Heillandi „Túlkun, persónusköpun og vald Þóreyjar [Birgisdóttur] á efninu – og fyrir vikið á áhorfendum – er algert frá fyrstu innkomu. Iffí er sjarmerandi, fráhrindandi, heillandi og hættuleg. Óútreiknanleg og fyrirsjáanleg í senn. Þórey neglir þetta allt,“ segir í rýni um einleikinn Ífigeníu í Ásbrú.
Heillandi „Túlkun, persónusköpun og vald Þóreyjar [Birgisdóttur] á efninu – og fyrir vikið á áhorfendum – er algert frá fyrstu innkomu. Iffí er sjarmerandi, fráhrindandi, heillandi og hættuleg. Óútreiknanleg og fyrirsjáanleg í senn. Þórey neglir þetta allt,“ segir í rýni um einleikinn Ífigeníu í Ásbrú. — Ljósmynd/Grace Jane Claiborn-Barbörudóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Ífigenía í Ásbrú ★★★½· Eftir Gary Owen. Þýðing: Þórey Birgisdóttir og Anna María Tómasdóttir. Leikstjóri: Anna María Tómasdóttir. Hljóðhönnun: Kristín Hrönn Jónsdóttir. Ljósahönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikari: Þórey Birgisdóttir. Frumsýnt í Tjarnarbíói fimmtudaginn 16. janúar 2025.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Þórey Birgisdóttir hefur í kynningarviðtölum lýst því hvernig einleikur Garys Owen, Iphigenia in Splott, heillaði hana upp úr skónum við fyrsta lestur. Fljótlega eftir það tryggði hún sér sýningarréttinn og hófst handa við að undirbúa uppfærslu. Þessi trú á efninu og ástríða fyrir því blasir við á öllum póstum í sýningunni í Tjarnarbíói.

Það eru reyndar ekki ýkja margir póstar. Leikmyndin er svo einföld að það er enginn skrifaður fyrir henni í leikskránni. Hljóðmynd Kristínar Hrannar Jónsdóttur og lýsing Ástu Jónínu Arnardóttur er sömuleiðis algerlega þjónandi. Þýðingin leikkonu og leikstjóra er lipur og leikræn. Ástríðan birtist fyrst og síðast í tökum Þóreyjar á efninu og trú hennar og Önnu Maríu Tómasdóttur leikstjóra á að það sé fyllilega nóg – að allt frekara flúr myndi ekki hjálpa og í versta falli trufla.

Það er sennilega rétt hjá þeim. Túlkun, persónusköpun og vald Þóreyjar á efninu – og fyrir vikið á áhorfendum – er algert frá fyrstu innkomu. Iffí er sjarmerandi, fráhrindandi, heillandi og hættuleg. Óútreiknanleg og fyrirsjáanleg í senn. Þórey neglir þetta allt.

Kjaftur og kynþokki eru vopn Iffíar í lífsbaráttunni, sem hún virðist reyndar lengi vel ekki líta á sem baráttu, svo fyrirhafnarlausir eru sigrar hennar. Hún er með heimska vöðvatröllið Kidda þannig í vasanum að bæði hann og við vitum ekki almennilega hvort hann er kærasti hennar eða ekki. Hún getur farið auralaus á djammið, sem er eins gott því hún er láglaunamanneskja, ef þá það, og verið viss um að geta orðið nákvæmlega jafn hauslaus og henni finnst tilhlýðilegt.

Þetta breytist allt þegar einnar nætur gaman með einfættum sjóara skilur Iffí eftir bæði ástfangna og ófríska. Varnarkerfið hrynur. Og svo – þegar mest á reynir – reynist heilbrigðiskerfið vera hálfhrunið líka, með hræðilegum afleiðingum.

Texti Owens er frábærlega saman settur. Lipur og kraftmikill. En þó leikslokin séu hörmuleg eru þau ekki harmræn í þeim skilningi að verkið nái einhverjum endurómi af verki Evripídesar um nöfnu aðalpersónunnar, dóttur Agamemnons, sem er fórnað fyrir betri byr á blóðvellina við Trójuborg. Fórn Iffíar er slys með vanburða heilbrigðiskerfi sem einn af orsakaþáttunum. Túlkun persónunnar á atburðunum stenst enga skoðun. Vanmáttug tilraun til að skapa merkingu þar sem engin er.

Þessi ófullnægjandi niðurstaða er til staðar í enska textanum, en verður enn skýrari í þeim íslenska, og ekki bara af því að þær Þórey og Anna María kjósa að sleppa síðustu blaðsíðunni í textanum þar sem aðhaldsstefnu og innviðahrörnun er lesinn pistillinn. Enskt stéttskiptingarkerfi á sér einfaldlega ekki nægilega skýra hliðstæðu í íslenskum raunveruleika, og þar af leiðandi er bakgrunnur Iffíar ekki jafn augljóslega gefinn og hann er í heimalandinu. Ásbrú er ekki úthverfi í Cardiff og íslenskir sjóarar eru ekki tilfinningalega skaddaðir breskir uppgjafahermenn. Svo má lengi rífast um stöðuna á heilbrigðisþjónustunni og hvernig gengur að halda Reykjanesbrautinni opinni í verstu veðrum.

Skiptir þetta máli? Já, dálitlu, en fellur þegar upp er staðið í skuggann af frábærri frammistöðu Þóreyjar Birgisdóttur við að miðla þessari sögu sem orkaði svona sterkt á hana og heimtaði að framkallast á íslensku sviði. Fimi, tækni og frumkraftur ástríðunnar gera heimsókn í dapurlegt líf djammdrottningarinnar á Ásbrú að vænlegum kosti fyrir leikhúsunnendur.