
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Hafliði Kristinsson er máttarstólpi í samfélaginu í Urriðaholti sem með störfum sínum sem formaður íbúasamtaka hefur markað djúp spor í þróun og eflingu hverfisins. Þetta sagði Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, við athöfn í vikunni þegar útnefndur var „Garðbæingurinn okkar“. Þetta er í annað sinn sem bryddað er upp á slíku, það er að veita viðurkenningu til fólks sem hefur látið til sín taka í nærsamfélaginu og komið góðu til leiðar.
111 tilnefningar bárust
Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og alls bárust 111 slíkar. Yfirferð þeirra var í höndum dómnefndar og niðurstaða hennar var að Hafliði Kristinsson skyldi hljóta heiðurstitilinn sem er merktur árinu 2024. Þá var fjórum öðrum bæjarbúum veitt viðurkenning fyrir að setja sinn svip á brag í bæ.
Hafliði Kristinsson, sem býr í Urriðaholti, er formaður íbúasamtaka þess hverfis auk þess að vera fjölskylduráðgjafi. Almar bæjarstjóri segir sjálfboðastarf Hafliða vera mikilvægt, það er að fylgjast vel með því sem sé að gerast í hverfinu og koma skilaboðum um hvað betur megi fara til bæjaryfirvalda. Þannig fái brýn verkefni athygli.
Þau sem fengu viðurkenningu fyrir framlag sitt til samfélagsins í Garðabæ voru fjögur, sem fyrr segir. Þar skal fyrst nefnd Erla Jónsdóttir, vaktstjóri í Ásgarðslaug, sem sagt er að taki á móti öllum, leggi alúð í starf sitt og geri alla hluti 100 prósent, eins og sagt er.
Brosmild og lausnamiðuð
Önnur sem viðurkenningu fékk er Þórunn Birna Björgvinsdóttir, kirkjuvörður í Vídalínskirkju, fyrir mikilvæga þjónustu við bæjarbúa.
„Þórunn hefur verið ómetanlegur stuðningur á viðkvæmustu, gleðilegustu en líka erfiðum stundum í lífi fólks. Þórunn er brosmild, lausnamiðuð og passar að öll sem verða á hennar vegi labbi bæði södd og sæl frá henni,“ sagði dómnefnd.
Sá þriðji sem viðurkenningu fékk var Gunnar Hrafn Richardson, verkefnastjóri tækni- og tómstundamála hjá Garðabæ.
„Gunni er alltaf reiðubúinn að aðstoða aðra, hvort sem það er í verkahring hans eða ekki. Hann er svo sannarlega til þjónustu reiðubúinn. Hann er gegnheill maður sem hefur unnið traust og virðingu.“
Þá fékk Freyja Huginsdóttir, 15 ára, sem situr í ungmennaráði Garðabæjar, hvatningu sem ung manneskja sem hefur margt fram að færa. Hún hafi í félagsstörfum sínum svo sannarlega verið til fyrirmyndar og sé orðin leiðtogi.
„Freyja er jákvæð, réttsýn og sýnir mikinn karakter. Hún hefur einstakt lag á að snúa neikvæðu andrúmslofti í betri farveg og draga fram jákvæðni,“ sagði dómnefndin.
Þau sem skipuðu dómnefnd eru Birna Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ingimundur Orri Jóhannsson.