Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins (SA), segist hafa heyrt af mörgum dæmum um að fyrirtæki hafi misst starfsfólk til opinbera geirans vegna sérkjara sem þar gilda.
Tilefnið er frétt í Morgunblaðinu í gær en þar var rætt við forstjóra fyrirtækis sem sagðist hafa misst starfsmann til borgarinnar eftir að starfsmanninum voru boðin hærri laun og styttri vinnutími.
Því vaknar sú spurning hvort innstæða sé fyrir því að hið opinbera bjóði betur en einkafyrirtæki. Jafnframt hvort það sé óvænt afleiðing kjarasamninganna 2019-2020 að hið opinbera geti gengið lengra í að stytta vinnuvikuna og flýta orlofsávinnslu en einkafyrirtæki.
„Við sendum inn tillögur að hagræðingaraðgerðum til stjórnvalda þar sem við bendum á að almenni markaðurinn þarf auðvitað að vera samkeppnishæfur við opinbera markaðinn um kaup og kjör, enda er það almenni markaðurinn sem stendur undir verðmætasköpun og þar með tekjum ríkissjóðs,“ segir Anna Hrefna.
Á við 10-19% launahækkun
„Í þessari umsögn vekjum við athygli á því að sérréttindi opinberra starfsmanna hafa verið metin sem ígildi 10-19% launahækkunar í formi styttri vinnutíma, hraðari orlofsávinnslu, mun ríkari veikindaréttar og sérstakrar uppsagnarverndar. Við höfum áhyggjur af þessari þróun af því að starfsfólk horfir ekki aðeins á launakjör þegar það er að meta störf heldur önnur kjör og réttindi sem eru mun ríkari á opinbera markaðnum.“
Er verðmætasköpun að aukast það mikið í hagkerfinu að við höfum sem þjóð efni á að gera svona vel við opinbera starfsmenn?
„Þetta snýst ekki síst um að opinberi markaðurinn sé ekki að keppa við almenna markaðinn á svona ójöfnum grunni. Það sem er samið um í kjarasamningum á almennum markaði er eitt – þar erum við að hugsa um svigrúmið til launahækkana í samhengi við efnahagslegar forsendur – en það er þetta ójafnræði milli almenna og opinbera markaðarins sem er áhyggjuefni og eins ósveigjanleikinn sem er til staðar á opinberum vinnumarkaði vegna starfsmannalaga. Og við höfum heyrt fjölmargar sambærilegar sögur þar sem einkaaðilar eru að missa frá sér starfsfólk til opinbera geirans vegna þessara sérréttinda.“
Sérréttindi skapa þrýsting
Var það markmið kjarasamninganna 2019-2020 að breyta samfélaginu þannig að það yrði fyrsti kostur að starfa hjá hinu opinbera?
„Að sjálfsögðu ekki. Við semjum auðvitað aðeins fyrir almenna markaðinn. En þessi sérréttindi skapa viðvarandi þrýsting í kjaraviðræðum hjá okkur af því að þau eru mun ríkari á opinbera markaðnum. Þessi þrýstingur á sinn þátt í að stuðla að launaþróun sem er umfram þennan efnahagslega veruleika. Í samanburðarlöndum okkar eru það útflutningsgreinarnar sem marka svigrúm til launahækkana í hagkerfinu og aðrir verða að halda sig innan þess „merkis“,“ segir Anna Hrefna.
Átti að vera tilraun
Hún rifjar að lokum upp að stytting vinnuvikunnar á opinbera vinnumarkaðnum hafi í upphafi átt að vera tilraunaverkefni en að ýtrustu heimildir hafi verið nýttar strax. Þannig hafi breytingar verið innleiddar samstundis í stað þess að innleiða þær í skrefum á tilteknu tímabili. Mælt hafi verið fyrir um að styttingin mætti ekki kosta meira en tiltekna fjárhæð og mætti ekki koma niður á gæðum og þjónustu og skilvirkni. „Það var ekki niðurstaðan en samt hefur ekki verið horfið frá þessu svokallaða tilraunaverkefni,“ segir Anna Hrefna.
Hvergi hærri en hér á landi
Á það er bent í áðurnefndri umsögn SA að laun og tengd gjöld séu einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og nemi að jafnaði 20-25% af heildarútgjöldum. Launakostnaður hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, sem hlutfall af heildarútgjöldum sé hvergi hærri en hér á landi. Einnig er bent á að veikindaréttur á almennum markaði sé að hámarki 3-6 mánuðir á ári í almennum kjarasamningum en allt að 360 dagar hjá hinu opinbera.
Hvað snertir uppsagnarrétt sé frjáls uppsagnarréttur meginregla á almennum markaði en hjá hinu opinbera þurfi skriflega áminningu vegna brots í starfi eða málefnaleg sjónarmið. Orlof sé 24-30 dagar á almennum markaði en 30 dagar hjá hinu opinbera. Loks sé vinnuvikan 38 klst. hjá skrifstofufólki, 38,5 klst. hjá iðnaðarmönnum og 39,5 klst. hjá verkamönnum á almennum markaði en 36 tímar hjá hinu opinbera með neysluhléum. Vinnutími vaktavinnufólks sé svo enn þá styttri á opinbera vinnumarkaðnum.