kvikmyndir
Helgi Snær
Sigurðsson
Ein skemmtilegasta kvikmynd ársins, Daaaaaalí!, er (eða var, allt eftir því hvenær þessi gagnrýni birtist) sýnd á Franskri kvikmyndahátíð í Bíó Paradís. Ofanritaður sá myndina á fyrstu sýningu í fullum aðalsal kvikmyndahússins og var engu líkara en hann væri staddur í Frakklandi. Allt í kring sátu Frakkar og létu dæluna ganga, augljóslega mjög spenntir fyrir myndinni, sumir meira að segja með rauðvínsglas í hendi. Viðbrögðin voru líka góð, fólk skellihló að þessari stórskrítnu og bráðfyndnu gamanmynd Frakkans Quentins Dupieux sem kom manni sífellt og skemmtilega á óvart þannig að engin leið að spá fyrir um hvaða stefnu hún tæki næst.
Sem dæmi má nefna að þegar maður hélt að atriði væri búið hélt það bara áfram og stundum svo lengi að maður átti allt eins von á því að öll myndin yrði lögð undir þetta tiltekna atriði. Og í miðju atriði var jafnvel skipt um leikara með snilldarlegum hætti og áhorfandinn þannig ruglaður í ríminu, hvað eftir annað, í anda meistarans sem um er fjallað í myndinni, hins spænska Salvadors Dalí.
Órökrétt og furðuleg
Daaaaaalí! er ekki ævisöguleg kvikmynd og atburðarásin er ekki línuleg. Hún er heldur ekki rökrétt og á heildina litið er hún algjör della sem hefði glatt Dalí alveg óskaplega, þann mikla furðufugl, sérvitring, húmorista og súrrealista. Höfundur myndarinnar er sér vel meðvitaður um þá erfiðu stöðu sem hann kom sér í með því að ráðast í gerð hennar og leiðin sem hann fer er sú eina rétta: að gera kvikmynd sem er allt í senn galin, órökrétt, stórfurðuleg og aldrei fyrirsjáanleg. Þannig var Dalí.
Salvador Dalí var súrrealisti og einn þekktasti myndlistarmaður Spánar fyrr og síðar, fæddur og uppalinn í Figures í Katalóníu. Þar í bæ má nú finna eitt skrautlegasta og skemmtilegasta listasafn Evrópu, tileinkað Dalí, og gaman er að skoða húsið sem hann bjó og starfaði í meirihluta ævinnar sem hýsir nú vinsælt Dalí-safn, Casa-Museu Salvador Dalí í Portlligat í Cadaqués. Stór hluti myndarinnar á einmitt að gerast í og við þetta hús sem margir hljóta að kannast við af ljósmyndum.
Söguflækja
Að rekja söguþráð þessarar kvikmyndar er illgerlegt því hann er varla þráður, meira flækja sem erfitt og jafnvel vonlaust er að greiða úr. Útgangspunkturinn er heimildarmynd sem gera á um listamanninn og ein aðalpersóna er ung kona, Judith Rochant nokkur (Anaïs Demoustier) sem fengið hefur það ómögulega verkefni í hendur. Hvort tekst að gera heimildarmynd í öllum glundroðanum verður að algjöru aukaatriði er á líður og ef það tókst, hver var þá sú mynd og hvaða útgáfa af henni náði í gegn á endanum?
Eitt skemmtilegasta atriði Daaaaaalí! sýnir hann gera nær endalausar athugasemdir við klippingu myndarinnar og breytist hún þá um leið sem er bráðskemmtileg hugmynd. Annað atriði, ekki síður sniðugt, verður líka að nefna og er það í blábyrjun myndar. Dalí gengur ergilegur eftir gangi ónefnds hótels og virðist sá gangur endalaus því klippt er á milli Dalís og tveggja kvenna sem bíða óþreyjufullar eftir honum við enda gagnsins. Dalí gengur og gengur og gengur og lætur dæluna ganga á meðan, er með allt á hornum sér en nálgast þó ekkert konurnar. Þær nýta tímann í að sækja veitingar, fara á salernið og fleira í þessu dásamlega atriði.
Furðufugl í mörgum útgáfum
Fimm leikarar fara með hlutverk Dalís, þeir Edouard Baer, Jonathan Cohen, Gilles Lelluche, Piou Marmai og Didier Flamant og einn til viðbótar sem sést þó aðeins í nokkrar sekúndur því hann á að hafa ratað óvart inn í myndina. Leikararnir eru á ólíkum aldri og nokkuð ólíkir en þó greinilegt að þeir eiga allir að vera Dalí. Hið mjög svo furðulega yfirvaraskegg listamannsins er það sem tengir þá helst saman, sérstakur klæðaburður listamannsins og ýkt og óútreiknanleg hegðun hans og talandi sem einkennist einna helst af óvenjulöngum sérhljóðum og rúllandi r-um. Leikararnir er allir bráðskemmtilegir í þessu bitastæða hlutverki, hver með sínar áherslur, sérkenni og ýkjur. Anaïs Demoustier er líka bráðgóð í hlutverki ungu konunnar sem reynir árangurslaust að ná viðtali við Dalí og ekki annað hægt en að kenna í brjósti um hana.
Karlrembuleg hegðun framleiðanda kvikmyndarinnar í myndinni, Jérome (Romain Duris), er eitt af því fáa sem hittir ekki í mark og virkar alls ekki fyndið. Sá náungi er fullur kvenfyrirlitningar og yfirlætis sem ekki verður séð að hafi verið nauðsynlegur hluti sögunnar. Sem betur fer staldrar hann stutt við í frásögninni.
Prestur, asni og kúreki
Nú má ekki skemma fyrir þeim sem eiga eftir að sjá þessa stórskemmtilegu kvikmynd en einn hluta hennar verður þó að nefna til viðbótar og hann snýr að presti, asna og kúreka sem birtast endurtekið og eru ýmist á leið áfram eða afturábak í frásögninni. Þarna leikur höfundur myndarinnar, Dupieux, sér með órökrétta framvindu og tímaröð. Þegar áhorfandinn heldur að ein saga sé búin er hún það oftast nær ekki og jafnvel langt því frá, jafnvel bara að byrja. Eða byrjaði hún kannski aldrei? Er þetta kannski bara draumur?
Jú, draumur er þessi mynd sannarlega og það bráðfyndinn og súrrealískur.