Forsætisráðherra Indlands: Shri Narendra Modi.
Forsætisráðherra Indlands: Shri Narendra Modi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vöxtur Indlands og viðgangur á fjölþættum vettvangi síðasta áratuginn hefur verið eftirtektarverður og fært landið nær takmarkinu „Viksit Bharat“ (Þróað Indland) árið 2047 er landsmenn fagna einnar aldar sjálfstæði sínu

Vöxtur Indlands og viðgangur á fjölþættum vettvangi síðasta áratuginn hefur verið eftirtektarverður og fært landið nær takmarkinu „Viksit Bharat“ (Þróað Indland) árið 2047 er landsmenn fagna einnar aldar sjálfstæði sínu. Lýðræðið hefur óumdeilanlega verið styrkur Indlands og grunnstef frá upphafi sjálfstæðis sem tryggt hefur þegnum landsins friðsælt, stöðugt, öruggt og betra líf.

Liðinn áratugur var einnig boðberi myndarlegs vaxtar indversks hagkerfis. Landið er nú um stundir í örustum vexti er litið er til hinna stærri hagkerfa heimsins, með aukningu landsframleiðslu um 8,2 og 6,4 prósent fjárhagsárin 2022 og 2023. Bráðabirgðatalan fyrir 2024 er 6,6 prósent og er reiknað með áframhaldandi örum vexti næstu árin og að fimm billjóna bandaríkjadala [701 billjónar króna] markinu í stærð hagkerfisins verði náð árið 2030.

Innlend eftirspurn og einkaneysla stendur að baki nær 70 prósentum landsframleiðslu Indlands auk þess sem ríkisútgjöld, fjárfestingar og útflutningur eru einnig hvetjandi þættir sem náðst hafa fram með ýmsum hagræðingum, svo sem innleiðingu vöru- og þjónustuskatts. Þá má nefna þau jákvæðu áhrif sem stafrænuvæðing og nýsköpun hafa haft á sprotafyrirtæki og fært þar með út kvíar stafræna hagkerfisins með frumkvæðisstarfsemi á borð við Stafrænt Indland sem opnað hefur nýjar víddir í tækniaðgengi.

Indland nýtur góðs af lýðfræðilegum arði sem styður við efnahagsþróunina. Um 65 prósent þjóðarinnar eru nú yngri en 35 ára en aðeins um fimm prósent eru eldri en 65 ára og þjóðin hlakkar til þess að sjá neyslu og framleiðni ungu kynslóðarinnar aukast og hefja vöxt hagkerfisins til hæstu hæða.

Andspænis ýtinni útþenslustefnu

Metnaður Indverja til að verða hnattræn framleiðslumiðstöð og tæknilegt forystuland tengist aukinni hæfni á vinnumarkaði. Árangurinn siglir hraðan byr þegar tíu milljónir ungmenna njóta ár hvert góðs af áætluninni Hæft Indland og aukin þátttaka kvenna á vinnumarkaði er framtíðarvexti landsins lyftistöng.

Á vettvangi alþjóðasamskipta hefur Indland markað sér áleitna framsækna stefnu snúna sjálfsöryggi.

Landið hefur staðið hnarreist andspænis ýtinni útþenslustefnu Kínverja og sett sér stefnuna „Nágrennið fyrst“ þar sem herkænskuskotin þolinmæði og ríkulegur stuðningur án endurgjalds einkenna samskiptin við nágrannalöndin á ögurstundu fyrir þróun hagkerfa þeirra. Hjálparhönd til suðrænna þróunarríkja, ekki síst með afhendingu rúmlega 300 milljóna að mestu ókeypis kórónuveirubóluefnaskammta hefur styrkt Indland í sessi sem „VishwaBandhu“ (Veraldarvin).

Öflugur hagvöxtur Indlands og fylgni við hagsmuni og stefnu í utanríkismálum um áratuga skeið hefur vakið alþjóðlega aðdáun og blásið þjóðinni von og sjálfstrausti í brjóst gagnvart því markmiði að búa við frið og velmegun þróaðs ríkis þegar hún fagnar hundrað ára sjálfstæði frá árinu 1947.

Loftslagsbreytingar eru einkennandi áskorun okkar tíma en samtímis því sem heimurinn færist nær síaukinni loftslagsvá tekur Indland sér stöðu við hinn alþjóðlega stjórnvöl andspyrnu gegn loftslagsbreytingum. Með samstilltum metnaði, nýsköpun og stimamýkt í samskiptum hefur landið ekki látið þar við sitja að takast á hendur djarfar skuldbindingar heldur einnig staðið undir þeim og með því stimplað sig inn sem trúverðugan leiðtoga á alþjóðavettvangi.

Kolefnisfótspor Indverja að teknu tilliti til höfðatölu, tvö tonn, er það smæsta meðal G20-iðnríkjaklasans og Alþjóðalánastofnunin (IFC) hefur útnefnt Indland eina G20-ríkið sem samræmist tveggja gráða markmiðinu. Um leið er það fimmta stærsta hagkerfi heims og á leið upp í þriðja sætið árið 2030. Þrátt fyrir þetta stendur Indland aðeins á bak við 3,4 prósent af kolefnislosun heimsins.

Hlúð að samstarfslausnum

Loftslagsskuldbindingar Indlands eru metnaðarfullar og mælanlegar og mynda þar með auðvelda fyrirmynd til að fylgja. Árið 2021 kynnti Narendra Modi forsætisráðherra fimmþætta aðgerðaáætlun, Panchamrit, á fundi vegna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna [UNFCCC] í Glasgow. Í aðgerðaáætluninni er meðal annars að finna viljayfirlýsingu um að ná kolefnishlutleysi árið 2070, koma upp 500 gígavatta framleiðslugetu grænnar orku árið 2030 og tryggja að endurnýjanlegar orkulindir standi undir helmingi orkunotkunar Indverja það sama ár.

Indland siglir hraðbyri í átt að því að ná téðum markmiðum. Árabilið 2005 til 2020 dró Indland úr losunarstyrk landsframleiðslu um 36 prósent og sýndi þar fram á þann fágæta eiginleika að rjúfa tengsl hagvaxtar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Rúmlega 46 prósent tilbúinnar raforkuframleiðslugetu Indverja eiga sér aðra drifkrafta en jarðefnaeldsneyti sem standa undir framleiðslu 203,22 gígavatta frá endurnýjanlegum orkugjöfum – þar með töldum vatnsaflsvirkjunum. Frumskógar og skóglendi ná nú yfir 25,17 prósent indversks lands með 2,29 milljarða tonna viðbótarkolefnisbindingu sem náðst hefur á tímabilinu 2005 til 2021.

Loftslagsforysta Indlands takmarkast ekki við árangur innanlands. Landið hefur beislað mjúka orku og með henni stofnað og leitt alþjóðabandalög sem taka á þungavigtarþáttum loftslagsþols, orkuskipta og sjálfbærni. Frumkvæðisvinna þessi, sem oft hefur verið unnin utan vébanda loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna [UNFCCC], magnar tilburði Indlands til að hlúa að samstarfslausnum.

Alþjóðasólarbandalagið (ISA), sem Indland kom á fót árið 2015, er dæmi um leiðtogahlutverk landsins. Með því að leiða saman 104 aðildarríki og sextán undirritunarríki, einkum úr hópi suðrænu þróunarlandanna, leitast ISA við að stilla sólarorku upp sem miðlægri lausn fyrir sjálfbæra þróun.

Breytt hegðun – breytt samfélag

Með sama móti taka Samtök um hamfaranæma innviði (CDRI), sem hleypt var af stokkunum árið 2019, á vaxandi viðkvæmni innviða fyrir loftslagsáhættu. Stuðla samtökin – sem telja 41 aðildarríki og sjö stofnanir – að raunhæfum lausnum til að bæta viðnám innviðanna – forgangsverkefni á tímum tíðra og hrikalegra loftslagshamfara.

Þegar Indland veitti samtökum G20-ríkja forsæti árið 2023 stofnaði það Alþjóðalífefnaeldsneytissamtökin (GBA) með það fyrir augum að flýta fyrir alþjóðlegri innleiðingu lífefnaeldsneytis. Samtímis því að stuðla að orkuöryggi sérhæfa samtökin sig í sjálfbærum orkulausnum í samstarfi 24 aðildarríkja og tólf alþjóðastofnana.

Leiðtogahópur iðnaðarumskipta (LeadIT), sem Indland var stofnaðili að árið 2019, er enn einn vettvangur þess markmiðs að draga úr kolefnislosun í losunarríkum iðngreinum. Þar starfa 37 samstarfsaðilar, ríki jafnt sem stofnanir, ötullega að því að ná kolefnishlutleysi á vettvangi stál- og sementsframleiðslu árið 2050.

Indverska lífsstílsverkefnið LiFE (Lifestyle for Environment) undirstrikar enn betur skuldbindingar landsins á sviði breyttrar háttsemi á einstaklings- sem samfélagsstigi. Með hvatningu til sjálfbærrar neyslu og framleiðsluaðferða tekst Indland ekki aðeins á við losunarmál, heldur stuðlar einnig að alþjóðlegri viðhorfsbreytingu gagnvart umhverfisstjórnun.

Indland fylkir löndum um sameiginleg markmið innan raunhæfs ramma á vettvangi raunverulegra áskorana. Með nýtingu aðgreiningarlausra bandalaga eflir Indland þróunarríki til þátttöku í alþjóðlegu loftslagssamstarfi á jafningjagrundvelli.

Framlög Indlands bera því einnig glöggt vitni – í ljósi þess hve hlutfallslega þungar loftslagsbyrðar suðrænu þróunarríkin bera – að leiðtogahlutverk á vettvangi loftslagsaðgerða snúast ekki um veraldleg auðæfi heldur hugsjónir og lausnir.

Indland-Ísland

Á 76. lýðveldisafmælisdegi Indlands beinum við sjónum okkar að hinu öfluga og vaxandi sambandi landa okkar tveggja.

Bæði hafa löndin átt í hlýlegum vinasamskiptum um árabil. Þrátt fyrir misjafna stærð og mannfjölda eru tvíhliða tengsl undirstaða sameiginlegra gilda á sviði lýðræðis, jöfnuðar, mannréttinda og lögskipunar.

Hvað pólitísk samskipti áhrærir hafa gagnkvæmar þjóðhöfðingjaheimsóknir átt sér stað. Fulltrúar stjórnvalda hafa einnig komið reglulega saman á fjölbreyttum alþjóðavettvangi.

Fríverslunarsamningur Indlands og EFTA-ríkjanna sem undirritaður var í fyrra boðar nýtt upphaf tækifæra á sviði viðskipta og þjónustu landanna í milli.

Bæði styrkja löndin áfram samstarf sitt á sviði sjálfbærra fiskveiða, líftækni og lyfjaframleiðslu, endurnýtanlegrar orku og málefna norðurslóða.

Jóga, sígild tónlist, dans, listmálun, kvikmyndir og matur hafa fært þjóðirnar nær hvor annarri og eru nokkrir Íslendingar reglulegir þátttakendur ókeypis jógatíma í boði indverska sendiráðsins í Reykjavík.

Vináttutengsl landanna hafa eflst og samskipti þegna þeirra sín á milli orðið algengari. Indverska samfélagið á Íslandi telur nú nánast 550 manns.