Ég var bókhneigt barn og unglingur; las þjóðsögur, skáldsögur, ævisögur og allan fjandann annan fram á nætur. Ég skal ekki segja að ein bók hafi haft áhrif á mig umfram aðrar, en það er ekki fyrr en nú á seinni árum (ég er fimmtugur) sem ég hef byrjað að leyfa mér þann munað að hætta að lesa bók; klára hana ekki ef mér líkar hún ekki. Ákveðið frelsi í því, sannarlega.
Kvöldið er minn lestími, og á náttborðinu mínu akkúrat núna eru að rykfalla nokkuð margar bækur og eitt tímarit, Stuðlaberg heitir það og er helgað hefðbundinni ljóðlist, gefið út nokkrum sinnum á ári. En efsta bókin, og sú sem ég kláraði síðast, er eftir kunningja minn Loga Óttarsson frá Garðsá og heitir Fjandans fölsku tennurnar. Skemmtileg mannlífslýsing úr Eyjafirði síðustu aldar.
Þar undir lúra svo bæði bindi ævisögu Theodórs Friðrikssonar, Í verum, það ritverk er ég að lesa í annað sinn og nýt þess ekki síður en hið fyrsta.
Núnú, svo eru þarna árbækur Ferðafélagsins, eitthvað af erlendum bókmenntum, Ferðalag til Filippseyja eftir Svein Snorra Sveinsson Héraðsmann, Skáldið sem sólin kyssti, ævisaga Guðmundar Böðvarssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur.
Skrýtið að sjá ekki neitt á borðinu eftir Kalman okkar, svo oft sem ég hef smjattað á hans ótrúlegu verkum. En allt er þetta stundarfró; örlítið algleymi frá fréttatímum, interneti og öðrum friðþjófum, og um leið er lestur eiginlega heimboð inn í höfuðið á höfundinum, leyfi til að ferðast um hugarfylgsni annars fólks.
Í skáp náttborðsins kennir svo ýmissa óvæntra grasa: Myndaalbúm frá unglingsárunum, sem ég vil ekki að börnin skoði en þau eru pottþétt búin að fletta, alfræðisafn AB bókaútgáfunnar (Veðrið, Ljós og sjón, Stærðfræðin, Könnun geimsins, Mannshugurinn o.fl.), stafli af yfirgefnum þungarokksvínil og svo auðvitað nokkrar bækur í viðbót.
Og hvað ætli ég lesi næst? Jú, það eru Sextíu kíló af sunnudögum Hallgríms Helgasonar, mikið hlakka ég til.