Daría Testo og Bryndís Fjóla munu halda fyrirlestra á ráðstefnunni á Akureyri.
Daría Testo og Bryndís Fjóla munu halda fyrirlestra á ráðstefnunni á Akureyri. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við eigum að hlusta á náttúruna og gefa lækjum, steinum og trjám athygli og hlusta á hvað andi þeirra vill segja okkur, eins og við hlustum á börnin okkar og elskum þau.“

Alþjóðlega ráðstefnan Tales of the Nature Spirits/Saga náttúruvættanna verður haldin seinna á þessu ári, nánar tiltekið 31. maí í Menningarhúsinu Hofi. Henni verður fylgt eftir með vinnustofu 1. júní í hátíðarsalnum Sólborg, Háskólanum á Akureyri. Skráning á ráðstefnuna er nauðsynleg og er þegar hafin á mak.is og einnig er hægt að kaupa miða á tix.is. Líka gefst kostur á að kaupa beint streymi á ráðstefnuna.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni verða Bryndís Fjóla Pétursdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Galadriel González Romero, Nancy Marie Brown, Inga Lísa Middleton, Jindřich Pastorek og Daria Testo.

„Markmið ráðstefnunnar er að auðga skilning, þvert á fræðigreinar, þjóðerni og tungumál, á þeim óáþreifanlega menningararfi er snýr að álfum, huldufólki og öðrum náttúruvættum og um leið að skapa aukin og ný tækifæri á þverfaglegu samstarfi, er snýr að rannsóknum, ferðaþjónustu, menningar- og listsköpun, auk útflutnings á þekkingu okkar á skynjun á landi og þjóð. Þarna gefst einstakt tækifæri til að fræðast og spyrja spurninga um sögu okkar og menningararf.

Þetta er ekki bara ráðstefna heldur verður vinnustofa í framhaldi af ráðstefnunni þar sem unnin verður samantekt, ályktun skrifuð fyrir fjölmiðla og stefnan mótuð fyrir næstu samstarfsverkefni. Einnig verða ýmsir viðburðir í boðið fyrir ráðstefnugesti eins og gönguferðir á álfa- og drekaslóðir, hugleiðsla og vatnslitamálun með vatni úr héraði og fleira,“ segir Bryndís Fjóla Pétursdóttir, verkefnastjóri og garðyrkjufræðingur.

Segja má að hún sé sérfræðingur þegar kemur að fræðslu um það hvernig við tengjumst hinum ýmsu víddum náttúrunnar og sérstaklega leggur hún sig fram við að tengja okkur við álfa, huldufólk og tröll. Hún útbjó til dæmis á sínum tíma kort með teikningum eftir Rakel Hinriksdóttur yfir álfa- og huldufólksbyggðir í Lystigarðinum á Akureyri, sem fengið hefur nafnið Huldustígur, og býður þar upp á gönguferðir með hugleiðslu.

Alþjóðlega Ráðstefnan í ár er haldin í framhaldi af afar farsælli og vel heppnaðri ráðstefnu Huldustígs ehf. sem haldin var um álfa og huldufólk í heimabyggð, í Hofi á Akureyri í fyrra. „Miðar seldust upp á þá ráðstefnu og komust færri að en vildu. Þessi alþjóðlega ráðstefna fékk á dögunum styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands eystra og það er styrkur sem gerir okkur mögulegt að undirbúa þennan viðburð,“ segir Bryndís Fjóla.

Huldustígur ehf. og Hulda – náttúruhugvísindasetur standa að ráðstefnunni að þessu sinni.

Ráðstefnan verður haldin á ensku. „Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ búa þar 1.800 einstaklingar af áttatíu og einu þjóðerni og í Þingeyjarsveit búa nú einstaklingar af þrjátíu þjóðernum. Það að ráðstefnan sé haldin á ensku gefur sem flestum tækifæri til að taka þátt í henni. Auk þess er dýrmætt að íslenskur arfur sé skoðaður í alþjóðlegu samhengi,“ segir Bryndís Fjóla.

Álfarnir voru vinir

Bryndís Fjóla er skyggn og fór sem barn að sjá álfa og huldufólk og til hennar er oft leitað, til dæmis af landeigendum þegar kemur að því að ákveða hvar megi grafa og hvar ekki til að tryggja að ekki sé raskað svæðum þar sem huldufólk og álfar búa.

„Ég er alin upp í Gróðrarstöðinni Mörk þar sem er álfhóll. Í Mörk átti ég yndislegan uppvöxt, náið samband við náttúruna og var í samskiptum við álfana sem voru vinir mínir. Þegar ég var aðeins eldri keyptu foreldrar mínir jörð fyrir austan Selfoss og þá fór ég einnig að kynnast huldufólkinu,“ segir hún. „Fram eftir aldri átti ég erfitt með að treysta mannfólki, kannski vegna þess að ég var á Thorvaldsen-vöggustofunni í eitt ár. Mér fannst hins vegar mjög þægilegt að eiga samskipti við álfana.“

Hún sér og finnur ekki einungis fyrir álfum og huldufólki heldur einnig hafmeyjum, tröllum og drekum en hún segir þá vera við flesta fossa á Íslandi. „Ég sé þessar verur myndgerast og birtast mér, en margir fá tilfinningu fyrir þeim, sem getur oft verið afar dýrmæt tilfinning sem samskiptaform við náttúruna. Við eigum að hlusta á náttúruna og gefa lækjum, steinum og trjám athygli og hlusta á hvað andi þeirra vill segja okkur, eins og við hlustum á börnin okkar og elskum þau.“

Þegar fólk fréttir þetta heldur það þá að þú sért ímyndunarveik?

„Nei, en mér finnst gott að eiga samtalið og tek gagnrýni vel, kannski dregst ég frekar að fólki sem er skilningsríkt og áhugasamt. Flestir verða fegnir að heyra þetta og þá skiptir engu úr hvaða þjóðfélagsstiga þeir eru. Eldra fólkinu finnst vænt um að fá tækifæri til þess að segja sína sögu, sem og bændur. Börn gleðjast og eiga auðvelt með að viðurkenna að það sé álfur við tréð og drekinn sé við fossinn. Ég hef átt mjög gott samstarf við leik- og grunnskóla sem og hjúkrunarheimili, og mér finnst mikilvægt að gefa kost á fræðslu og samtali um náttúruna á þessum nótum.“

Spurð hvort fræðimennirnir sem halda munu erindi á ráðstefnunni trúi einnig á náttúruvætti segir Bryndís Fjóla: „Ég held að svo sé. Fræðimennirnir hafa allir unnið með náttúruvætti í rannsóknum sínum og geta tengt þá við það sem þeir hafa skoðað og rannsakað, á mörgum sviðum.

Við erum oft að aðgreina okkur frá náttúrunni. Tréð skynjar okkur eins og við getum skynjað það. Japanir eru búnir að sýna fram á hvað gerist í líkamanum þegar þú faðmar tré, það er betra fyrir ónæmiskerfið og andlega líðan.“

Mikilvæg trú

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni er sýningarstjórinn Daría Testo sem er frá Mongólíu en býr hér á landi. „Ég ólst upp við trú á náttúruvætti sem svipar til þess sem gerist á Íslandi þótt við köllum okkar anda hvorki álfa né huldufólk. Ég ætla að tala um þessa menningu og þá yndislegu leið sem finnst til að lifa í sátt við þessar verur. Þannig getum við sýnt náttúrunni virðingu,“ segir hún.

Trúir hún á náttúruvætti?

„Stutta svarið er já því þeir eru svo ríkur þáttur í menningunni sem ég ólst upp við. Mér finnst trúin á náttúruvætti mikilvæg, ekki bara vegna trúarinnar sjálfrar heldur vegna þess að það er skemmtilegra að trúa á þá en ekki.“

Þess skal að lokum getið að Bryndísi Fjólu hefur ásamt Ingu Lísu Middleton verið boðið að halda kynningu í íslenska sendiráðinu í London 30. janúar og Nordatlantens Brygge við íslenska sendiráðið og Jónshúsi í Kaupmannahöfn 27. og 30. mars.

„Þar munum við kynna náttúruvættina og til dæmis segja frá því hvernig þeir birtast í hinum sjónræna menningararfi þjóðarinnar og hvernig vitneskja um þessa náttúruvætti getur nýst okkur í heimi loftslagsvár. Tilfinningin fyrir okkur sjálfum í náttúrunni og hvernig hún mætir okkur, getur sýnt okkur hvernig við getum tekið á fjölbreyttari hátt þátt í aðgerðum í loftslagsmálum. Vitneskja um náttúruvætti tengir saman fræðigreinar og kynslóðir. Unga kynslóðin getur þá trúað og treyst því sem langamma upplifði,“ segir Bryndís Fjóla.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir