Sigurður Helgi Bergþórsson fæddist á Akureyri 12. september 1956. Hann varð bráðkvaddur 10. janúar 2025.
Foreldrar Sigurðar voru Bergþór Arngrímsson vélstjóri, f. 14. feb. 1925, d. 5. maí 2006, og Jónína Axelsdóttir, f. 13. ágúst 1930, d. 13. des. 2024.
Systkini Sigurðar eru: Magnea Guðrún, f. 24. okt. 1960, gift Jóni Magnússyni, f. 1959, og Þórhallur, f. 25. feb. 1963, kvæntur Ásdísi Rögnvaldsdóttur, f. 1968.
Sigurður kvæntist Hrafnhildi Eiríksdóttur, f. 28. feb. 1963, og átti með henni tvo syni. Þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Ingi Þór, f. 24. nóv. 1995, sambýliskona Bára Hensley Pétursdóttir, f. 22. júní 1995, börn þeirra eru Aþena Rós, f. 13. feb. 2021, og Arnar Kristinn, f. 12. sept. 2023; 2) Arnar Freyr, f. 3. ágúst 1999. Fyrir átti Hrafnhildur soninn Hauk Geir Jóhannsson, f. 1. feb. 1985.
Sigurður ólst upp á Akureyri og bjó þar alla tíð, utan þrjú ár þegar foreldrar hans bjuggu um skeið í Keflavík. Sigurður starfaði fyrstu árin við löndun hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, en fór síðar til sjós, fyrst á fiskiskipum, en vann síðan lengstan hluta sinnar starfsævi sem farmaður á fraktskipum hjá Eimskip. Þegar starfsævinni lauk var hann svo lánsamur að kynnast „Húnafélaginu“ sem er félagsskapur velunnara mótorbátsins Húna og eignaðist þar marga góða vini og kunningja.
Útför hans hefur farið fram í kyrrþey.
Elsku pabbi og tengdapabbi, þú fórst frá okkur allt of snemma. Við fjölskyldan erum brotin, en hlýjum okkur við minningarnar sem þú skildir eftir í hjörtum okkar. Þú varst svo einlægur, góðhjartaður og alltaf tilbúinn að gera allt fyrir þína nánustu.
Þrátt fyrir áfallið í fyrra sýndir þú ótrúlegan styrk. Þú varst alltaf úti að labba eða hjóla og mættir oft niður í Húna á morgnana. Við hlýjum okkur einnig við þá dýrmætu minningu að þú eyddir síðustu jólunum þínum með okkur. Fyrir það erum við svo innilega þakklát.
Við og krakkarnir söknum þín sárt. Við munum alltaf halda minningu þinni á lofti fyrir afabörnin þín. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og fyrir alla ástina sem þú gafst.
Hvíl í friði, elsku pabbi, tengdapabbi og afi.
Ingi Þór og Bára.
Ég vil minnast með nokkrum orðum Sigurðar Bergþórssonar mágs míns.
Snöggt varð fráfall hans, sem aðeins mánuði fyrr hafði með stórfjölskyldunni kvatt háaldraða móður sína.
Sigurður veiktist alvarlega fyrir tæpu ári, en smátt og smátt gengu veikindin til baka og hann virtist hafa náð sér til fulls og því varð fráfall hans mjög óvænt.
Synir hans höfðu báðir sýnt aðdáunarverðan styrk og staðið þétt við bakið á föður sínum í veikindunum. Þeim er vottuð dýpsta samúð á þessari erfiðu stundu.
Ég kynntist Sigurði þegar leiðir okkar Guðrúnar systur hans lágu saman.
Sigurður var traustur og greiðvikinn og gott að eiga hann að.
Hann var hirðusamur og vandvirkur. Það var til þess tekið hvað bílar hans voru vel bónaðir, jafnvel svo að það var notað sem meðmæli á bílasölum hér á Akureyri að Sigurður hefði átt bílinn sem var til sölu.
Þegar við Guðrún giftum okkur báðum við hann auðvitað að lána okkur bílinn sinn sem brúðarbíl og vera bílstjóri og var það auðsótt. Auk þess lánaði hann okkur góðfúslega íbúð sína undir mín skyldmenni sem streymdu að sunnan í brúðkaupið.
Sigurður var lengstan hluta sinnar starfsævi sjómaður hjá Eimskip. Sigurður heimsótti okkur oft á þessum árum þegar við bjuggum fyrir sunnan, sérstaklega þau ár sem við bjuggum við Kleppsveg skammt frá Sundahöfn. Þá gisti hann oft hjá okkur og færði okkur gjarnan ýmislegt sem hann hafði keypt erlendis.
Sigurður var umhyggjusamur faðir og fósturfaðir. Sigurður gat fundið til með öðru fólki sem átti um sárt að binda. Hann talaði yfirleitt vel um fólk og reyndi frekar að segja frá því jákvæða í fari manna.
Þegar hann lét af störfum eftir langan sjómennskuferil fór hann fljótlega að taka þátt í störfum „Húnafélagsins“ sem er hópur velunnara mótorbátsins Húna. Það var mikið lán fyrir hann að kynnast þessum fjölbreytta og skemmtilega hópi manna á hans reki. Eins voru þeir í Húnafélaginu heppnir að fá til liðs við sig duglegan og hirðusaman mann vanan sjómennsku.
Sigurður var duglegur og natinn að heimsækja móður sína meðan hún lifði.
Sigurður var svo lánsamur að eignast tvö dásamleg barnabörn sem komu eins og sólargeislar inn í líf hans.
Í dag skein sól á sundin blá
og seiddi þá,
er sæinn þrá
og skipið lagði landi frá.
Hvað mundi fremur farmann gleðja?
Það syrtir að, er sumir kveðja.
(Davíð Stefánsson)
Megi minningin um Sigurð Bergþórsson lifa í hjörtum allra þeirra sem honum kynntust.
Jón Magnússon.