Hallgerður Hallgrímsdóttir og Nina Zurier sýna ný ljósmyndaverk í Berg Contemporary.
Hallgerður Hallgrímsdóttir og Nina Zurier sýna ný ljósmyndaverk í Berg Contemporary. — Morgunblaðið/Egger
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessar virkiseyjar bera með sér alla þessa stríðssögu en þarna er samt fólk sem finnur leið til að rækta garðinn sinn.

Sjónarvottur er titill sýningar í Berg Contemporary sem samanstendur af nýjum ljósmyndaverkum eftir Hallgerði Hallgrímsdóttur og Ninu Zurier. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands og stendur til og með 22. febrúar.

Verk Hallgerðar eru hluti af seríu sem ber titilinn Ósýnilegt stríð / Sýnilegt stríð og byggist á fundnum stereógrafíum sem teknar voru á glerplötur í fyrri heimsstyrjöldinni, auk litmynda af gróðri sem Hallgerður tók á virkiseyjum Suomenlinna í Helsinki.

„Ég er að reyna að kalla fram ákveðna tilfinningu sem ég upplifði sjálf þegar ég fékk safn af glerplötu-stereógrafíum gefins frá vini mínum. Fyrsta platan sem ég tók upp var hryllileg en á sama tíma heillandi mynd af eyðileggingu sem var augljóslega af mannavöldum. Maður sér strax að þarna er stríð þótt hvorki vopn né manneskjur séu sjáanlegar. Kannski er ég að reyna að fá fólk til að horfa á öðruvísi stríðsljósmyndir en þær hefðbundnu, myndir sem við getum mögulega hugsað okkur að dvelja aðeins við og hugleiða. Þetta eru ómerktar svart-hvítar myndir sem voru teknar í fyrri heimsstyrjöld í frönskum skotgröfum, líklega nálægt Verdun eða Somme. Meira veit ég ekki um þær,“ segir Hallgerður.

Að rækta garðinn sinn

Hallgerður valdi myndir úr safninu, skannaði þær og stækkaði. „Ég valdi myndir sem mér fannst hafa þá stemningu sem ég var að leita að og paraði þær við litmyndir sem ég tók sjálf á Suomenlinna í Helsinki. Þar hefur verið virki frá miðri 18. öld og alls konar þjóðir ráðið ríkjum. Ég tók myndir í samfélagsgörðum á eyjunum en jarðvegurinn þar er svo mengaður af þungmálmum eftir allt vopnaskakið að ekki er ráðlagt að hrófla mikið við honum. Fólk flytur inn mold af meginlandinu til að geta ræktað blóm og ég tók myndir af þeim. Mér finnst felast viss von í því.“

Tenging við umhverfisvernd

Nina, sem býr í Bandaríkjunum og hér á landi, sýnir verk úr seríu sinni Gervilandslag sem samanstendur af ljósmyndum búnum til með aðstoð gervigreindarforritsins Adobe Firefly.

„Ég valdi skipanir eins og Ísland, hvít hlaða, svart-hvítt. Ég fæ fjórar myndir og ýti aftur á takkann og fæ fjórar myndir og aftur ýti ég á takkann og fæ fjórar myndir og svo framvegis. Fyrsta kynslóð mynda var síðan notuð til að búa til aðra, þriðju og fjórðu kynslóð með gervigreind.

Ég framkallaði myndirnar síðan gegnum stafrænar síur og annan hugbúnað eins og ég geri venjulega,“ segir Nina.

Myndirnar eru afar sérstakar, eiginlega draugalegar. „Á hverri mynd er gamalt hús í landslagi en þarna er ekkert fólk, engin dýr, enginn traktor, engir bílar, engir hlutir. Bara húsið. Á mörgum myndanna sést að það er kveikt á ljósum í húsinu en þar er ekkert líf. Ég sé þetta sem eins konar heimsendasýn. Kannski er þetta framtíðarsýn, tími þegar allt er horfið en það er enn kveikt á ljósunum,“ segir Nina.

„Þessi tilfinning um heimsendi endurspeglast í myndum okkar beggja,“ segir Hallgerður. „Þótt myndirnar sem ég sýni séu frá fyrstu heimsstyrjöldinni þá gætu þær einnig sýnt framtíðina.“

„Það má líka sjá í myndum okkar ákveðna tengingu við umhverfisvernd, sem núna á undir högg að sækja víða um heim, til dæmis í Bandaríkjunum. Við lifum á ógnvekjandi tímum,“ segir Nina.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir