Brids Margir af sterkustu spilurum heims verða í Hörpu í næstu viku.
Brids Margir af sterkustu spilurum heims verða í Hörpu í næstu viku. — Morgunblaðið/GSH
Núverandi heimsmeistarar í sveitakeppni í brids verða meðal keppenda á tveimur alþjóðlegum bridsmótum sem haldin verða Hörpu í Reykjavík í næstu viku. Mótið WBT Masters, sem er hluti af alþjóðlegri mótaröð, hefst í Hörpu á mánudag og lýkur með úrslitaleik á fimmtudag

Núverandi heimsmeistarar í sveitakeppni í brids verða meðal keppenda á tveimur alþjóðlegum bridsmótum sem haldin verða Hörpu í Reykjavík í næstu viku.

Mótið WBT Masters, sem er hluti af alþjóðlegri mótaröð, hefst í Hörpu á mánudag og lýkur með úrslitaleik á fimmtudag. Þar keppa 19 sveitir, þar af 15 erlendar og fjórar íslenskar.

Á fimmtudagskvöld hefst síðan árleg Bridshátíð í Hörpu og stendur fram á sunnudag. Þar eru skráð til leiks 135 pör og 87 sveitir en fyrst er keppt í tvímenningi og síðan í sveitakeppni.

Meðal þátttakenda bæði í WBT Masters og sveitakeppninni á Bridshátíð eru Hollendingarnir Sjoert Brink og Bas Drijver og Pólverjarnir Michał Klukowski og Jacek Kalita sem eru núverandi handhafar Bermúdaskálarinnar, raunar undir fána Sviss.

Einnig má nefna nokkra af sterkustu spilurum Bandaríkjanna, þá John Hurd, Vincent Demuy og Gavin Wolpert. Einnig mæta Danirnir Dennis Bilde og Martin Schalz til leiks, en þeir unnu bæði tvímenningskeppni og sveitakeppni Bridshátíðar á síðasta ári. Þá verða þau Sabine Auken og Roy Welland einnig í eldlínunni, en þau unnu sveitakeppnina í fyrra ásamt Dönunum.

Hægt verður að fylgjast með mótunum bæði í Hörpu og á netinu. Sýnt verður beint frá völdum viðureignum á vefnum bridgebase.com.