Stórfjölskyldan Haukur er staddur á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni, en myndin var tekin sl. miðvikudag.
Stórfjölskyldan Haukur er staddur á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni, en myndin var tekin sl. miðvikudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukur Halldórsson fæddist 25. janúar 1945 í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd og ólst þar upp í foreldrahúsum við öll almenn sveitastörf. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum að Laugum 1962, stundaði nám við lýðháskóla í Svíþjóð 1963-64,…

Haukur Halldórsson fæddist 25. janúar 1945 í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd og ólst þar upp í foreldrahúsum við öll almenn sveitastörf.

Hann lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum að Laugum 1962, stundaði nám við lýðháskóla í Svíþjóð 1963-64, lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri 1965 og stundaði framhaldsnám í búfræði í Danmörku 1966-67 með loðdýrarækt sem sérgrein.

Er Haukur kom heim frá námi 1967 keypti hann jörðina Þórsmörk sem liggur að jörð foreldra hans og hóf hann þá félagsbú með föður sínum á jörðunum tveimur. Búskapur var síðan aðalstarf hans næstu tíu árin.

Haukur var kjörinn formaður Stéttarsambands bænda 1987 og varð fyrsti formaður Sameinaðra bændasamtaka við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda 1995.

Haukur var um skeið formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, sat lengi í stjórn Ungmennasambands Eyjafjarðar, sat í samlagsráði Mjólkursamlags KEA, var sýslunefndarfulltrúi Suður-Þingeyjarsýslu, formaður stjórnar SÍL um tíu ára skeið, var kjörinn í stjórn Stéttarsambands bænda 1985 og hefur setið í fjölda stjórnskipaðra nefnda og nefnda á vegum bændasamtaka.

Eftir að hafa starfað í 10 ár fyrir Bændasamtökin, Framleiðsluráð landbúnaðarins og fleiri fór Haukur aftur norður í búskapinn. Þá tók við átta ára seta í sveitarstjórn og ýmsum félögum, svo sem KEA, Norðurmjólk og Norðlenska matborðinu, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður. Frá 2003 til 2013 sat Haukur í stjórn Vestnorden sem fulltrúi Íslands. Eftir endurreisn bankakerfisins var Haukur formaður nýja Landsbankans 2008-2010. Haukur hefur verið viðriðinn félagsmál í rúmlega hálfa öld, fyrst sem formaður ungmennafélags í sinni heimasveit og nú síðast varaformaður LEB (Landssamband eldri borgara).

„Það sem stendur upp úr í starfsferlinum er allt það góða fólk sem ég kynntist vítt og breitt um landið og hef ég fundað í flestum félagsheimilum og þinghúsum landsins. Mér er sérstaklega minnisstæð aðkoma Bændasamtakanna að svokallaðri þjóðarsátt 1990. Að mínu mati var traust og trúnaður á milli þeirra sem þar voru í forsvari forsenda þess að vel til tókst, ásamt aðkomu Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra.“

Leiðir Hauks og Ásmundar Stefánssonar lágu aftur saman síðar við stofnun nýja Landsbankans, þar sem Ásmundur var bankastjóri og Haukur Halldórsson formaður bankaráðs.

„Aðaláhugamál mín hafa verið allt sem snýr að landbúnaði heima og erlendis ásamt áhuga á að ferðast og kynna mér menningu og siði annarra þjóða. En við hjónin höfum verið dugleg ferðast víða um heim.“

Haukur og Bjarney dvelja nú á Tenerife ásamt börnum, mökum, barnabörnum og barnabarnabörnum og fagna afmælisdeginum þar.

Fjölskylda

Haukur kvæntist 1970 Bjarneyju Bjarnadóttur frá Veigastöðum, f. 29.6. 1950, húsfreyju. Þau eru búsett í Vaðlafelli í landi Veigastaða á Svalbarðsströnd. Foreldrar Bjarneyjar voru Ragnheiður Björnsdóttir, f. 16.9. 1915, d. 18.8. 1992, kaupakona á Veigastöðum og verkakona á Dalvík, og Bjarni Guðmundsson, f. 7.9. 1906, d. 25.10. 1999, bifreiðarstjóri í Reykjavík.

Börn Hauks og Bjarneyjar eru 1) Heiða, f. 12.12. 1971, hjúkrunarfræðingur, maki: Pétur Jónatan Kelley, smiður og bústjóri. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn; 2) Eiríkur Haukur, f. 31.7. 1973, viðskiptafræðingur og starfar sem framkvæmdastjóri Búsfestis, maki: Agnes Björk Blöndal lögmaður. Þau eiga tvö börn; 3) Halldóra Kristín, f. 14.8. 1982, lögmaður, maki: Eggert Sæmundsson flugstjóri. Þau eiga fimm börn og eitt barnabarn.

Systkini Hauks: Jónas Eiríkur, f. 29.8. 1936, d. 27.12. 2023, alifuglabóndi í Sveinbjarnargerði; Jóhannes Geir, f. 26.8. 1940, d. 10.10. 2020, verkstjóri í Sveinbjarnargerði, og Vigdís, f. 15.8. 1946, sem býr í Noregi.

Foreldrar Hauks voru Halldór Jóhannesson, f. 22.9. 1904, d. 14.10. 1982, bóndi í Sveinbjarnargerði, og Axelína Geirsdóttir, f. 5.9. 1905, d. 14.12. 2002, húsfreyja.