Það er engin handbók til að fletta upp í þegar elgur fellur ofan í vök,“ sagði Robert Higgins, landvörður í New York-ríki í Bandaríkjunum, sem vann það frækilega afrek á dögunum að bjarga slíkri skepnu úr þessum erfiðu aðstæðum. Um tarf var að ræða, en þeir geta vegið á fimmta hundrað kíló.
Vegfarandi varð var við að elgurinn féll ofan í vökina og lét strax vita af óhappinu, sem átti sér stað á Abanakee-vatni, um 60 metra frá föstu landi. Elgir eiga ekki gott með að koma sér sjálfir úr aðstæðum sem þessum, auk þess sem þeir geta drepist úr ofkælingu. Það reið því á að hafa snör handtök.
Higgins dreif sig á staðinn, ásamt tveimur öðrum starfsmönnum embættisins, og annar þeirra, skógarvörðurinn Evan Nahor, greindi frá því í myndbandsyfirlýsingu sem AP-fréttaveitan vitnar til að þeir hefðu farið eftir hefðbundnu verklagi þegar fólki er bjargað úr vök, en slíkar aðgerðir geta verið mikið hættuspil enda auðvelt fyrir bjargendur að falla líka í vökina.
Mennirnir klæddu sig í blautbúninga, þannig að þeir myndu fljóta og halda á sér hita ef ske kynni að þeir lentu í vatninu. Því næst mældu þeir þykkt íssins með þar til gerðum stöfum og bundu við sig öryggisreipi.
Hér er gengið út frá því að lesendur séu að taka punkta, lendi þeir einhvern tíma í þessum aðstæðum sjálfir.
Þegar þeir voru komnir að dýrinu, sem starði að vonum á þá í forundran, notuðu þeir keðjusög til að víkka opið í átt að þykkari íshellu, sem ólíklegri væri til að bresta undan þyngd elgsins. Smám saman tókst þeim að beina dýrinu þangað og eftir um tveggja klukkustunda japl, jaml og fuður skreið það loksins upp á traustan ísinn.
Elgurinn var að niðurlotum kominn eftir volkið og eftir að hafa troðið marvaðann svona lengi og lagðist bara fyrir á ísnum. „Dýrið var örþreytt, skalf og nötraði og við vissum ekki hvort það myndi geta staðið upp aftur,“ sagði Higgins.
Eftir 15 mínútna hvíld náði elgurinn þó vopnum sínum á ný, fór á fætur og rölti í hægðum sínum sem leið lá inn í skóg. „Það var stórkostlegt að sjá þennan risavaxna elg standa upp fyrir fram okkur,“ sagði bjargvætturinn Higgins.
Raðkanínumorðingi?
Fleiri dýr komust í fréttirnar í vikunni. Eitthvað annað var þó upp á teningnum í Japan, en þar var maður handtekinn fyrir að sparka í kanínu á eyjunni Okunoshima sem þekkt er fyrir stórt og myndarlegt kanínusamfélag, að sögn AFP. Leika þær víst lausum hala og ferðamenn hafa yndi af því að gefa þeim að éta, ef marka má vefsíðu eyjunnar. Dýrið drapst af sárum sínum.
Maðurinn, sem hefur verið nafngreindur, Riku Hotta, er 25 ára og lögregla rannsakar nú hvort hann tengist dauða 77 kanína en hræ þeirra hafa fundist á eynni síðan í nóvember. „Dánarorsök gæti verið smitsjúkdómur, kuldi eða af mannavöldum, við vitum það ekki fyrir víst enn,“ sagði talsmaður umhverfisráðuneytisins í vikunni, áður en Hotta var tekinn höndum. „Við erum að rannsaka málið í samstarfi við dýralækna og viðeigandi stofnanir um leið og við höfum hert eftirlit.“
Eiturgasverksmiðja var starfrækt á Okunoshima í seinni heimsstyrjöldinni en þar er nú safn að finna. Yfirvöld þar um slóðir hafa freistað þess að laða til sín nýja íbúa með því að benda á það hversu duglegar kanínurnar eru að fjölga sér. Eða eins og segir á téðri vefsíðu: „Þetta er staður sem hefur góð áhrif á frjósemina.“