Sviðsljós
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Kosningabaráttan í Þýskalandi hefur harðnað mjög síðustu daga, enda er nú einungis tæpur mánuður til sambandsþingkosninganna 23. febrúar. Innflytjendamál voru þegar ofarlega á baugi í baráttunni, en hnífstunguárás í borginni Aschaffenburg í Bæjaralandi á miðvikudag hefur ýtt verulega undir umræðuna um stöðu innflytjenda og hælisleitenda í Þýskalandi.
Tuttugu og átta ára karlmaður frá Afganistan réðst þar á hóp leikskólabarna í lystigarði með eldhúshníf og myrti tvo, tveggja ára barn, ættað frá Marokkó, og þýskan 41 árs gamlan karlmann sem reyndi að verja börnin. Þá særði maðurinn þrjá í árásinni, þeirra á meðal tveggja ára stelpu frá Sýrlandi.
Þýskir fjölmiðlar hafa í vikunni greint frá því að árásarmaðurinn, þar nefndur Enamullah O., hafi verið búinn að fá neitun um landvistarleyfi frá þýskum yfirvöldum, þar sem hann átti samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni að sækja um hæli í Búlgaríu.
Átti því að senda manninn aftur til Búlgaríu sumarið 2023, en þar sem fyrirskipun þess efnis barst of seint rann út lögbundinn frestur til þess að vísa manninum úr landi. Umsókn hans um hæli var svo ekki endanlega hafnað fyrr en í síðasta mánuði. Sagðist hann þá ætla að fara sjálfviljugur úr landi, en gekk á bak orða sinna.
Vísa sökinni frá sér
Ríkisstjórnin í Berlín og sambandsstjórnin í Bæjaralandi benda nú hvor á aðra vegna þeirra brotalama sem voru á málsmeðferð árásarmannsins. Olaf Scholz, Þýskalandskanslari og leiðtogi þýskra sósíaldemókrata, sagði að stjórnvöld í Bæjaralandi hefðu átt að framfylgja betur þeim ferlum sem væru fyrir hendi, þar sem þau hefðu mörg úrræði að lögum til þess að vísa fólki úr landi.
Joachim Herrmann, innanríkisráðherra í Bæjaralandi, sagði hins vegar að ábyrgðin lægi hjá alríkinu og þá sérstaklega skrifstofu þess sem fer með málefni innflytjenda og hælisleitenda, BAMF, sem hefði líkt og fyrr sagði dregið lappirnar í máli mannsins.
Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtogi Kristilega sósíalsambandsins CSU, vísaði einnig ábyrgðinni á hendur alríkinu og benti á að árásin í Aschaffenburg væri ekki sú fyrsta sem rekja mætti til innflytjenda á síðustu 12 mánuðum. Væri það ekki tilviljun, heldur afleiðing slæmrar stefnu í innflytjendamálum í allt að áratug.
Söder tók þar undir með Friedrich Merz, formanni Kristilega demókrataflokksins CDU, systurflokks CSU, en eins og greint var frá í blaðinu í gær kallaði Merz eftir því á fimmtudag að hert yrði verulega á lögum og reglum um hælisleitendur.
Lagði Merz, sem talinn er líklegastur til þess að verða næsti kanslari, þar fram áætlun í fimm liðum en hún felur m.a. í sér að tekin verði upp varanleg landamæragæsla í Þýskalandi frá og með fyrsta degi hans í embætti.
Þá sagði Merz að hann vildi að öllum þeim sem teldust „ólöglegir innflytjendur“ yrði vísað frá á landamærunum, jafnvel þeim sem hygðust sækja um hæli. Viðkomandi yrðu því að verða sér úti um ferðaheimild til Þýskalands áður en þeir kæmu.
„Eldveggurinn“ að bresta?
Það sem vakti mesta athygli við tillögur Merz var að hann sagðist gera þær að frumskilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi, og bætti við að hann myndi leita stuðnings við þeim á þinginu og að það skipti minna máli hverjir styddu þær svo lengi sem þær fengju meirihlutastuðning á þinginu. Græningjar og sósíaldemókratar gagnrýndu þá yfirlýsingu og sögðu hana merki um að Merz vildi stíga í vænginn við jaðarhægriflokkinn Alternative für Deutschland, AfD, en hann mælist nú næststærstur í skoðanakönnunum með um fimmtungsfylgi.
Allir hinir flokkarnir á þingi, CDU/CSU þar á meðal, hafa hins vegar heitið því að starfa ekki með AfD eftir kosningarnar, en það heit hefur verið kallað „eldveggurinn“ í Þýskalandi. Alice Weidel, annar formanna AfD og kanslaraefni flokksins, fagnaði tillögum Merz og sagði nú tíma til þess að binda enda á „dauðdaga vegna eldveggsins“.
Merz hefur hins vegar útilokað alfarið að mynda ríkisstjórn með AfD. Á sama tíma þykir ólíklegt að græningjar eða sósíaldemókratar geti fallist á tillögur hans óbreyttar. Frjálslyndir demókratar, sem sprengdu núverandi stjórn, eru þá einir eftir, en óvíst er hvort þeir fá nægilegt fylgi í kosningunum til að ná sæti á þingi.
Hvernig sem kosningarnar fara er víst að þolinmæði Þjóðverja fyrir núverandi ástandi í málaflokknum er á enda. Þar hafa allir flokkar sameinast um að benda á regluverk ESB sem sökudólg, og þykir víst að sama hvernig næsta ríkisstjórn Þýskalands verður skipuð muni hún þrýsta á um að því verði breytt.