Úr bæjarlífinu
Hermann N. Gunnarsson
Suðurnesjum
Að venju er ýmislegt um að vera í Reykjanesbæ og ekki síst í íþróttalífinu. Fyrr í mánuðinum fór fram flott athöfn í Hljómahöll þar sem kynnt var árlegt val á íþróttafólki ársins í Reykjanesbæ. Körfuboltakonan Thelma Dís Ágústsdóttir og sundmaðurinn Guðmundur Leo Rafnsson voru valin íþróttafólk ársins. Thelmu þarf vart að kynna fyrir þeim sem eru kunnugir körfuboltaheiminum en hún er hokin af reynslu bæði innanlands og erlendis.
Á árinu varð hún deildar-, bikar- og Íslandsmeistari með Keflavík og var valin í úrvalslið deildarinnar. Þá var hún einnig valin körfuknattleikskona ársins 2024. Geri aðrir betur! Guðjón er einn fremsti sundkappi landsins og setti þrjú ný Íslandsmet á árinu. Þar að auki vann hann fjölda verðlauna á alþjóðlegum mótum sem og hér á landi. Við óskum þeim til hamingju með viðurkenninguna.
Rúnar Arnarson, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar, segir í samtali við Morgunblaðið að athöfnin hafi verið glæsileg.
„Að lokum voru valin íþróttamaður og íþróttakona ársins við mikinn fögnuð gesta sem fylltu Hljómahöllina. Við getum verið stolt af okkar glæsilega íþróttafólki í Reykjanesbæ,“ segir Rúnar.
En úr einu í annað. Málefni Hljómahallar eru aftur á milli tannanna á fólki. Eins og vakti athygli á síðasta ári samþykkti meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að flytja bókasafn bæjarins í Hljómahöllina. Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu Reykjanesbæjar að bókasafnið verði opnað í Hljómahöllinni í byrjun apríl. Mun það deila húsnæði með Rokksafni Íslands, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og öðru viðburðahaldi.
„Það verður mjög gaman að sjá hvernig mun takast til þegar horft er til sambúðarinnar við t.a.m. tónlistarskólann. Ungmennadeildin mun t.d. flæða inn á biðsvæði nemenda tónlistarskólans sem við vonumst til að spili vel saman þar sem nemendur geta gluggað í bækur þegar beðið er eftir því að fara inn í tíma,“ er haft eftir Guðnýju Kristínu Bjarnadóttur, starfandi forstöðumanni bókasafnsins. Hins vegar hafa kennarar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar gefið frá sér yfirlýsingu sem finna má á vef Víkurfrétta þar sem þeir hvetja bæjarstjórn til að endurskoða afstöðu sína. Fram kemur að tónlistarskólinn verði af kennslustofu, tveimur stofum sem ætlaðar eru sem æfingastofur nemenda, nótnabókasafni skólans og vinnustofu hljómsveitarstjóra. Þá segir að ekki sé enn komið í ljós hvernig málum varðandi almenna vinnustofu kennara verði háttað.
„Sé þetta endanlega niðurstaðan, missa tónlistarkennarar öll vinnurými sín í skólanum,“ segir í tilkynningunni.
Þau jákvæðu tíðindi bárust frá Vogum að ný heilsugæsla hefði verið opnuð um miðjan mánuð við Iðndal 2. Heilsugæsla hafði verið í sveitarfélaginu frá 1999 en seinna meir breyttist þjónustan á þann veg að heilsugæslulæknir var með aðstöðu í Álfagerði. Sú þjónusta lagðist svo af í covid.
„Íbúar hafa kallað eftir því að geta sótt heilsugæsluþjónustu í bænum frá því að hún lagðist endanlega af í kringum covid. Það að heilsugæslan sé nú í bænum minnkar skutl hjá íbúum sem vinna utan sveitarfélagsins og eiga börn, þegar sækja þarf heilsugæsluþjónustu fyrir börnin, svo dæmi sé tekið,“ segir Guðrún P. Ólafsdóttir bæjarstjóri Voga í samtali við Morgunblaðið.
Akademíureiturinn, sem er lóðin við Sunnubraut 35, er í mikilli þróun. Stefnt er að því að auka byggingarmagn úr 20.000 fermetrum í allt að 54.600 fermetra og búið er að gera nýja samninga og skipulagsbreytingar til að vinna að því. Á reitnum verður lögð áhersla á íbúðir fyrir eldri borgara og verslun og þjónustu. Þar að auki er áætlað að byggja þar allt að 120 íbúðir. Stýrihópur hefur verið stofnaður til að leiða verkefnið og vinnan við næstu skref er þegar hafin.
Þorrinn er genginn í garð og hann er haldinn hátíðlegur í Reykjanesbæ. Um síðustu helgi varð varla þverfótað fyrir Keflvíkingum í Blue-höllinni sem gerðu sér glaðan dag á hinu árlega þorrablóti Keflavíkur. Um 800 manns mættu á blótið.
„Þarna vilja allir sannir Keflvíkingar vera og því miður komast færri að en vilja,“ segir Ingvar Georg Georgsson í samtali við Morgunblaðið.
Ingvar hefur setið í þorrablótsnefndinni síðustu tíu ár en þetta var síðasta blótið sem hann tekur þátt í að skipuleggja að sinni.
1. febrúar munu Njarðvíkingar sýna hvað í þeim býr í nýju Icemar-höllinni þegar þeir halda sitt þorrablót.
„Þetta verður rosalegt,“ segir á heimasíðu Njarðvíkinga um þorrablótið sem er fram undan.
Um er að ræða fyrsta skipti sem blótið er haldið í Icemar-höllinni en áður var það haldið á gamla heimavellinum, Ljónagryfjunni.