Einar Ingvi Magnússon
Þegar ég kom heim um kvöldmatarleytið í dag 19. janúar sá ég í skini götuljóssins hvar páskaliljurnar voru að gægjast upp úr moldinni. Svo snemma árs hafði ég aldrei tekið eftir þeim áður, enda snjólaus jörð í borginni. En sólin var tekin að hækka eftir svartasta skammdegið og með sólinni kviknar líf jarðargróðurs.
Í hinu forna Rómarríki var 25. desember sóldýrkunardagur, hátíð sem boðaði upprisu ljóssins eftir kalda og dimma vetrartíð, þegar sólin færi aftur að hækka á lofti með birtu sinni, yl og grósku að vori, sem á sumri gæfi ávexti jarðar til viðhalds lífsins á jörðinni.
Það er flestum ljóst að við þurfum sólarljósið til að lifa hér á jörð. Sólin er því lífgjafi og viðheldur lífinu og gjörir jörðina byggilega. Tilveran er svo góður skóli. Við lærum svo margt af árstíðum jarðar, sem samsvarar mörgum æviskeiðum mannsins og fæðingum. Einnig er merkilegt til þess að hugsa að yfirborð jarðar er um 70 prósent vatn. Þess vegna samsvarar maðurinn lögmálum himins og jarðar því líkami mannsins er einnig að mestu um 70 prósent vatn. Þetta er ekki tilviljun heldur lögmál.
Það má segja að við mannfólkið séum börn ljóssins því ávextir jarðar og grænmeti eru að vissu leyti umbreytt sólarljós, sem við mennirnir, börn ljóssins, nærumst á.
Þessi mikla umbreyting ljóssins í líf og lifandi fæðu er kraftaverk. Það er því engin tilviljun að við fögnum á jólum fæðingu Krists, sem sagði: „Ég er ljós heimsins.“ (Jóhannesarguðspjall 8:12) Enn fremur segir í guðspjallinu: „Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.“ (Jóh. 1:4) Hann er upprisan og lífið, eins og sólin sem tekur að rísa á ný og hækka á lofti í svartasta myrkri vetrar til að gefa heiminum líf. Hið umbreytta ljós er hið lifandi brauð, hin lifandi fæða, eins og Kristur sagði: „Brauðið, sem ég mun gefa yður, er hold mitt heiminum til lífs.“ (Jóh. 6:51)
Með hækkandi sól vaknar náttúran til lífsins á ný, þegar sólarljósið umbreytist í lifandi fæðu og býður afkvæmum ljóssins að gnægtaborði sínu.
Höfundur er áhugamaður um mannlega tilveru.