Alls voru á síðasta ári gerðar 2.019 liðskiptaaðgerðir hér á landi, þar af 1.208 á hné og 811 á mjöðm samkvæmt tölum sem embætti landlæknis hefur birt. Að auki gengust 29 einstaklingar undir slíkar aðgerðir á erlendum sjúkrahúsum á kostnað Sjúkratrygginga Íslands

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Alls voru á síðasta ári gerðar 2.019 liðskiptaaðgerðir hér á landi, þar af 1.208 á hné og 811 á mjöðm samkvæmt tölum sem embætti landlæknis hefur birt. Að auki gengust 29 einstaklingar undir slíkar aðgerðir á erlendum sjúkrahúsum á kostnað Sjúkratrygginga Íslands.

Eru þetta álíka margar aðgerðir og gerðar voru árið 2023 eftir að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við tvö einkafyrirtæki, Klíníkina og Cosan, um að fjölga liðskiptaaðgerðum með það að markmiði að stytta biðlista og færa þessa þjónustu heim til Íslands. Árið 2022 voru liðskiptaaðgerðir hér á landi samtals 1.545 og í lok þess árs biðu yfir tvö þúsund manns eftir þessum aðgerðum.

Á sama tíma hefur þeim fækkað sem farið hafa í liðskiptaaðgerðir í útlöndum en réttur til slíks skapast þegar fólk hefur beðið í tiltekinn tíma eftir slíkri aðgerð. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands gengust 74 einstaklingar undir liðskiptaaðgerðir í útlöndum árið 2022, árið 2023 gengust 37 undir slíkar aðgerðir erlendis og á síðasta ári 29 einstaklingar.

Enn eru samt langir biðlistar eftir þessum aðgerðum. Þannig biðu í upphafi ársins 995 einstaklingar eftir liðskiptum á hné og 408 biðu eftir liðskiptum á mjöðm, samkvæmt tölum landlæknisembættisins.

Óskað eftir tilboðum

Í fjárlögum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir um 1,3 milljarða króna fjárveitingu til lýðheilsutengdra aðgerða utan heilbrigðisstofnana ríkisins. Sjúkratryggingar auglýstu eftir tilboðum 6. desember í fyrra. Verða samningar gerðir til allt að 3 ára, með heimild til framlengingar tvisvar um 1 ár, þó með þeim fyrirvara að umsamið magn ræðst af fjárveitingum til verkefnisins hverju sinni, áherslum stjórnvalda og Sjúkratrygginga sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.

Lýðheilsuaðgerðir á opinberum heilbrigðisstofnunum eru fjármagnaðar á grundvelli samninga Sjúkratrygginga við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri um þjónustutengda fjármögnun sjúkrahúsanna. Þá hefur verið gert sérstakt biðlistaátak innan sjúkrahúsanna sem er jafnframt fjármagnað af Sjúkratryggingum. Voru slíkir samningar gerðir við Landspítalann um liðskiptaaðgerðir, brennsluaðgerðir vegna gáttatifs og augasteinsaðgerðir. Þá voru gerðir samningar við Sjúkrahúsið á Akureyri um liðskiptaaðgerðir og við Heilbrigðisstofnun Vesturlands um kvenaðgerðir, þ.e. ýmsar aðgerðir í grindarbotni sem og legnámsaðgerðir.

Viðmið embættis landlæknis um biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu varðandi aðgerðir og meðferðir sérfræðinga er að þær eigi sér stað eigi síðar en 90 dögum frá greiningu. Magn í samningum tekur mið af uppsafnaðri þörf í hverjum flokki fyrir sig og hefur það markmið að stytta biðtímann eins og unnt er.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson