Mjálmar, kötturinn hennar Ellenar Kristjánsdóttur, er sestur í fangið á blaðamanni um leið og við setjumst við eldhúsborðið. Ellen ber á borð te, smákökur og fulla skál af lakkrísbitum fyrir gestinn, sem seilist fulloft í nammið. Á meðan Mjálmar malar hástöfum spjöllum við Ellen um lífið og tilveruna. Hún segir frá lífi sínu af hlýju og einlægni og dregur ekkert undan.
Ný heimildarmynd um Ellen, Ég verð aldrei önnur en ég er, verður frumsýnd á RÚV í kvöld, sunnudag. Þar er fylgst með Ellen fara í ferðalag á æskuslóðir í Bandaríkjunum og rifja upp það liðna. Ferðin er eins konar vegferð aftur í tímann og vekur upp gamlar minningar og alls konar tilfinningar. Við ræðum myndina en spjallið leiðir okkur um víðan völl. Ellen ræðir um sjálfsvíg og vill að umræðan opnist enn frekar, enda mikilvægt að grípa veika einstaklinga áður en þeir taka til slíkra örþrifaráða. Sjálf þekkir hún vel sorgina og skömmina sem fylgir sjálfsvígum, en faðir hennar fyrirfór sér þegar hún var unglingur.
Enn einu sinni standa Ellen og fjölskyldan frammi fyrir sorginni því nýlega lést náinn vinur, raftónlistarmaðurinn Árni Grétar Jóhannesson, þekktur undir nafninu Futuregrapher. Árni, sem var barnsfaðir dóttur hennar og einn af fjölskyldunni, féll fyrir eigin hendi nú fyrir örfáum vikum. Ellen heldur þétt utan um dóttur og barnabarn nú á erfiðum tímum, sem og aðra fjölskyldumeðlimi. Andlát Árna var reiðarslag.
„Mér datt þetta aldrei í hug. Við vorum nánast í daglegum samskiptum og hann kom hér oft með syni sínum. Hann skildi eftir sig tvo stráka, sextán og sex ára. Hann var alveg ótrúlega góður pabbi.“
Sprengjusveit tók dúkkuna
Ellen er fædd í San Francisco árið 1959, yngst fimm systkina. Hún bjó í Bandaríkjunum í tæp sjö ár en þá flutti fjölskyldan heim til Íslands.
„Systir mín varð eftir úti, þá tvítug og trúlofuð,“ segir Ellen og segist muna nokkuð vel eftir æskunni í Kaliforníu, en einnig dvaldi hún þar í heilt ár þegar hún var átján ára og bjó þá hjá Inger systur sinni.
„Hún vann þá hjá tölvufyrirtæki og ég var í söng- og gítarnámi,“ segir hún.
„Árið 1992, þegar Inger var komin í draumastarfið sem skrifta í bíómynd, lést hún í bílslysi 47 ára gömul. Hún skildi eftir sig tvö uppkomin börn. Við vorum mjög nánar og líka hún og mamma, sem fór árlega út til hennar. Þetta var hrikalegt. Við Kristján þurftum að segja mömmu frá þessu. Við flugum svo öll út í jarðarförina, en einn bróðir minn, Einar, býr alltaf úti. Þau voru næst í aldri og mjög náin,“ segir hún.
Ellen segist gjarnan hafa notað tónlist til þess að vinna úr sorginni. Eftir að móðir hennar lést gaf hún út plötuna Sálmar; plata sem sló í gegn, og eftir að systir hennar dó kom út lagið When I Think of Angels sem nánast hvert íslenskt mannsbarn þekkir.
„Kristján samdi lagið og ég söng. Þetta lag hefur gefið okkur svo mikið. Ég hef sungið það svo víða, til dæmis í mörgum jarðarförum. Ég fæ aldrei leið á að syngja það og er einmitt að fara að syngja það með Kristjáni og Sinfó í Eldborg bráðum.“
Í heimildarmyndinni, sem leikstýrt er af Önnu Dís Ólafsdóttur, segir Ellen meðal annars frá foreldrum sínum, sem í raun lifðu ameríska drauminn. Seinni heimsstyrjöldinni var nýlokið þegar unga parið, Kristján Ingi Einarsson og Sigríður Ágústa Söebech, flutti út með frumburðinn Inger til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem Kristján fór í nám. Síðar fluttu þau til Kaliforníu og börnin bættust við eitt af öðru en fyrstu árin bjuggu þau með lítil börn í húsbílagarði. Faðir Ellenar var þá orðinn byggingartæknifræðingur og fljótlega fór hann út í húsbyggingar. Foreldrar Ellenar voru bæði listræn; móðir hennar skrifaði mikið og faðir hennar bjó til bæði skúlptúra og málverk.
„Við vorum fátæk, sem maður gerði sér ekki grein fyrir. Mömmu fannst bestu árin með pabba hafa verið í húsbílagarðinum, en þá var hann edrú. Hún lýsti því hvernig hún þurfti að sjóða vatn til að hella á rörin í frosti svo að þau fengju vatn í húsbílinn. Mamma þvoði þvottinn í höndunum.“
Fjölskyldan flutti frá Minnesota til San José og þar byggði faðir hennar hús handa fjölskyldunni. Áður en varði hafði hann byggt heilt hverfi og peningarnir streymdu inn.
„En skatturinn bankaði upp á og við misstum allt. Við misstum húsið og fluttum þá til Santa Cruz, sem er lítill strandbær, og þar byrjaði ég í skóla. Ég man vel eftir þessu tímabili, en pabbi var alltaf að safna þarna steinum til að nota í listaverk. En svo fór hann til Víetnam í stríðinu til að vinna við flugvöll, ekki sem hermaður, heldur verkfræðingur. Eitt sinn sendi hann mér víetnamska dúkku. En þá kom sprengjusveit heim til okkar og tók dúkkuna því það hafði borið á því að sprengjur væru sendar til Bandaríkjanna í dúkkum og alla vega tvær dúkkur höfðu sprungið. Þeir tóku dúkkuna og þetta voru mikil vonbrigði fyrir mig því þetta var svo flott dúkka,“ segir Ellen og brosir.
Kallaði okkur Kanapakk
Faðir Ellenar sendi fjölskyldunni peninga í einhverja mánuði en síðan heyrðist ekkert í honum.
„Hann týndist bara; við heyrðum ekki í honum. Það veit enginn alveg hvað gerðist en ég held að hann hafi farið yfir um eftir að hafa horft upp á hrylling stríðsins,“ segir Ellen og bendir á að tekið hafi verið viðtal við hann á sínum tíma um veru sína í Víetnam. Blaðamaður fann viðtalið, sem birtist í Alþýðublaðinu 24. ágúst 1966, en þar lýsir hann hörmungum stríðsins eins og þær blöstu við honum. Með greininni er mynd af honum með yngstu börnunum, Kristjáni og Ellen.
„Hann var mikill alkóhólisti og var þegar orðinn það þegar hann missti allt. Við ólumst því upp í alkóhólisma sem þróaðist meira og meira,“ segir Ellen, en móðir hennar dreif sig heim með börnin þegar ekkert heyrðist í eiginmanninum og engir peningar bárust frá Víetnam.
„Við fluttum í blokk í Keflavík og þar var ekki komið vel fram við okkur. Við höfðum komið með fullt af dóti frá Ameríku og ein kona sparkaði í hjólið mitt og kallaði okkur Kanapakk. Ég talaði ekki orð í íslensku; ekkert okkar krakkanna. Það var bara þannig tíðarandi að íslensku var ekki haldið að okkur í Ameríku,“ segir hún.
„Ég man að það fyrsta sem ég lærði að segja var „amma give me gott“ en það hafði verið Mackintosh’s-dolla hátt uppi á hillu og amma gaf mér nammi úr henni,“ segir Ellen og brosir að minningunni.
Ári síðar flutti fjölskyldan heim til afa Ellenar, þar sem þau bjuggu einhverja mánuði. Þá kom faðir hennar frá Víetnam og foreldrarnir tóku aftur saman.
„Hann hélt sýningar og mamma hélt sýningu á Mokka, en þetta var rosalegt, enda mikil drykkja á honum. Elsku pabbi, hann fór aldrei í meðferð og við vorum í miklu basli,“ segir hún og bætir við að mamma hennar hafi verið yndisleg móðir.
Rafmagnsleysi um jól
Þegar Ellen var níu ára skildu foreldrar hennar og faðir hennar flutti aftur til Bandaríkjanna.
„Þá var mamma algjörlega ein, með ekki neitt. Þetta voru erfiðustu árin og hún fór í mjög mikið þunglyndi. Við fluttum þá á Þórsgötu í leiguíbúð og við yngstu krakkarnir fórum í Austurbæjarskóla en Einar var farinn út með pabba og lifðu þeir þar hippalífi. Pabbi var samt í sambandi og sendi okkur bréf og pakka. Hann var góður maður en mjög veikur,“ segir hún.
„Mamma var aðeins skinn og bein og ég man að fyrstu jólin þarna voru varla nein jól. Það var ekki einu sinni rafmagn. Ég man að einn vinur mömmu borgaði rafmagnsreikninginn og kom svo á jóladag og gaf okkur krökkunum pakka. Í honum voru pennar og pennastatíf úr marmara sem hann hefur örugglega tekið af einhverri skrifstofu,“ segir hún og brosir.
„Mér fannst þetta æðisleg gjöf.“
Enn flutti fjölskyldan og nú í óhrjálega íbúð á Frakkastíg.
„Þar lak allt og voru silfurskottur. Við þvoðum þvottinn í baðkarinu alveg þar til að einn dag þegar ég var þrettán ára beið fyrir utan Candy-þvottavél með slaufu. Pétur bróðir minn sem þá var tvítugur hafði keypt hana,“ segir Ellen.
Stal gítarnum hans Kristjáns
Á þessum tíma kviknaði áhugi Ellenar á tónlist fyrir alvöru.
„Ég hlustaði mikið á Kanaútvarpið og Lög unga fólksins. Þegar ég fermdist fékk ég pening og keypti mér plötuspilara og lifði fyrir það að kaupa mér plötur. Bróðir minn Kristján var þá byrjaður að læra á gítar og var mjög flinkur og hann og Pétur bróðir voru alltaf að hlusta á tónlist og smituðu mig. Ég var þrettán ára þegar ég byrjaði að læra á gítar og varð heilluð. Ég tók gítarinn hans Kristjáns; hann veit kannski ekki enn af því en það upplýsist hér með,“ segir Ellen og hlær.
„Ég byrjaði að læra á klassískan gítar og fór svo í hljómsveit. Það var ekkert í boði að halda áfram námi eftir grunnskóla, en ég hafði verið send einn vetur í heimavistarskóla, til Reykjaness í Ísafjarðardjúpi,“ segir hún.
„Þar kynntist ég stúlku sem hét Kristín Ólafsdóttir og við vorum saman í herbergi. Og hún var mamma hans,“ segir Ellen og bendir á ljósmynd af Árna heitnum. Svona er Ísland lítið og tilviljanir skrítnar.
„Árni og systkini hans misstu báða foreldra sína mjög ung á Tálknafirði; pabbi þeirra dó af slysförum en Kristín fékk heilablóðfall. Árni náði sér í raun aldrei og bjó yfir djúpri sorg. Hann var dásamlegur maður og elskaður um allan heim. Hann lifði fyrir strákana sína. Ég mun alltaf sakna hans.“
Áfall að uppgötva ofbeldið
„Við getum talað um þetta í dag því ég missti pabba minn svona þegar ég var sautján, en hann fyrirfór sér í Bandaríkjunum,“ segir Ellen.
„Í Bandaríkjunum var hann að drekka en var alltaf í einhverri vinnu. Hann og systir mín voru mjög tengd og ég fór út til hans þegar ég var þrettán og við áttum góða tíma. Ég fór svo aftur árið sem hann dó, hálfu ári síðar, og var hjá systur minni sem átti svo erfitt,“ segir hún.
„Pabbi gafst bara upp. Hann bjó í tveggja klukkutíma fjarlægð frá systur minni og hringdi oft í hana og hótaði að fyrirfara sér. Hún fór þá alltaf til hans en fór ekki í þetta sinn. Þetta var mjög erfitt fyrir hana, en hún var dugleg í sjálfsvinnu síðustu árin áður en hún dó. Sjálf var hún gift ofbeldismanni og lenti nokkrum sinnum inni á spítala,“ segir hún.
„Það var algjört áfall fyrir mig og mömmu þegar við sáum ofbeldið, en hann lagði hendur á hana fyrir framan okkur. Þarna var stöðugt andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þau skildu svo loksins um átta árum áður en hún lést,“ segir hún og segist stöðugt hafa reynt að fá systur sína til að fara frá honum.
„Ég var svo ung, bara nítján, þegar ég var hjá henni þetta ár. Ég var reið við systur mína að fara ekki frá honum, því ég skildi þetta ekki. Ég hafði ætlað að vera lengur úti í námi en gafst upp vegna ástandsins og fór heim. Þetta var sjarmerandi maður og laglegur en varð alveg óður þegar hann drakk. Þegar hann lá á dánarbeði fékk ég skilaboð frá honum þar sem hann vildi biðjast afsökunar.“
Ástin var fyrst leyndarmál
Ellen kom heim þetta haust, sólbrún eftir Kaliforníusólina og með amerískan hreim.
„Vinkonur mínar gerðu grín að mér. Ég fór þá í hljómsveitina Tívolí, en hafði sungið með henni áður en ég fór út. Svo fréttist það að í bæinn væri komin ný söngkona og Mannakorn hafði samband og ég söng með þeim og Ljósunum í bænum. Þarna byrjaði ég í klassísku söngnámi í Söngskóla Reykjavíkur og þaðan fór ég í djassnám í FÍH,“ segir hún og segir mikinn djassáhuga hafi þá verið í bænum. Eiginmaður Ellenar, Eyþór Gunnarsson, tónlistarmaður og meðlimur Mezzoforte, kom inn í líf hennar um þetta leyti.
„Ég kynntist Eyþóri í Ljósunum í bænum en við höfðum þekkst síðan í Tívolí,“ segir Ellen.
„Fyrst þegar við kynntumst vorum við bara sautján og nítján en hann var svo ungur og við bara vinir. Við fórum svo að draga okkur saman ári síðar en það var fyrst leyndarmál því við vorum öll vinir í bandinu. En svo fórum við að búa saman þegar hann var tvítugur og ég tuttugu og tveggja og síðan komu fjögur börn,“ segir hún og brosir.
Ellen hefur alla tíð síðan unnið við tónlist og gefið út fjölmargar plötur og lög.
„Ég var poppstjarna á tímabili og fór svo að eignast börnin. Við fluttum til Englands en Mezzoforte var þá að túra um allan heim og er enn að. Það var svo dýrt að búa í London að ég flutti heim og fór þá að syngja með Magga Kjartans á Hótel Sögu en þeir héldu áfram að túra,“ segir hún og nefnir að hún hafi einmitt farið með hljómsveitinni í tónleikaferðir í fyrra.
„Ég hafði alltaf unnið eitthvað með og um stund var ég að kenna tónlist í leik- og grunnskóla. Árið 2004 gerði ég sálmadiskinn,“ segir Ellen, en á honum er úrval íslenskra sálma.
„Ég hef haft svo mikið að gera síðan þá! Þetta var eins konar „comeback“ því ég hafði þá alið upp fjögur börn, þó að ég hafi samt alltaf verið að syngja og gefa út lög. Ég var svo heppin að ég hafði Borgardætur, KK, Mannakorn, okkur Eyþór og svo gerum við þessa sálmaplötu sem var mest selda platan 2004 og varð verðlaunaplata. Ég er einmitt núna að fara að halda sálmatónleika í apríl, en þetta var uppáhaldsplatan hans Árna. Hann spilaði hana á hverju kvöldi fyrir strákana sína,“ segir hún.
„Ég er að gefa út lag núna sem heitir Engin önnur en ég er, en það er lag eftir mig og Eyþór og texti eftir Braga Valdimar. Ég er alltaf að semja ný og ný lög og á auðvelt með það.“
Öll börnin í tónlist
Ferill Ellenar spannar nú yfir fjörutíu ár og segist hún ekki hafa viljað hafa það neitt öðruvísi.
„Ég er alltaf að segja að ég geti ekki meir, að ég geti ekki sungið í fleiri jarðarförum. En svo verð ég alltaf svo þakklát að vera treyst fyrir því. Mér þykir svo vænt um það, og eins þegar ég syng í brúðkaupum og afmælum. Borgardætur voru búnar að vera í sjö ára hléi þegar við fylltum Norðurljósasalinn tvisvar. Ég er þakklát að hafa unnið með Kristjáni og Mannakornum. Við Kristján tókum hlé í covid eftir fimmtán ár að syngja saman, en sungum reyndar saman nú fyrir jólin,“ segir Ellen.
Fleiri en Ellen, bróðir og eiginmaður eru í tónlistinni; öll fjögur börnin hafa fetað í fótspor foreldrana. Dæturnar Sigríður, Elísabet og Elín, eða Sigga, Beta og Elín, eru þjóðinni kunnar eftir að hafa farið í Eurovision árið 2022 undir nafninu Systur með lagið Með hækkandi sól. Sonurinn Eyþór Ingi fylgdi systrum sínum út og spilaði með þeim á sviðinu á trommur.
Ellen var að vonum stolt af börnum sínum þegar ljóst var að þau færu í Eurovision fyrir Íslands hönd. Hún ætlaði út til Ítalíu að horfa á en endaði á að vera heima.
„Tengdadóttir mín var ófrísk og mamma hennar svo veik, en hún dó fyrir ári úr krabbameini aðeins 56 ára. Ég hafði pantað miða en hætti við en pantaði svo aftur. En svo gat ég ekki hugsað mér að fara vegna hennar og hætti aftur við. Við leigðum sal og héldum Eurovision-partí og það var svo gaman, sérstaklega þegar þau komust áfram. Ég var auðvitað spæld að vera ekki á staðnum en vissi að þetta væri rétt ákvörðun,“ segir hún.
„Elsku börnin mín. Það var aldrei nein pressa að þau færu í tónlist en þau lærðu á píanó og voru síðar í hljómsveitum. Dæturnar eru allar að syngja og semja í dag og eru dásamlegar. Eyþór Ingi er líka í tónlist og vinnur í Tónastöðinni, en við vorum einmitt að gera saman lag sem við gefum bráðum út, kannski næst þegar gýs því það er um eldgos,“ segir hún og brosir.
„Þau eru á góðum stað í lífinu þó að við séum öll í sorginni núna.“
Ég fékk bara reiðikast
Talið víkur aftur að heimildarmyndinni, en á þeirri vegferð fór Ellen að skoða æskuheimili og leita að leiði föður síns. Ferðin ýfði upp erfiðar minningar.
„Þetta var mikil nostalgía og ég hafði kviðið mikið fyrir þessu. Leiðið hans pabba var týnt en við fundum það. Árið eftir að hann dó, þegar ég var úti, treysti Inger sér aldrei að leiðinu, en hafði merkt gröfina,“ segir Ellen og segir dásamlegt að geta sett loksins stein á leiðið.
„Það var svo eftir að ég kom heim að ég fór að hugsa meira um pabba og fór að pæla í því af hverju hlutirnir hefðu farið eins og þeir fóru. Allt þetta ástand. Ég hafði alltaf verið fyrirgefandi og var ekki mikið að hugsa um af hverju hann fyrirfór sér. Ég hafði alltaf logið að hann hefði dáið úr hjartaslagi. Ég sagði ekki börnunum frá því fyrr en Sigga var orðin tvítug. Þetta kom fram í bók sem Kristján bróðir skrifaði og ég varð brjáluð. Ekki út í hann samt heldur út í eitthvað. En við höfðum aldrei talað neitt um þetta; það voru aðrir tímar og þetta var mikil skömm. Ég vildi ekki láta vorkenna mér og skammaðist mín fyrir þetta. Ég hafði ýtt þessu í burtu. Við gerð myndarinnar ýfðust sem betur fer upp alls konar tilfinningar.“
Varstu þá reið út í pabba þinn?
„Rosalega reið. Ég fór þá að fara til sálfræðings í fyrsta sinn, sem er gott,“ segir hún og vill endilega að talað sé opinskátt um sjálfsvíg.
„Ég er í raun löngu búin að fyrirgefa pabba mínum en fékk bara reiðikast. Ég held að allt mitt líf hafi ég harkað af mér. Grunnurinn í mér er ansi brotinn og kannski verður þessi mynd til þess að hjálpa öðrum. Barnabarn mitt sem var að missa pabba sinn er nú jafngamalt og ég var þegar ég missti pabba minn. Það þarf að tala um þetta, alveg eins og talað er um krabbamein. Það þarf bæði að tala um alkóhólisma og sjálfsvíg.“
Ellen segir ekkert út á heilbrigðisstarfsfólk að setja heldur sé margt í kerfinu sem mætti laga til að grípa þessa ungu menn áður en þeir svipta sig lífi. Árni, sem keyrði bíl sinn í sjóinn á gamlársdag, lá í öndunarvél í nokkra daga. Þrátt fyrir að allt hafi verið gert til þess að bjarga lífi hans var ekki við neitt ráðið og hann lést 4. janúar.
„Fólkið sem vinnur á gjörgæslunni er englar. Það reyndu allir allt að ná honum til baka; lögregla, kafarar, læknar og hjúkrunarfólk. En við fengum að kveðja hann, sem var gott fyrir strákana hans og fjölskylduna alla.“