Fréttir af vandræðum í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar eru of algengar. Græna vöruhúsið við Álfabakka 2 hefur verið mikið í fréttum undanfarnar vikur. Vöruhúsið er það nálægt næsta íbúðarhúsi að það eina sem blasir við íbúum út um gluggana gegnt því er grænn veggurinn. Í vikunni birtist í Morgunblaðinu viðtal við íbúa á Hlíðarenda, sem kvartar undan breytingum á skipulagi, sem verði til þess að hann missi útsýni og verði í skuggavarpi þannig að hann muni ekki sjá til sólar allan ársins hring.
Af öðrum toga var síðan niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að gera skipulagsfulltrúa afturreka með ákvörðun um að breyta JL-húsinu við Hringbraut 121 í búsetuúrræði fyrir hælisleitendur.
Í JL-húsinu hefur farið fram ýmiss konar starfsemi. Þar var rekið hótel og áður Myndlistarskóli Reykjavíkur. Málsrök borgarinnar voru þau að samþykki á breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir lóðina hefði hvorki í för með sér breytta notkun hússins né umfangsmeiri starfsemi en almennt væri heimil á verslunar- og þjónustusvæðum.
Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að leggja að jöfnu búsetuúrræði og þá þjónustu sem áður hafði verið hýst í húsinu og það er vitaskuld rétt.
Hótelið hafði verið fyrir um 260 manns, en skipulagsstjóri veitti heimild til að hýsa 400 hælisleitendur í JL-húsinu. Fram hefur komið að aldrei hafi verið ætlunin að nýta þá heimild til fulls, en það er óskiljanlegt að menn hafi látið sér detta í hug að skynsamlegt væri að hýsa mörg hundruð hælisleitendur á sama reit.
Málið fór fyrir úrskurðarnefndina vegna kvörtunar frá íbúa og það er athyglisvert hversu afdráttarlaus úrskurðurinn er. Það vekur til umhugsunar um hvað fari fram þegar ákvarðanir á borð við þessa eru teknar. Það hlýtur að hafa verið ljóst að með þessari breytingu yrði farið langt út fyrir það sem áður var og hætt væri við að þessi fjöldi væri meiri en þessi litli reitur þyldi.
Eitt er að vera með skóla eða hótel á reit. Þar kemur fólk og fer. Hótelgestur er ekki á vappi í kringum hótelið allan daginn. Nemendur koma í sína tíma og fara svo. Það er allt annað þegar um búsetu er að ræða, að ekki sé talað um þegar um hælisleitendur er að ræða. Þá hlýtur að vera skynsamlegra að finna nokkra staði þar sem nokkrir tugir geta komið sér fyrir á hverjum þeirra frekar en að setja mörg hundruð manns á einn og sama blettinn.
Breytingarnar á skipulaginu á Hlíðarenda vekja einnig til umhugsunar. Mjög stutt er síðan farið var að reisa íbúðarbyggð á þessu svæði og fólk hefur varla náð að flytja inn þegar byrjað er að breyta skipulaginu. Reit þar sem gert var ráð fyrir atvinnuhúsnæði á þremur til fjórum hæðum er skyndilega breytt í íbúðalóð þar sem reisa má þrjár til fimm hæðir. Annar reitur sem til bráðabirgða átti að vera opinn, en þar sem þó var gert ráð fyrir framtíðarhúsnæði, er nú orðinn byggingarreitur fyrir þriggja til fimm hæða hús.
Sigríður Gunnarsdóttir býr í íbúð sem mun falla í skuggann af væntanlegri byggingu. Henni finnst hverfið nú eiga lítið skylt við það sem átti að vera. Sín íbúð hafi verið hönnuð til að fá birtu úr vestri og norðvestri og gert hafi verið ráð fyrir lægri byggingum fyrir framan hennar íbúð. Nú muni hún ekki fá neina birtu og veltir hún fyrir sér hvers vegna húsið hafi verið hannað með þessum hætti. Hún segir að kerfið sé „brútalt“ og virki á sig „eins og flugmóðurskip sem siglir áfram og litlu bátarnir verða einfaldlega undir“.
Vissulega er það svo að borgir stækka og vaxa og taka sífelldum breytingum. Það er ekki bara eðlilegt að það sé líf í borgum heldur æskilegt. Að sama skapi verða borgaryfirvöld að taka tillit til lífsins í borginni, hafa það sem fyrir er í huga og taka ákvarðanir með það að markmiði að borgin dafni og íbúum líði vel.
Hér eru hins vegar þrjú dæmi þar sem borgaryfirvöld fara einfaldlega sínu fram. Það er líka athyglisvert í öllum þessum tilfellum hvað íbúar kvarta undan skorti á upplýsingum. Til eru rækilegar reglur um grenndarkynningar og upplýsingaskyldu. Þar virðast borgaryfirvöld hins vegar allt of oft láta nægja að uppfylla skyldur þannig að hægt sé að segja eftir á að formsatriðum hafi verið fullnægt frekar en að gera sér far um að kynna hvað standi til þannig að fólki líði ekki eins og komið sé aftan að því. Og það er rétt að hnykkt sé á því að þetta er pólitískur vandi. Allt of oft er embættismönnum teflt fram til að verja það sem miður fer í borginni, en það er stjórnmálamannanna að sjá til þess að hlutirnir séu í lagi.
Það er afleitt að borgarbúum líði eins og þeir séu afgangsstærð í borginni.