Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Rannsóknir hófust nú í vikunni í Efri-Laugardælaeyju í Ölfusá ofan við Selfoss þar sem 60 metra hár stólpi, mikilvægt stykki í nýrri brú yfir ána, verður. Prammi var notaður til þess að ferja tækjabúnað út í eyjuna þar sem gerðar verða borholur og sýni tekin úr jarðvegi. Á þeim upplýsingum verða næstu skref í verkhönnun tekin, en hún aftur byggir á þeirri frumhönnun mannvirkisins sem fyrir liggur.
Vegna mikils vatnsmagns og íss í Ölfusá tafðist nokkuð að koma prammanum á flot. Nú hefur hins vegar sjatnað í ánni og því var hægt að hefjast handa. Ætlað er að rannsóknirnar sem nú standa yfir séu tíu daga verk. Að þeim loknum eru komnar í hús þýðingarmiklar upplýsingar sem verkfræðingar nota við útfærslu, sem mjög er vandað til.
Nýja brúin verður 330 metra löng og 19 metra breið. Vænst er að brúin verði tilbúin eftir þrjú ár, það er ef allar áætlanir standast. Allt þarf þá að takast í skrefum og áföngum og nú er byrjað að leggja braut frá Laugardælavegi ofan við Selfoss, að brúarstæðinu. Þar er einnig verið að setja upp aðstöðu fyrir þann mannskap sem brúarsmíðinni sinnir, en þar er ÞG verk í aðalhlutverki. Nú þegar er á svæðið kominn 10-15 manna hópur og nú er hugað að undirstöðum og stöplum fyrir brúna. Þá verður með vorinu sett upp bráðabirgðabrú frá austurbakka árinnar út í eyjuna, segir Höskuldur Tryggvason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.
Brú mun miklu breyta
Laugardælaland, austan Ölfusár, er að hluta í eigu Sveitarfélagsins Árborgar, en er þó innan marka Flóahrepps sem þá fer með skipulagsvaldið á þeim slóðum. Lengi hefur legið fyrir að ný Ölfusábrú yrði ofan við Selfossbæ með tengingu inn á hringveginn nokkuð fyrir austan byggðina.
„Brúin nýja mun miklu breyta og við finnum að ýmsir hafa áhuga á uppbyggingu verslunar og þjónustu þarna í nágrenni við þetta mikla mannvirki. Slíkt kallar þá á að aðalskipulag þessa svæðis verði tekið til endurskoðunar og samtal um framvindu hlutanna tekið við nágranna okkar í Árborg,“ sagði Hulda Kristjánsdóttir sveitarstjóri Flóahrepps í samtali við Morgunblaðið.