Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson
Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson
Rétt og sanngjarnt er að nýkjörnir þingmenn Alþingis ógildi kosningu Þórðar Snæs Júlíussonar. Enginn grundvöllur er til kæru slíkrar niðurstöðu.

Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson

Rétt og sanngjarnt er að nýkjörnir þingmenn Alþingis kjósi kosningu Þórðar Snæs Júlíussonar ógilda.

Augljóst er að framboð hans, eða öllu heldur „ekki-framboð“ hans sem 3. maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður var gallað – þar sem hann hafði ekki vilja til að fylgja því eftir og lýsti því yfir opinberlega að það væri dregið til baka.

Einnig er ljóst að vera hans á framboðslistanum, þar sem of seint var að fjarlægja nafn hans af kjörseðlum, hafði áhrif á niðurstöðu kosninganna – sem og að opinberar yfirlýsingar hans um að hann hygðist ekki taka þingsæti höfðu sín áhrif á niðurstöðu kosninganna og hvernig vilji kjósenda skilaði sér.

Ekki er hægt að ætla Þórði neinn meinhug í málinu og því ekkert við hann að sakast né tilefni til sekta eða viðurlaga fyrir. En þó er rétt að taka tillit til vilja hans og yfirlýsinga og leysa rétt úr stöðunni stjórnsýslulega, með því að ógilda kosningu hans sem 3. manns á lista xS í Rvk-N þannig að þau nöfn sem neðar eru á listanum færist upp (fyrir hann) áður en unnið er úr atkvæðum greiddum listanum.

Þannig væri tekið tillit til Þórðar og yfirlýsinga hans, komið til móts við skilning kjósenda á framboðslista xS í Rvk-N og vilja þeirra með atkvæðagreiðslu sinni og útstrikunum komið til skila.

Til marks um hversu rétt leið til úrlausnar málsins slík meðferð þingsins við setningu þess og prófun kjörbréfa þetta væri er svarið við spurningunni um hvort nokkur vildi eða gæti kært slíkar málalyktir – sem viðblasandi er að enginn hefði grundvöll til.

Ja, nema þá ef Þórður Snær sæi eftir því að fá ekki greiðslur sem þingmaður; fyrir þessa mánuði „í starfi“ fram að því að þing er sett og kjörbréf þingmanna prófuð, auk hugsanlega biðlauna eða starfslokagreiðslu eftir að hann segir af sér (ef hann þá hættir ekki við það), þótt aldrei hafi hann setið á þingi fyrir né ætlað sér það þegar kjördagur rann upp.

Ég tel þó að enginn maður ætli honum neinn slíkan þankagang og hann yrði sjálfur manna fegnastur að vera skorinn úr snörunni sem þessi flækja varðandi afturkallaða framboðið annars gæti hengt hann í.

Landskjörstjórn gat vissulega ekki annað gert en að senda Þórði kjörbréf út frá því hvernig listi framboðsins lítur út (þar til þingmenn leiðrétta hann með ógildingu kosningar hans), en Undirbúningsnefnd getur þó beint réttri úrlausn málsins til Kjörbréfanefndar og Alþingis – og ef ekki hún, þá Kjörbréfanefnd, ef þingmenn hreinlega bera ekki upp tillögu um það sjálfir. Það er því enn ekkert of seint í þessum efnum og öllum sómi af ef leyst er úr málinu þverpólitískt af yfirvegun og sanngirni.

Raunar tel ég að þeir sem málið snertir mest kæmu út sem menn að meiri ef þeir hefðu sjálfir frumkvæði að áðurlýstri niðurstöðu. Þannig gæti Dagur B. Eggertsson sem formaður undirbúningsnefndar sjálfur staðið að því að nefndin skilaði frá sér slíku áliti um kosningu Þórðar Snæs og Þórður sjálfur mælt fyrir úrlausninni þegar þing kemur saman, í stað þess að bíða staðfestingar kjörbréfs síns og þá segja af sér – hafandi fengið þingsæti sem aldrei átti að verða, þegið greiðslur fyrir og vera skráður í sögubækurnar sem slíkur!

Vinni þingmenn ekki rétt úr þessu máli, hvort sem er með frumkvæði Dags eða Þórðar eða án þess, er víst að fordæmi væri sett fyrir „ekki-framboðum“ án eftirmála – jafnvel af ráðnum og þá eins meinfýsnum hug! Slíkt fordæmi væri hættulegt. Hversu mjög sem efast má um að á það reyndi væri skapað tækifæri til og það af fullkomnum óþarfa, fyrir utan hversu röng og ósanngjörn sú lending væri.

Þórður Snær dró framboð sitt til baka og listinn var kosinn í ljósi þess að nafn hans ætti ekki að vera á honum. Það getur ekki verið rétt og sanngjarnt að hann verði staðfestur sem rétt kjörinn þingmaður, fái nokkurra mánuða greiðslur fyrir, sé í sjálfsvald sett að segja sig frá því og svipti þannig kjósendur xS í Rvk-N rétti sínum til útstrikana sem réttilega ættu að færa Dag B. Eggertsson niður um sæti.

Athugið að færsla Dags niður um sæti, úr 2. í það 3. á framboðslistanum, í samræmi við kosningu hans myndi ekki hafa nein áhrif á stöðu hans sem þingmanns aðra en að hann væri aftar á listanum, því Samfylkingin hlaut þrjá kjördæmakjörna þingmenn í kjördæminu og meira að segja einn jöfnunarmann til. Hlutverk hans sem formanns Undirbúningsnefndar væri þannig einnig óskorað eftir sem áður, en virðing hans meiri sem slíkur ef hann leiddi málið rétt.

Það er ósk mín að óförum þjóðarinnar hvað varðar hnökra á kosningum og úrvinnslu þeirra sé lokið og að við getum tryggt betur að öll slík mál séu rétt unnin og umfram það hafin yfir vafa til frambúðar.

Ég skora því á verðandi alþingismenn alla að vinna rétt úr málunum og veita lýðræðisvenjum okkar viðeigandi stuðning og aðhald.

Höfundur er lyfjafræðingur, lýðræðissinni og áhugamaður um góða stjórnsýslu.

Höf.: Hannes Þórður Hafstein Þorvaldsson