Úkraína Úkraínskir hermenn sjást hér við æfingar í Donetsk-héraði.
Úkraína Úkraínskir hermenn sjást hér við æfingar í Donetsk-héraði. — AFP/Genya Savilov
Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær í sjónvarpsviðtali að hann væri tilbúinn til þess að ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta um Úkraínustríðið. Er gert ráð fyrir að þeir muni ræðast við fljótlega, en Trump hefur lagt mikla áherslu á að samið verði um vopnahlé sem allra fyrst

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær í sjónvarpsviðtali að hann væri tilbúinn til þess að ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta um Úkraínustríðið. Er gert ráð fyrir að þeir muni ræðast við fljótlega, en Trump hefur lagt mikla áherslu á að samið verði um vopnahlé sem allra fyrst.

Pútín gaf ekkert upp um hvenær hann og Trump myndu tala saman, en talsmaður hans, Dmitrí Peskov, sagði fyrr um daginn að Kremlverjar biðu nú bara eftir „merkjum“ frá Bandaríkjastjórn og Trump um tímasetningu viðræðna þeirra.

Pútín vék jafnframt að orðum Trumps á efnahagsráðstefnunni í Davos, þar sem hann sagðist vilja lækka olíuverð á heimsmarkaði til þess að setja meiri þrýsting á rússnesk stjórnvöld. Sagði Pútín að slík lækkun myndi skaða bæði Bandaríkin og Rússland, og að Trump sem væri bæði „snjall“ og „skynsamur“ myndi ekki vilja taka ákvarðanir sem myndu skaða efnahag Bandaríkjanna.

Andrí Jermak, starfsmannastjóri Selenskís Úkraínuforseta, varaði í gær við því að friðarviðræður færu fram á milli Bandaríkjanna og Rússlands án aðkomu Úkraínumanna. „Hann [Pútín] vill semja um örlög Evrópu – án Evrópu. Og hann vill tala um Úkraínu án Úkraínu,“ sagði Jermak á Telegram-síðu sinni.

Sagði Jermak það ekki vera möguleika. „Pútín þarf að snúa aftur til raunveruleikans, eða hann verður færður aftur. Þannig virka hlutirnir ekki í nútímaheiminum,“ sagði Jermak.

Rússar og Úkraínumenn skiptust á loftárásum í gærmorgun. Þrír féllu og nokkrir særðust í loftárás Rússa á Kænugarð, en brak úr dróna lenti þá á tíu hæða íbúðablokk. Úkraínumenn sendu svo 120 dróna til árása á a.m.k. 12 héruð Rússlands, þar á meðal Moskvu. Beindust árásirnar m.a. að olíuhreinsistöð og raforkustöðvum.