60 ára Katrín fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í Reykjavík og á Seltjarnarnesi og lauk stúdentsprófi frá MR. Hún hlaut styrk til náms í Bandaríkjunum og lauk bakkalárgráðu í hagfræði frá Occidental College með stærðfræði sem aukagrein. Að því loknu fluttist hún á austurströnd Bandaríkjanna, þar sem hún lauk meistaranámi í vinnumarkaðshagfræði við Cornell University. Að námi loknu starfaði hún fyrst í fjármálaráðuneytinu og síðar á Þjóðhagsstofnun sem forstöðumaður þjóðhagsspár.
„Á þessum árum fræddist ég um allt sem varðar ríkisfjármál og fjárlagagerð og um allt sem varðar íslenskan þjóðarbúskap og gerð þjóðhagsspáa. Jafnframt kynntist ég fjölmörgu fróðu og skemmtilegu fólki.“
Næst tók Katrín skrefið inn í akademíuna og meðfram því að starfa sem lektor lauk hún doktorsnámi frá Cornell University. Í HR kom hún m.a. að því að setja á fót námslínu í hagfræði. Þá var hún utanaðkomandi sérfræðingur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands um tíu ára skeið og byggði þar á víðtækri þekkingu sinni á hagstjórn. Í dag er Katrín dósent við viðskipta- og hagfræðideild.
„Mér hefur liðið mjög vel í HR oghef fylgt þeirri stofnun í gegnum súrt og sætt. Þar hef ég notið mín í kennslu og rannsóknum og er hvergi nærri hætt.“
Rannsóknir Katrínar lúta að vinnumarkaðnum, ekki síst að kynjamun í launaþróun og starfsánægju, og veitir hún forstöðu Rannsóknasetri um jafnræði. Rannsóknir hennar hafa leitt í ljós að bæði konur og karlar una sér best á kynjablönduðum vinnustöðum.
„Þegar mér tekst að leggja hagfræðina til hliðar nýt ég mín best í sumarbústaðnum í Skorradal með systkinum mínum eða í Danmörku með tengdafjölskyldunni og er búin að ná nokkuð góðum tökum á dönskunni. Þá hef ég gaman af gönguferðum og ferðalögum á reiðhjóli.“
Fjölskylda Katrín er í fjarbúð með Ole Jørgensen, verkfræðingi hjá Siemens, f. 1962, sem búsettur er í Þýskalandi. Foreldrar hennar voru Ólafur Örn Arnarson læknir og Kristín Sólveig Jónsdóttir læknaritari, sem bæði eru látin.