Garðabær Frá veitingu viðurkenninga. Frá vinstri: Margrét Bjarnadóttir forseti bæjarstjórnar, Þuríður Björg Guðnadóttir, sem tók við viðurkenningu fyrir hönd móður sinnar Þórunnar Birnu Björgvinsdóttur, Erla Jónsdóttir, Gunnar Hrafn Richardson, Hafliði Kristinsson, Freyja Huginsdóttir og Almar Guðmundsson bæjarstjóri.
Garðabær Frá veitingu viðurkenninga. Frá vinstri: Margrét Bjarnadóttir forseti bæjarstjórnar, Þuríður Björg Guðnadóttir, sem tók við viðurkenningu fyrir hönd móður sinnar Þórunnar Birnu Björgvinsdóttur, Erla Jónsdóttir, Gunnar Hrafn Richardson, Hafliði Kristinsson, Freyja Huginsdóttir og Almar Guðmundsson bæjarstjóri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hafliði Kristinsson er máttarstólpi í samfélaginu í Urriðaholti sem með störfum sínum sem formaður íbúasamtaka hefur markað djúp spor í þróun og eflingu hverfisins. Þetta sagði Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, við athöfn í vikunni þegar útnefndur var „Garðbæingurinn okkar“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hafliði Kristinsson er máttarstólpi í samfélaginu í Urriðaholti sem með störfum sínum sem formaður íbúasamtaka hefur markað djúp spor í þróun og eflingu hverfisins. Þetta sagði Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, við athöfn í vikunni þegar útnefndur var „Garðbæingurinn okkar“. Þetta er í annað sinn sem bryddað er upp á slíku, það er að veita viðurkenningu til fólks sem hefur látið til sín taka í nærsamfélaginu og komið góðu til leiðar.

111 tilnefningar bárust

Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og alls bárust 111 slíkar. Yfirferð þeirra var í höndum dómnefndar og niðurstaða hennar var að Hafliði Kristinsson skyldi hljóta heiðurstitilinn sem er merktur árinu 2024. Þá var fjórum öðrum bæjarbúum veitt viðurkenning fyrir að setja sinn svip á brag í bæ.

Hafliði Kristinsson, sem býr í Urriðaholti, er formaður íbúasamtaka þess hverfis auk þess að vera fjölskylduráðgjafi. Almar bæjarstjóri segir sjálfboðastarf Hafliða vera mikilvægt, það er að fylgjast vel með því sem sé að gerast í hverfinu og koma skilaboðum um hvað betur megi fara til bæjaryfirvalda. Þannig fái brýn verkefni athygli.

Þau sem fengu viðurkenningu fyrir framlag sitt til samfélagsins í Garðabæ voru fjögur, sem fyrr segir. Þar skal fyrst nefnd Erla Jónsdóttir, vaktstjóri í Ásgarðslaug, sem sagt er að taki á móti öllum, leggi alúð í starf sitt og geri alla hluti 100 prósent, eins og sagt er.

Brosmild og lausnamiðuð

Önnur sem viðurkenningu fékk er Þórunn Birna Björgvinsdóttir, kirkjuvörður í Vídalínskirkju, fyrir mikilvæga þjónustu við bæjarbúa.

„Þórunn hefur verið ómetanlegur stuðningur á viðkvæmustu, gleðilegustu en líka erfiðum stundum í lífi fólks. Þórunn er brosmild, lausnamiðuð og passar að öll sem verða á hennar vegi labbi bæði södd og sæl frá henni,“ sagði dómnefnd.

Sá þriðji sem viðurkenningu fékk var Gunnar Hrafn Richardson, verkefnastjóri tækni- og tómstundamála hjá Garðabæ.

„Gunni er alltaf reiðubúinn að aðstoða aðra, hvort sem það er í verkahring hans eða ekki. Hann er svo sannarlega til þjónustu reiðubúinn. Hann er gegnheill maður sem hefur unnið traust og virðingu.“

Þá fékk Freyja Huginsdóttir, 15 ára, sem situr í ungmennaráði Garðabæjar, hvatningu sem ung manneskja sem hefur margt fram að færa. Hún hafi í félagsstörfum sínum svo sannarlega verið til fyrirmyndar og sé orðin leiðtogi.

„Freyja er jákvæð, réttsýn og sýnir mikinn karakter. Hún hefur einstakt lag á að snúa neikvæðu andrúmslofti í betri farveg og draga fram jákvæðni,“ sagði dómnefndin.

Þau sem skipuðu dómnefnd eru Birna Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ingimundur Orri Jóhannsson.