Nú eru liðnir 4-5 dagar frá því að Donald Trump var settur inn í embætti sem 47. forseti Bandaríkjanna með pompi og prakt. Bréfritari þykist vita hverju „pomp og prakt“ lýsa, en það þarf að gæta sín, því að viðbættu „a“ er „pomp-a“ ekki langt undan og þá verður minna um „prakt.“ Viðkomandi sló þessu um sig aðallega af tilgerð. Þegar Trump vann fyrstu (og síðustu) kappræðurnar við Biden forseta varð stuðningsmönnum hins síðarnefnda mjög brugðið. Reyndar fékk Trump ekki ráðrúm til að „vinna“ þessar kappræður. Það varð fljótlega augljóst að Joe Biden var ekki í góðu formi. Þeim sem lýstu í útsendingu í fjölmiðlum varð fljótlega ljóst að Biden „gengi ekki á öllum“. Mjög snemma spurðu spyrjendur forsetann um efni sem ekki var snúið að svara. Biden byrjaði á svari og fljótlega sást að ekki var allt í lagi. Spyrjendur spurðu þá Trump um „sama álitaefni“. Hann horfði á þá og svo á Biden en sagði með hægð: „Ég skildi ekki hvað hann var að segja. Og ég held að hann skilji það ekki heldur.“ Og sú var því miður raunin. Daginn eftir komu raddir, sem urðu sífellt háværari, um að Biden hefði ekkert vald haft á verkefni sínu þetta dapurlega kvöld.
Valdaklíkan kemur saman
Helsta valdaklíka flokks demókrata kom saman á neyðarfund og þar efaðist enginn um að Biden væri búið spil. Sígild stuðningsblöð demókrata, um áratugi, kröfðust þess í leiðara daginn eftir að Biden félli frá framboði sinu. Það var þó flóknara en virtist í fyrstu. Joe Biden hafði einn umboð fyrir gríðarlegum fjárhæðum sem demókratar höfðu safnað til að kosta kosningabaráttuna. Eina vonin var að Biden segði sig frá sínu framboði og varaforsetinn Kamala Harris tæki við. Reglurnar leyfðu að slíkt mætti, en engin önnur leið var fær en forsetinn eða varaforseti hans.
Það sér hver maður að Trump vann kosningarnar vestra óvænt en með nokkrum yfirburðum. Var þó margt gert, af ýmsum öflum, til að setja fótinn fyrir hann. Það svívirðilegasta var að fráfarandi forseti hafði verið í nánu sambandi við dómsmálaráðuneyti sitt. Þar sat ráðuneytisstjórinn, enn rauður og þrútinn, þar sem Donald „gekk framhjá honum“ þegar embætti hæstaréttardómara var laust, en níu dómarar eiga þar jafnan sæti. Trump gekk blindandi framhjá Garland, frambjóðanda demókrata, sem taldi sig hæfasta frambjóðandann. Trump var ósammála. Biden þurfti ekki að kitla Garland lengi til að taka þátt í því, í nafni dómsmálaráðuneytisins, að efna til aragrúa skrítinna réttarhalda með „dómara“ víða um Bandaríkin með það „göfuga“ verkefni að finna eitthvað gruggugt í framgöngu Trumps. Best væri að gæta þess að málatilbúnaðurinn gegn Trump færi fram sem víðast um Bandaríkin og væri samhæfður svo að réttarhöldin væru víðast hvar, svo að Trump þyrfti að vera á ferð og flugi, þegar hann þyrfti að vera að sinna framboðsfundum á sama tíma. „Dómararnir“ virtust vel valdir og þeir kröfðust þess flestir að Trump sæti allan daginn inni í hinum fúlu réttarsölum og gæti því ekki sinnt baráttunni fyrir kosningar á meðan andstæðingarnir voru lausir og liðugir. En til að bæta gráu ofan á svart var Trump bannað, með hverri dómaraákvörðun af annarri, að tjá sig um það sem væri að gerast í dómsölunum. Þeir áttu að duga til að leggja Trump að velli, þótt Biden eða Harris væru ófær um slíkt í eðlilegri kosningabaráttu.
Fyrrnefndri valdaklíku demókrata varð ljóst að Biden og Harris réðu ekki við að taka á móti andstæðingnum án þess að fá „hjálp“, og það þótt sú væri handan við mörk hins leyfilega. Og hin leikrænu tilþrif, til að niðurlægja Donald Trump, svo að almenningur myndi eins og ósjálfrátt átta sig á, eins og „upp á eigin spýtur“, að það væri handan við öll mörk að kjósa þennan mann, bersýnilegan bersyndugan og hlaðinn glæpum sem á annan tug dómstóla var að taka föstum tökum hér og hvar um Bandaríkin. Og það var með ólíkindum hversu langt hlaupastrákar og -stúlkur á vegum ráðuneytisins voru tilbúin að ganga og virtust ekki setja sér nokkur bönd. Þannig var ákveðið að láta „hinn grunaða“ (fyrrverandi forseta), sem þaut á milli dómstóla um Bandaríkin þver og endilöng, fara í myndatöku og þeirri mynd yrði dreift víða til að eyðileggja frambjóðandann og rykti hans, sem var þegar kominn á gagnslaust flandur, sem gerði honum ómögulegt að sinna því sem brýnast var, að sækja væntanlega kjósendur heim. Jafnframt var ákveðið, til að fullkomna niðurlæginguna, að þá mynd skyldi taka í úr sér gengnu fangelsi, sem staðsett var verulega út úr, og þangað fluttu „fangann“ tugir lögreglubíla, til að sýna og sanna hversu ógurlegur þessi höfuðglæpakóngur landsins væri. Donald Trump var ýtt inn í þetta óhreina og niðurnídda fangelsi og myndin notuð til þess að sanna að grunaðir menn væru sennilega sekir.
Bílalest Trumps lagði í hann til baka og þá voru allt í einu komnar þúsundir manna, aðallega blökkumanna, sem hrópuðu sem svo: „Nú fara þeir með þig eins og þeir hafa lengi farið með okkur.“ Þetta var fyrsta merki þess að blökkumenn myndu í fyrsta sinn fylkja sér um Donald Trump í forsetakosningum, en ekki frambjóðanda demókrata, hvað sem hann héti, enda hafði lengi verið óþarft að láta nafn fylgja framboði sem var algjörlega „öruggt“. Nú loks ofbauð þessum kjósendum.
Það kom svo á daginn, að aldrei hafði jafnmikill fjöldi blökkumanna kosið frambjóðanda repúblikana eins og nú lá í loftinu. „Svona koma þeir fram við okkur, eins og þeir gera við þig núna,“ hrópaði fjöldinn og hyllti Trump þegar hann kom út úr fangelsinu þreytta, þar sem átti að niðurlægja hann enn. En Trump lét framleiða boli í milljónatali, með hina opinberu sakamynd hins opinbera sem var gerð til að niðurlægja frambjóðandann. Andstæðingar Trumps voru orðnir verulega hræddir og ákváðu að misnota hinar opinberu stofnanir til hins ýtrasta. En meira að segja smáatriðin urðu demókrötum erfið, og bolir Trumps, svo hallærislegir sem þeir voru, runnu út eins og heitar lummur. Þessir furðulegu og niðurlægjandi bolir réðu úrslitum, sögðu talsmenn blökkumanna, sem röðuðu sér meðfram þeim vegum, þar sem ekið var um með Trump, fyrrverandi forseta! Þá loks áttuðu yfirvöld demókrata og herforingjaráð dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna sig á því að snilli þeirra, og raunar taumlaus ósvífni, hefði snúist í höndum þeirra.
Ekki minnkar fartin
Á þeim fáu dögum sem liðnir eru frá því að Trump tók við forsetaembættinu á ný hefur verið mikil ferð á hinum nýja forseta. Hann hefur gefið út fjölmargar forsetatilskipanir. Joe Biden hafði ekki látið sitt eftir liggja, því að 15 mínútum áður en hann lét af embætti forseta náðaði hann bræður sína og vini, eins og hann hafði áður náðað son sinn, þrátt fyrir að hann hefði margítrekað að það myndi hann aldrei gera. Þá voru allmargir „náðaðir fram í tímann“ sem töldu að Trump kynni að hafa horn í síðu þeirra, og því væri öruggara ef Joe Biden myndi náða þá gegn hugsanlegum glæpum, sem þeir kynnu að fremja næsta áratuginn! Þetta er nokkuð sérkennileg aðferð í meðferð náðunarvaldsins, þótt ekki sé endilega svo að hún fái ekki staðist, því að þetta vald forsetans er mjög víðfeðmt. Einhver dómari hefur þegar úrskurðað að einhver náðun sem Trump gaf út standist ekki lög og er búist við því að það mál gangi fyrr eða síðar til æðri réttar, jafnvel Hæstaréttar Bandaríkjanna. Þessi þáttur gamanleiksins er því ekki búinn og gætu fleiri atriði lent í sömu hakkavél eða sambærilegri.
Trump hefur, allt frá því að blásið var til kosninga, sýnt ótrúlegt þrek og hefur haldið tugþúsunda manna fundi sama daginn. Hann varð fyrir skotárás, þar sem hann særðist. Það sár var óverulegt, þótt hann blóðgaðist nokkuð, en tilviljun er talin hafa bjargað honum, því að hann hreyfði höfuðið í rétta átt og særðist aðeins á eyra. Tveir fundarmanna særðust og einn þeirra lést þegar hann reyndi að skýla fjölskyldu sinni á pallinum þar sem Trump talaði. Það er flestra manna mál að öryggissveitir sem áttu að gæta frambjóðandans og fyrrverandi forseta voru lengi vel fremur veikar. En þær náðu að fella unga manninn sem reynt hafði að myrða Trump.
Trump er nokkuð við aldur en það sem skiptir meira máli er að hann sparar sig hvergi, sefur fáar stundir á sólarhring og afkastar mjög miklu. Á fjórum dögum eftir innsetningu hefur hann setið lengi með stóra hópa blaðamanna, sem hrópa á hann spurningar, sem hann hefur svarað í nærri tvo tíma. Blaðamaður einn sagði á leiðinni út: Trump er búinn að svara spurningum blaðamanna oftar á þessum fjórum dögum en Joe Biden gerði á tveimur árum eða lengur! Fullyrt er að hann taki á hverjum degi eins mörg símtöl eins og honum er unnt og nú síðast ræddi hann við fulltrúa í Davos í Sviss (sem hann hefur lítið álit á). Hann hefur sagt Bandaríkin frá WHO, Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hann hefur, eins og fleiri, lengi haft fyrirlitningu á. Hann hefur dregið Bandaríkin út úr „Global Warming“, sem hann lítur á sem hvert annað bjánatal, þótt búið sé að fá ríki heims til að henda stórkostlegum upphæðum út í buskann, og er enn mjög óljóst hvaða svindlarar hafa hrifsað allt þetta firna fé til sín. Það eina sem er víst er að almenningur fær ekki krónu. Trump hefur tilkynnt að Bandaríkin vilji ekkert hafa með Parísarsamkomulagið að gera, en það var ein aðferð við að stýra ótrúlegum fjármunum út í buskann.
Ísland dinglaði með í allri vitleysunni og hefur það kostað þjóðina ógrynni fjár, sem betur hefði farið í annað. En kjánarnir höfðu gleymt því að Ísland hafði verið með allt sitt á þurru í áratugi og því fráleitt að henda aragrúa fjár héðan yfir til sóðanna sem hafa verið með allt niðrum sig í áratugi. Síðasta ríkisstjórn asnaðist til að vera með sérstakan loftslagsráðherra, sem hefur ekkert verkefni annað en að ná peningum af almenningi og senda þá líka út í buskann, enda hálfri öld á eftir okkur.
Rúmar 240 milljónir, en einn „aðalráðherrann“ hafði gleypt þessar summur hráar í þrjú ár. Og augljóst er að „nýja ríkisstjórnin“ ætlar ekki að hlutast til um það sem tekið var ófrjálsri hendi. „Nýja“
ríkisstjórnin er þar með orðin „gamla, slitna
stjórnin“ og er ótrúlegt hversu hratt hún hrörnaði.
Mynd Hannesar Hafstein
Falleg mynd Árna Sæberg prýðir bréfið og Hannes prýðir myndina. Bráðungur maður yrkir hann:
Ef verð jeg að manni, og veiti það sá,
sem vald hefur tíða og þjóða,
að eitthvað jeg megni, sem lið má þjer ljá,
þótt lítið jeg hafi að bjóða,
þá legg jeg, að föngum, mitt líf við þitt mál,
hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.