Garðar Árni Garðarsson
Íslandi má líkja við hjarta sem slær í miðju Norður-Atlantshafi. Líkt og mannslíkaminn er háður æðum til að flytja blóð milli hjarta og heila er Ísland háð sæstrengjum sem tengja landið við umheiminn. Þeir eru burðarás samfélagsins og án þeirra yrði Ísland líkt og hjarta sem hefur misst tengsl við líkamann. Ísland er því í raun lífsháð þessum sæstrengjum.
Sæstrengirnir tryggja flæði samskipta við landið og eru lífæðar sem halda samfélaginu gangandi. Rofni þetta flæði eru afleiðingarnar augljóslega gríðarlega alvarlegar.
Þótt gervihnattasamskipti geti talist lausn að ákveðnu marki koma þau ekki í stað fjarskiptastrengja, enda eru lausnir þeirra bæði tímabundnar og takmarkaðar. Standa verður vörð um sæstrengina og tryggja að þeir starfi með fullnægjandi hætti, enda gætu alvarlegar truflanir á þessum innviðum haft víðtæk áhrif.
Til að draga fram alvarleika slíkrar stöðu má ímynda sér að greiðslukerfi í öllu landinu liggi niðri einn daginn. Fólk gæti ekki greitt fyrir nauðsynjar í verslunum eða komist á netið. Jafnframt myndi upplýsingaflæði stöðvast og neyðarviðbrögð yrðu í uppnámi. Í slíkri stöðu stæði íslenskt samfélag berskjaldað og ófært um að mæta áskorunum samtímans. Því verður að líta á öryggi sæstrengjanna sem lífsnauðsyn og forgangsmál fyrir íslensk stjórnvöld.
Slík staða undirstrikar þá hættu sem fylgir því að sæstrengir séu óvarðir, sem hefur einmitt komið í ljós í tengslum við atvik í Eystrasalti þar sem skemmdir hafa valdið miklum truflunum á grunninnviðum fjarskipta. Hafa atvikin varpað ljósi á hættur sem fjarskiptainnviðir standa frammi fyrir. Skemmdir á Estlink 2-strengnum milli Finnlands og Eistlands vöktu grunsemdir um tengsl við skuggaflota Rússlands og juku ótta í Norður- og Austur-Evrópu. Þó að rannsóknir hafi leitt í ljós að skemmdirnar hafi verið óviljaverk óreyndrar áhafnar urðu þær hvati að umræðu um nauðsyn eftirlits með sæstrengjum. Ísland er ekki undanskilið slíkum ógnum, enda hafa rússnesk herskip ítrekað siglt í nágrenni við sæstrengi landsins. Slík nærvera, jafnvel þótt hún sé ekki augljóslega ógnandi, vekur spurningar um hugsanlega kortlagningu á mikilvægum innviðum Íslands og áhuga utanaðkomandi aðila á þeim.
Í kjölfar atburðanna í Eystrasalti hefur NATO gripið til aukinna aðgerða á svæðinu og víðar, meðal annars með því að styrkja hernaðarlega viðveru og veita stuðning við eftirlit með fjarskiptainnviðum. Þrátt fyrir mikilvægi alþjóðlegs samstarfs er ljóst að Ísland þarf að axla meiri ábyrgð á eigin öryggi. Til að tryggja langtímaöryggi grunnstoða samfélagsins þarf Ísland að byggja upp sjálfstæða getu til varna og viðbúnaðar, í stað þess að treysta alfarið á önnur ríki.
Landhelgisgæslan hefur ítrekað bent á að öflugasta eftirlit með sæstrengjunum í áratugi velti á fjármögnun stjórnvalda. Þrátt fyrir að Landhelgisgæslan búi yfir bæði öflugum varðskipum og eftirlitsflugvél hefur fjárskortur og skortur á mannafla komið í veg fyrir reglubundið eftirlit með sæstrengjum. Þetta hefur valdið því að forgangsatriði Landhelgisgæslunnar er ekki að vakta þessa mikilvægu innviði landsins, sem er óviðunandi staða fyrir þjóð sem er svo háð þeim. Til að tryggja reglubundið eftirlit og viðbúnað þarf aukið fjármagn. Aðeins þannig getur Landhelgisgæslan nýtt þau tæki sem til staðar eru til eftirlits, greiningar á skemmdum og skjótra viðbragða. Þetta snýst ekki einvörðungu um að greina skemmdir eftir á, heldur einnig að fyrirbyggja þær áður en þær valda alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag.
Áskorun til stjórnvalda
Skjöldur – félag ungs fólks um öryggis- og varnarmál – skorar á núverandi ríkisstjórn að fylgja orðum eftir með aðgerðum og móta heildstæða stefnu um hvernig Ísland tryggi sitt eigið öryggi. Orðum verða að fylgja raunverulegar aðgerðir. Stjórnvöld þurfa að forgangsraða öryggi sæstrengjanna og tryggja áreiðanlegt fjarskiptasamband. Til þess þarf að styrkja innviði, tryggja reglubundið eftirlit og skýra hlutverk Landhelgisgæslunnar í málaflokknum með auknu fjármagni.
Með markvissum fjárfestingum getur Ísland bæði eflt alþjóðlegt samstarf innan NATO og styrkt eigin getu til að tryggja öryggi þessara lífæða. Markvissar aðgerðir og viðbrögð eru nauðsynleg til að tryggja stöðugleika fjarskipta og viðnámsþol gegn hvers kyns ógnum. Þetta snýst ekki aðeins um tæknilega getu heldur einnig pólitíska ábyrgð og forgangsröðun stjórnvalda. Til að afstýra tjóni sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag er brýnt að grípa til tafarlausra aðgerða.
Á tímum alþjóðlegrar óvissu og vaxandi ógna er það á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að tryggja að grunnstoðir samfélagsins séu varðar. Þetta er ekki aðeins spurning um pólitíska stefnumörkun, heldur einnig um framtíðarsýn og ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Ísland getur ekki lengur reitt sig á aðrar þjóðir til að tryggja varnir landsins og standa vörð um lýðræði og frelsi þjóðar. Tími aðgerða er núna – ekki síðar.
Höfundur er formaður Skjaldar – félag ungs fólks um öryggis- og varnarmál.