óljóst hvernig verður tekið á 240 milljóna króna styrkjum sem greiddir voru til flokksins úr ríkissjóði liðin þrjú ár, án þess að Flokkur fólksins uppfyllti lagaskilyrði til þess.

Aðrir ráðherrar voru ófáanlegir til þess að ræða málið við blaðamenn og vísuðu á fjármálaráðherra. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gaf engan kost á viðtölum, en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vildi ekki einu sinni ræða pólitíska þýðingu málsins, hvað þá efnislega þætti.

Þau viðbrögð gefa hins vegar til kynna hversu viðkvæmt málið er fyrir ríkisstjórnina, sem er 35 daga gömul í dag. Þess eru fá ef nokkur dæmi að forsætisráðherra biðjist undan því að ræða stjórnarmálefni, óháð því undir hvaða ráðuneyti þau heyra.

Inga fær ekki styrkinn

Morgunblaðið reyndi að spyrja ráðherra um stöðu styrkjamálsins eftir ríkisstjórnarfund í gær, en sem fyrr segir var Daði Már einn til svara, en aðrir ráðherrar vísuðu allir á hann.

„Verklagi ráðuneytisins hefur verið breytt og einungis þeir sem uppfylla skilyrði laganna fá greitt í samræmi við þau,“ segir fjármálaráðherra.

Verður Flokkur fólksins krafinn um endurgreiðslu vegna þeirra styrkja sem hann hefur fengið greidda þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði laga?

„Allt það mál er í vinnslu. Þetta snýr auðvitað að fleiri aðilum sem greiða þessa styrki út, þannig að það mál er í vinnslu í ráðuneytinu.“

Hefur það áhrif að formaður Flokks fólksins segist hafa vitað að flokkurinn uppfyllti ekki skilyrði?

„Eins og ég segi, málið er bara í heild sinni í skoðun. Það verður bara að koma í ljós.“

Hvernig getur það gerst, að styrkir séu greiddir út ár eftir ár til flokka sem ekki uppfylla skilyrði?

„Það er von að þú spyrjir, og þess vegna þarf auðvitað að yfirfara hvernig það gat gerst, sérstaklega þegar það er misræmi milli ólíkra aðila um það hvernig framkvæmdin er, þannig að þetta þarf ég að yfirfara,“ segir Daði Már að lokum og hljóp á næsta fund.

Inga á flótta og Kristrún þögul

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, sem vanalega er hin skrafhreifnasta, flýtti sér í gegnum hóp blaðamanna, sem biðu fyrir utan ríkisstjórnarfundinn, og vildi engum spurningum svara.

Utan einni, því í þann mund sem lyftudyrnar lokuðust á eftir henni svaraði hún spurningu blaðamanns um hvort hún vildi ekki svara spurningum:

„Nei.“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra þvertók fyrir að svara nokkru um styrkjamálið og vísaði líkt og aðrir ráðherrar á Daða Má, sem raunar var farinn úr húsi þegar þar var komið sögu og ekki lengur til svara.

Einu gilti þótt óskað væri svara um pólitíska þýðingu þess fyrir grundvöll ríkisstjórnarinnar, sem hinn ókjörni fjármálaráðherra væri ekki í neinni stöðu til þess að svara, en fyrirsvar ríkisstjórnarinnar er ljóslega í verkahring forsætisráðherra.

En finnst forsætisráðherra vera í lagi að vera með ráðherra í ríkisstjórn, sem játar að hafa ekki farið að lögum og segir að hún ætli ekki að fara að lögum?

„Ja, þá verð ég að fá aðeins meiri tíma til þess að kynna mér málið,“ svaraði Kristrún loks og gaf til kynna að hún gæti svarað spurningum um það eftir næsta ríkisstjórnarfund, sem boðaður er á þriðjudag.

Grandalaus um eigin ábyrgð

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra vísaði líkt og aðrir ráðherrar á Daða Má og sagði málið óviðkomandi hennar ráðuneyti.

Það virtist koma ráðherranum í opna skjöldu þegar blaðamaður benti á að dómsmálaráðherra færi með framkvæmd úthlutunar á styrkjum til stjórnmálaflokka vegna útlagðs kostnaðar við kosningabaráttu. Þeir styrkir eru háðir sömu skilyrðum og önnur opinber framlög til stjórnmálaflokka.

Eigi að síður vildi Þorbjörg ekki svara neinu til og benti áfram á hinn brottflogna fjármálaráðherra.

Einn ráðherranna skar sig þó úr, því hann vísaði ekki á Daða Má um leið og hann hafnaði því að svara spurningum blaðamanna eftir langan ríkisstjórnarfund. Það var Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir Flokk fólksins, sem skundaði ákveðið til dyra í gegnum blaðamannahópinn og sagði hátt:

„Ég er svangur. Ég verð að borða!“

Styrkjamál Flokks fólksins

Fékk styrki í trássi við lög

Flokkur fólksins er skráður sem félagasamtök á fyrirtækjaskrá í stað þess að vera skráður á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins með öðrum flokkum sem buðu fram í kosningum til Alþingis. Þrátt fyrir að félagasamtök geti boðið fram í kosningum hefur sá böggull fylgt skammrifi frá árinu 2021 að þau mega ekki þiggja opinbera styrki til stjórnmálasamtaka án þess að skrá sig sem slík hjá Skattinum og lúta þar með aukinni upplýsingaskyldu. Flokkur fólksins fékk um 240 milljónir króna úr ríkissjóði á árunum 2022-2024 þrátt fyrir að uppfylla ekki lagaskilyrði um þessa skráningu. Í viðtali við Morgunblaðið viðurkenndi Inga Sæland, formaður flokksins og ráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, að hún hefði vitað að flokkurinn uppfyllti ekki skilyrðin, en þvertók fyrir að framlögin yrðu endurgreidd.