Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Miðsvæðið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik er orðið að enn þéttari pakka en áður eftir að Valur og ÍR unnu útisigra í Keflavík og Þorlákshöfn í gærkvöld.
Þar með eru öll fjögur liðin sem léku þessa tvo leiki jöfn með 14 stig og deila fimmta til níunda sætinu með einu liði til viðbótar, KR-ingum.
ÍR-ingar unnu magnaðan sigur á Þór í Þorlákshöfn, 95:94, eftir gríðarlega tvísýna baráttu allan tímann.
Zarko Jukic skoraði sigurkörfuna fyrir ÍR þremur sekúndum fyrir leikslok og þetta voru einu stigin sem hann skoraði í leiknum þrátt fyrir að leika í rúmar 24 mínútur með Breiðholtsliðinu.
Jacob Falko og Matej Kavas skoruðu 28 stig hvor fyrir ÍR og Kavas tók 11 fráköst.
Nikolas Tomsick skoraði 21 stig fyrir Þór, Steeve Ho You Fat og Jordan Semple skoruðu 16 stig hvor.
Valsmenn lögðu Keflvíkinga suður með sjó, 81:70, en þar var Kristinn Pálsson í aðalhlutverki hjá Hlíðarendaliðinu. Hann skoraði 20 stig og tók 10 fráköst.
Kári Jónsson skoraði 17 stig fyrir Val en stigahæstir hjá Keflavík voru Ty-Shon Alexander og Hilmar Pétursson sem skoruðu 16 stig hvor.