Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Fólk á oft einstaklega auðvelt með að gera sér lífið erfitt af litlu tilefni og koma um leið öðrum úr jafnvægi. Það sýnir öllum sem sjá vilja að því leiðist lífið alveg ógurlega mikið. Það nennir einfaldlega ekki að láta eins og allt sé í lagi og fúllyndið skal þá bitna á næsta manni, auðveldlega einstaklingum sem það þekkir ekki neitt.
Sú sem þetta skrifar var á dögunum á Heathrow-flugvelli að bíða eftir flugi heim. Hún tyllti sér niður á nýju veitingahúsi sem kennt er við Louis Vuitton. Um tíma velti hún því fyrir sér hvort veitingahúsið væri hugsanlega of fínt fyrir hana en ákvað svo að setja það ekki fyrir sig að vera ekki flottasti viðskiptavinurinn á staðnum. Hún er mikil matmanneskja, henni finnst einfaldlega algjör unaður að borða góðan mat, og þarna fékk hún bestu croque-monsieur sem hún hefur á ævi sinni fengið. Hún getur vart beðið eftir að mæta aftur og panta það sama. Á næsta borði sátu tvær konur sem þögðu. Það er hægt að þegja á ýmsa vegu en þetta var ekki þægilega tegundin af þögn. Það var á konunum áberandi óánægjusvipur, það blasti við að þær væru alls ekki ánægðar með tilveruna og staðinn sem þær voru staddar á. Loks rauf önnur þeirra þögnina til að tilkynna þjónustustúlkunni að kaffið væri ódrekkandi. „Enginn hefur kvartað,“ sagði stúlkan undrandi, fór með kaffið og kom svo aftur til að spyrja hvort bjóða mætti þeim annað lúxuskaffi. Þær þáðu það á eins þurrlegan hátt og mögulegt var og drukku kaffið síðan þegjandi og allan tímann vék óánægjusvipurinn ekki af andliti þeirra. Þegar kom að því að borga sagði þjónustustúlkan þeim að kaffið væri í boði hússins. Einhverjir hefðu séð ástæðu til að þakka fyrir örlætið en ekki þessar konur. Ekki hvarflaði að þeim að reyna að sýna þakklæti, hvað þá setja upp vingjarnlegt bros. Þær stóðu upp og gengu þegjandi út með fýlusvipinn límdan á andlitið.
Unga og viðkunnanlega þjónustustúlkan leit á pistlahöfund í uppgjöf, eins og í leit að huggun. „Það var eins og þær hefðu komið hingað ákveðnar í að verða óánægðar,“ sagði pistlahöfundur. „Það var nákvæmlega þannig,“ sagði unga stúlkan, sem fór afsíðis til að jafna sig eftir að hafa þurft að afgreiða fúllyndu konurnar og sást ekki í nokkurn tíma.
Fyrir örfáum árum var pistlahöfundur á léttklassískum útitónleikum í erlendri borg. Tónlistin var himnesk og veðrið var yndislegt. Allt var eins gott og það gat orðið. Í hléi keypti fólk sér veitingar. Vel klædd og yfirlætisfull kona með áberandi pirringssvip hafði ekki haft með sér alveg nógu mikinn pening til að eiga fyrir veitingunum sem hún keypti og pistlahöfundur rétti henni það litla sem upp á vantaði. „Takk,“ sagði hún hin afundnasta. Pistlahöfundur ætlaðist ekki til þakklætis en langaði samt til að segja: „Hér ertu á dásamlegum stað undir heiðum himni að hlusta á undursamlega tónlist. Þú komst af fúsum og frjálsum vilja, af hverju ertu svona ákveðin í að eyða orku í að sýna öllum fúllyndi þitt?“ Þetta sagði pistlahöfundur hins vegar ekki, maður segir einfaldlega ekki svonalagað við ókunnuga.
Pistlahöfundur hefur á ævi, sem er orðin furðu löng, kynnst fólki sem er í stöðugri valdabaráttu við umhverfi sitt. Það er í stríði og ætlar sér að sigra en veit ekki hvernig það á að fara að því og velur sér fúllyndið sem vopn. Fúllyndi er hins vegar afar veikt vopn.
Þetta fólk vill að hlutirnir séu allt öðruvísi en þeir eru og þreytist ekki á að láta óánægju sína í ljós. Það er ekki beinlínis reitt en það er óánægt og pirrað og vill að aðrir viti af því. Það sendir frá sér neikvæða strauma og lamar á vissan hátt þá sem þurfa að umgangast það, líka ókunnuga.
Jafnvel þótt við náum háum aldri þá lifum við ekkert óskaplega lengi. Best er vitaskuld að nýta tímann til fulls og eyða honum ekki í óþarfa. Hver einasta manneskja mætir einhverju mótlæti í lífinu, reiðist, gerir sín slæmu mistök og upplifir sorg. Hins vegar er afar slítandi að eyða dýrmætum tíma á þessari jörð í nöldur og þras. Þá erum við ekki að lifa til fulls heldur kasta tíma okkar á glæ.