Bjarni Guðmundsson frá Bæ III fæddist í Bæ í Kaldrananeshreppi 13. janúar 1927. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 19. janúar 2025.
Foreldrar Bjarna voru Guðmundur Ragnar Guðmundsson, f. 11. janúar 1900, d. 7. maí 1973, og Margrét Ólöf Guðbrandsdóttir, f. 2. ágúst 1891, d. 17. október 1985. Systkini hans voru Kristbjörg, f. 6. febrúar 1924, d. 14. mars 2005, Ragna, f. 11. október 1925, d. 9. maí 2010, Branddís Ingibjörg, f. 28. apríl 1928, d. 25. júlí 2012, og Ingimar, f. 14. október 1929, d. 15. október 2013. Uppeldisbróðir þeirra var Lýður Sveinbjörnsson, f. 1. maí 1940, d. 26. september 2018.
Bjarni giftist Líneik Sóleyju Loftsdóttur, f. 11. júlí 1941, d. 16. október 2023, þann 18. ágúst 1965. Börn Bjarna og Sóleyjar eru 1) Loftur Vignir, f. 16. júní 1965, kvæntur Signýju Rut Friðjónsdóttur, f. 30. mars 1967, 2) Margrét Ólöf, f. 3. mars 1969, gift Guðmundi Guðmundssyni, f. 24. ágúst 1960, og 3) Guðmundur Ragnar, f. 22. ágúst 1973, kvæntur Arnheiði Fanneyju Magnúsdóttur, f. 20. júlí 1971. Stjúpsynir Bjarna eru 4) Heimir Berg Gíslason, f. 12. júlí 1960, kvæntur Sólrúnu Oddnýju Hansdóttur, f. 6. nóvember 1962, og Friðsteinn Helgi Björgvinsson, f. 5. júní 1962, d. 15. júlí 1997, kvæntur Sigrúnu Jónsdóttur, f. 20. júní 1958.
Bjarni var bóndi í Bæ III og trillukarl ásamt því að reka ferðaþjónustu með eiginkonu sinni í 18 ár. Hann nam búfræði við Bændaskólann á Hvanneyri.
Útförin fer fram frá Drangsneskapellu í dag, 25. janúar 2025, klukkan 14.
Elsku besti pabbi minn.
Minningarnar eru margar og söknuðurinn mikill nú þegar þú hefur kvatt okkur.
Síðast þegar ég kvaddi þig sagðist þú vera að fara, fara hvert, spurði ég: „Ég er að fara norður.“ Þú varst orðinn þreyttur og vissir að hverju stefndi og þig langaði heim.
Mér er efst í huga þakklæti fyrir allar dýrmætu stundirnar með þér og mömmu. Það
var ómetanlegt að hafa ykkur úti í Bæ þegar við vorum með krakkana litla, þau áttu alltaf öruggt skjól hjá ykkur. Þau elskuðu að fara til ykkar því þar voru alltaf til kökur og þú nenntir að spila við þau. Þú varst ótrúlega þolinmóður við okkur systkinin þegar við vorum að alast upp og minnist ég þess að ef mig langaði að fara eitthvað þá spurði ég þig alltaf fyrst, því þú sagðir alltaf já en svo sagðir þú „en spurðu mömmu þína“.
Árið 1988 ákváðum við að kaupa okkur bát saman, Sæfugl, þar sem skektan þín,
Hringur, var fulllítil að okkar mati. Þarna var upphafið að okkar útgerðarsögu saman sem alla tíð gekk vel. Það var auðvelt að vinna með þér, því þú skiptir aldrei skapi. Þú varst hafsjór af fróðleik og minni þitt var ótrúlegt.
Elsku pabbi. Það var dýrmætt að geta haldið upp á 98 ára afmælið þitt með þér núna fyrir stuttu, það er eins og þú hafir ákveðið að klára það svo þú gætir kvatt okkur öll. Núna höfum við ótal minningar um þig til að ylja okkur við og þín verður sárt saknað.
Takk fyrir allt, elsku besti pabbi minn. Ég elska þig.
Þín,
Magga (Margrét).
Elsku besti afi okkar.
Nú þegar við kveðjum þig í hinsta sinn leitar hugurinn til allra góðu minninganna sem við eigum af þér og ömmu. Þið voruð ómetanlegur fjársjóður að eiga og nutum við góðs af því að alast upp með annan fótinn hjá ykkur í Bæ. Þegar við hugsum til baka minnumst við þess að þú hafðir endalausa þolinmæði fyrir okkur og leyfðir okkur að elta þig á röndum út um allt, t.d. í fjárhúsin, upp að vötnum að kíkja á silunganetin og í bílferðir út að Töflu að líta eftir veðrinu og kindunum. Sama hvort þú nenntir því eða ekki greipstu í spilin með okkur ef við báðum um það og leyfðir okkur yfirleitt að vinna, þú vart jú alltaf með eintóma hunda á hendi. Þú varst ekki maður margra orða en við fundum alltaf fyrir umhyggju þinni í okkar garð, birtist það t.d. í fallegu vísunum sem þú ortir til okkar, í kindunum sem þú gafst okkur og gleðinni þegar við heimsóttum þig með strákana okkar. Þú kenndir okkur ansi margt, t.d. listina að leggja sig eftir hádegismatinn, að borða cheerios með þykku lagi af sykri, að stjórna fjarstýringunni í svefni og að það væri allt í lagi að borða brauðið þótt það væri orðið örlítið grænt. Okkur þótti dýrmætt að fá að fagna með þér síðasta afmælinu þínu nú á dögunum og munum alltaf minnast þín með hlýju í hjarta. Við munum ávallt sakna þín og elska þig.
Ástarkveðjur,
Kolbrún, Sandra og
Friðsteinn (Steini).
Hann Bjarni í Bæ hefur kvatt þetta líf í hárri elli. Við hittum hann síðast við útför Sóleyjar eiginkonu hans norður á Drangsnesi fyrir rúmu ári. Þau voru einstök heiðurshjón sem gott var að kynnast og eiga að vinum. Þau bjuggu lengst af fallegu og góðu búi að Bæ á Selströnd en seinni hluta ævinnar hér sunnan fjalla. Þau voru höfðingjar heim að sækja og fyrir norðan þar sem rætur þeirra liggja var einstakt að eiga með þeim stundir. Bjarni var traustur og yfirvegaður drengur með hreint hjarta og hlýtt fas og yfirvegað. Hann var strangheiðarlegur, greiðvikinn og lipur og vildi allra vanda leysa, greindur maður og viðræðugóður. Hann var trúaður maður og óhvikull um þau verðmæti lífsins sem mölur og ryð fá ekki eytt og vörðuðu lífsveg hans allan. Bjarni var hörkuduglegur bóndi, útsjónarsamur og hygginn. Hann þekkti landið sitt fagra og líf þess út í hörgul og fór um það af natni og kunnáttu en bæði er sótt til sjós og lands um lífsbjörgina þar nyrðra. Þau voru samhent og einhuga þessi yndislegu hjón og bjuggu börnum sínum einstakt skjól og veganesti bestu gilda. Heimilið var fallegt og vel búið með blómahafi Sóleyjar, innan dyra og utan, og helgað gestrisni, gleði og hlýrri gæsku í allra garð.
Það eru nærri sex áratugir síðan fundum okkar bar fyrst saman og hjálpsemi þeirra og umhyggja í okkar garð og trölltrygg vinátta frá fyrstu tíð er á meðal þess besta sem reynd daga og stunda hefur fært okkur. Kynni voru þegar til staðar við fjölskylduna í Bæ þar sem Halldór bróðir minn átti þar árvissa sumardvöl á æsku- og uppvaxtarárum hjá foreldrum Bjarna, Guðmundi Ragnari og Margréti Ólöfu, og tengdist fjölskyldunni sterkum vináttu- og tryggðaböndum. Ein dætra hans ber nafn „ömmu í Bæ“ og römm er sú taug er þangað liggur frá honum og fjölskyldu hans allri.
Börn og fjölskyldur þessara heiðurshjóna Bjarna og Sóleyjar sem enn rækta garðinn sinn fyrir norðan og gæða þann fagra reit sömu gleði og kærleika með framgöngu sinni og viðmóti. Guð blessi þau og allt sem er þeirra. Við hjónin þökkum einstök kynni og samleið góðra daga.
Guð blessi minningu Bjarna og Sóleyjar í Bæ.
Jón frá Ljárskógum Þorsteinsson Sigríður Anna Þórðardóttir.