Eiríkur Björn Björvinsson
Eiríkur Björn Björvinsson
Borgarráð hefur samþykkt beiðni Eiríks Björns Björgvinssonar um tímabundið leyfi frá starfi sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar frá og með 1. janúar 2025 í allt að fimm ár í samræmi við 1

Borgarráð hefur samþykkt beiðni Eiríks Björns Björgvinssonar um tímabundið leyfi frá starfi sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar frá og með 1. janúar 2025 í allt að fimm ár í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 88/1995.

Steinþór Einarsson tekur við sem starfandi sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs þangað til nýr sviðsstjóri verður ráðinn. Stefnt er að því að tillaga vegna undirbúnings ráðningar í starf sviðsstjóra verði lögð fram í borgarráði 30. janúar nk., að því er fram kemur í fundargerð borgarráðs.

Í umræddri lagagrein segir orðrétt: „Alþingismaður á rétt á leyfi frá opinberu starfi, sem hann gegnir, í allt að fimm ár. Afsali hann sér starfinu eftir fimm ára leyfi á hann að öðru jöfnu forgang í fimm ár frá þeim tíma að sambærilegri stöðu hjá hinu opinbera.“

Í kosningunum 30. nóvember síðastliðinn var Eiríkur Björn kjörinn alþingismaður Suðvesturkjördæmis fyrir Viðreisn. Hann tók við embætti sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar árið 2023. Þar áður var hann meðal annars bæjarstjóri Austur-Héraðs 2002–2004, Fljótsdalshéraðs 2004–2010 og Akureyrarbæjar 2010–2018. sisi@mbl.is