Í flugi Play Um borð í flugvélinni.
Í flugi Play Um borð í flugvélinni. — Morgunblaðið/Aðsend
Nokkur órói skapaðist meðal hluta farþega um borð í flugvél Play síðastliðinn miðvikudag. Flugvélin var á leið frá Fuerteventura á Kanaríeyjum til Keflavíkur. Mikil ókyrrð var um miðbik flugsins, sem var rúmir fimm tímar, og fékk einn farþeganna kvíðakast

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Nokkur órói skapaðist meðal hluta farþega um borð í flugvél Play síðastliðinn miðvikudag. Flugvélin var á leið frá Fuerteventura á Kanaríeyjum til Keflavíkur. Mikil ókyrrð var um miðbik flugsins, sem var rúmir fimm tímar, og fékk einn farþeganna kvíðakast.

Farþeginn, kona með kornabarn, fékk alvarlegt kvíðakast. Lýsti það sér þannig, að hennar sögn, að hún átti erfitt með að anda og óttaðist að vélin væri að hrapa. Blaðamaður var um borð og fylgdist með því þegar nærstöddum farþegum varð ekki um sel þegar konan fékk kvíðakastið.

Tekið skal fram að flugfreyjur ræddu við konuna, að beiðni nærstaddra farþega, og róaðist hún við það. Tóku flugfreyjurnar fram að aðeins nokkrar mínútur væru eftir af flugi í gegnum ókyrrð.

Flugfreyja ávarpaði farþega í upphafi ókyrrðarinnar. Farþegi sem blaðamaður ræddi við sagðist hins vegar hafa saknað þess að heyra ekki meira frá flugstjórunum. Þeir upplýstu farþega hins vegar um stöðuna í leik Íslands og Egyptalands á HM í handbolta, þegar ókyrrðin var að baki og þegar skammt var eftir af fluginu.

Af þessu tilefni var send fyrirspurn til Play um hvaða verklagsreglum væri fylgt þegar ókyrrð kemur upp í flugi.

Ávörpuðu farþega

Nadine Guðrún Yaghi samskiptastjóri Play varð til svara.

„Verklag varðandi ókyrrð er þannig að áhöfnin ávarpar farþega og útskýrir að flogið sé í gegnum svæði ókyrrðar. Þá sér hún til þess að allir farþegar séu með öryggisbelti spennt og tryggir alla lausa muni í eldhúsum ásamt því að læsa klósettum,“ sagði Nadine í skriflegu svari.

Þá var spurt hvort flugfélagið
upplýsti jafnan farþega um hversu lengi ókyrrð kann að vara. Jafnframt hversu lengi ókyrrð þarf að vara til að tilefni þyki til að flugstjóri ávarpi farþega.

„Hversu lengi ókyrrð varir er alla jafna ómögulegt að spá fyrir um, en í þessu tilvik varði ókyrrðin í um 30 mínútur. Flugliðar þurftu einnig að setjast niður og spenna beltin og áhafnarmeðlimur fór með ávarp og útskýrði fyrir farþegum að flogið væri í gegnum ókyrrð,“ sagði í svari Nadine fyrir hönd Play.

Höf.: Baldur Arnarson