Sviðsljós
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Ónógar birgðir af hveiti og korni eru í andstöðu við skuldbindingar Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu (NATO), en þess er krafist að hvert aðildarríki geti tryggt íbúum sínum, og eftir atvikum hermönnum, fæðu við alvarleg atvik hvort sem það er vegna óvinveittra hernaðaraðgerða, náttúruhamfara, hryðjuverka eða annars konar áfalla.
Greint var frá því nýverið að þegar verksmiðju Kornax verði lokað verði allt hveiti innflutt og aðeins til birgðir í landinu til eins mánaðar í senn í stað þriggja til fjögurra mánaða eins og verið hefur.
Í skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir frá 2022 segir: „Fæðuöryggi er ein af forsendum þess að hægt sé að tryggja lífsafkomu þjóðar á hættustundu.“ Þar er jafnframt vakin athygli á því að ekki eru til nein gildandi stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu.
Er í skýrslunni vakin athygli á því að kornvörur til manneldis eru nær alfarið fluttar inn. „Takmarkist aðgangur að kornvörum veldur það því miklum vanda á tiltölulega skömmum tíma.“
Á ábyrgð ríkjanna
Allt frá því að samningurinn um bandalagið var undirritaður í Washington árið 1949 hefur þriðja grein samningsins kveðið skýrt á um að hvert aðildarríki beri sérstaka skyldu til sjálfshjálpar. Hefur slík krafa verið meðal annars skilgreind sem ábyrgð ríkjanna til að vera sjálfum sér næg um nauðsynjar.
„Í 3. grein NATO er lögð áhersla á mikilvægi viðnámsgetu bæði hvers ríkis sem og sameiginlegrar til að standast vopnaðar árásir. Viðnámsgeta í NATO-samhengi vísar til getu til að búa sig undir, standast, bregðast við og endurreisn eftir áföll og truflanir. Að efla viðnámsþol er fyrst og fremst á ábyrgð hvers ríkis, en viðleitni einstakra bandalagsríkja gerir bandalagið einnig sterkara í heild sinni. Bandamenn geta aukið viðnámsþol sitt með því að þróa varnargetu sína, tryggt aðgengi að mikilvægum innviðum og þróun varaáætlana fyrir neyðartilvik. Til að koma í veg fyrir, vinna gegn eða byggja upp í kjölfar áfalla eða truflana á borgaralegum innviðum samfélagsins, krefjast skilvirkar aðgerðir skýrra áætlana og viðbragðsráðstafana sem eru skilgreindar fyrir fram og gerðar reglulega,“ útskýrir NATO í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins um þær kröfur sem gerðar eru til aðildarríkja.
Bendir bandalagið á að árið 2016 samþykktu aðildarríkin sjö grundvallarkröfur um viðnámsþol sem veitir aðildarríkjunum mælikvarða til að meta hve vel undirbúið viðkomandi ríki er fyrir möguleg áföll.
„Ein þeirra leggur áherslu á að tryggja framboð matvæla og vatns í krísum og krefst þess að aðildarríki komi á öflugum ferlum til að vernda og afhenda öruggar og nægilegar matar- og vatnsbirgðir til að næra borgara sína og styðja við hernaðaraðgerðir. Um er að ræða ákvæði um meðal annars birgðasöfnun og dreifingu, áhættustýringu og samstarf milli stofnana. Krafan undirstrikar mikilvægt hlutverk viðnámsþols matvæla- og vatnskerfa í varnarviðbúnaði ríkja og bandalagsins. Samanlagt endurspegla grunnkröfurnar þrjár stoðir borgaralegs viðbúnaðar, sem verður að viðhalda jafnvel við erfiðustu aðstæður: starfsemi stjórnvalda, nauðsynleg þjónusta við íbúa og borgaralegur stuðningur við herinn,“ segir í svarinu.
Síðast í júlí í fyrra samþykkti Ísland, sem og önnur aðildarríki, á leiðtogafundi NATO í Washington yfirlýsingu þar sem því var heitið að efla viðnámsþol ríkjanna og bandalagsins alls.
Vert er að geta þess að NATO hefur sjálft ekki útlistað skilgreind tölfræðileg viðmið hvað varðar kornvörur eða önnur matvæli sem þarf til að uppfylla kröfur bandalagsins. Það er hins vegar spurning hvort samdráttur í hveitibirgðum standist gefin fyrirheit síðastliðið sumar.
Þar sem þjóðaröryggisráð heyrir undir forsætisráðuneytið var lögð fyrir ráðuneytið fyrirspurn þar sem spurt var meðal annars hvort ráðuneytið teldi að hveitibirgðir til eins mánaðar uppfylltu kröfur 3. greinar NATO-sáttmálans. Einnig var spurt hvort ráðuneytið teldi eins mánaðar birgðir duga til að tryggja fæðuöryggi Íslendinga ef kæmi til stórfelldrar truflunar á vöruflutningum til landsins.
Ráðuneytið vakti athygli á skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir en vísaði annars á matvælaráðuneytið. Það hefur enn ekki svarað fyrirspurn Morgunblaðsins.
Starfshópurinn fyrir sitt leyti lagði til í skýrslu sinni að miðlægum aðila á vegum ríkisins yrði falið að hafa yfirumsjón og eftirlit með neyðarbirgðum í landinu. Jafnframt að forsætisráðuneytið skyldi hafa forgöngu um samstarf ráðuneyta og stofnana við að koma á miðlægum upplýsingagrunni þar sem upplýsingar um neyðarbirgðahald er skráð.