Góðbændur Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson í fjósinu.
Góðbændur Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson í fjósinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Kýrnar á bænum Stóru-Mörk I undir Eyjafjöllum í Rangárþingi eystra eru þær afurðahæstu á landinu. Tölur um nyt mjólkurbúa landsins á síðasta ári liggja fyrir og samkvæmt þeim var mjólkurmagn á hverja kú á bænum 9.084 kíló

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Kýrnar á bænum Stóru-Mörk I undir Eyjafjöllum í Rangárþingi eystra eru þær afurðahæstu á landinu. Tölur um nyt mjólkurbúa landsins á síðasta ári liggja fyrir og samkvæmt þeim var mjólkurmagn á hverja kú á bænum 9.084 kíló. Þetta er svipað og gerðist í fyrra en þá voru kýr þessar einnig þær sem mjólkuðu mest. En nú er niðurstaðan úr skýrsluhaldi Íslandsmet, hvorki meira né minna: afurðir kúa á Íslandi hafa ekki áður farið yfir 9.000 kíló að meðaltali.

Vinna og vandvirkni

Í Stóru-Mörk búa hjónin Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson og er rekstur þeirra tvískiptur. Annars vegar kúabú í Stóru-Mörk I og hins vegar Stóru-Mörk III, enda þótt kýrnar séu í sama fjósi og fari til mjalta í sama róbot. Samt bregður svo við – án þess að skýringar liggi fyrir – að kýrnar á bæ nr. 3 mjólka umtalsvert minna, eða 7.600 kíló á ári.

„Mikil vinna og vandvirkni eru sennilega helstu skýringarnar á þessum góða árangri,“ segir Aðalbjörg Ásgeirsdóttir í samtali við Morgunblaðið. „Jafnvægi í búskapnum skiptir líka miklu máli. Þar gætum við þess að kýrnar og aðrir gripir í fjósi fái alltaf það sama; aðeins gróft hey og kjarnfóður. Svo þarf að fylgjast vel með öllu og passa sig á því að gera ekki mistök.“

Milljón lítrar eru markmið

Innvegið mjólkurmagn frá Stóru-Mörk I og III, frá 122 kúm, var í fyrra samtals 980 þúsund lítrar en takmarkið var ein milljón. „Ekki munaði miklu og við hljótum að komast yfir milljón lítra múrinn í ár,“ segir Aðalbjörg.

Næst á eftir Stóru-Mörk í afurðamagni árskúa er Syðri-Hamar 3 í Holtum í Rangárvallasýslu. Þar er magn per kú 8.876 kíló. Litlu lægri eru Kolsholt í Flóa, Tannstaðabakki í Hrútafirði og Hólmur í Landeyjum.