Frammistaða Íslands í fyrri hálfleik var hræðileg. Vörnin réð ekkert við sóknarleik Króata og vantaði alla ákefðina sem einkenndi íslenska liðið í fjórum fyrstu leikjum mótsins. Þar fyrir aftan varði Viktor Gísli Hallgrímsson, besti maður Íslands á mótinu til þessa, ekki neitt

Frammistaða Íslands í fyrri hálfleik var hræðileg. Vörnin réð ekkert við sóknarleik Króata og vantaði alla ákefðina sem einkenndi íslenska liðið í fjórum fyrstu leikjum mótsins. Þar fyrir aftan varði Viktor Gísli Hallgrímsson, besti maður Íslands á mótinu til þessa, ekki neitt.

Björgvin Páll Gústavsson leysti hann af og var lítið skárri. Skoruðu Króatar nokkur mörk þar sem Viktor og Björgvin hefðu getað gert mikið betur, þeir vita það sjálfir.

Lætin í höllinni í Zagreb voru ógurleg og virtist íslenska liðið ekki ráða við að spila fyrir framan 14.000 brjálaða stuðningsmenn Króata og urðu litlir í sér. Króatar gengu á lagið og stemningin í liði og stuðningsmönnum Króata varð enn meiri og brekkan brattari.

Í sókninni var það helst einstaklingsframtak Arons Pálmarssonar sem kom í veg fyrir að munurinn yrði enn meiri í fyrri hálfleik, en hálfleikstölur voru 20:12. Þá gerði Orri Freyr Þorkelsson ágætlega, þótt hann hafi ekki verið með eins góða nýtingu og oft áður.

Aðrir útileikmenn Íslands ógnuðu lítið sem ekki neitt, skutu ekkert fyrir utan og áttu varnarmenn Króata ekki í miklum vandræðum með að stöðva hikandi Íslendinga. Þá gekk línuspilið ekki vel.

Einsleitur, hikandi og lélegur sóknarleikur í bland við flata vörn og enga markvörslu er ekki í boði í leik þar sem allt er undir.

Frammistaðan var betri í seinni hálfleik. Viktor Gísli varði vel og Viggó og Janus spiluðu mun betur í sókninni. Dominik Kuzmanovic var hins vegar erfiður í króatíska markinu og var forskotinu ekki ógnað að ráði.