Eftir því sem leikjum íslenska karlalandsliðsins í handbolta hefur fjölgað á HM í Króatíu hefur stuðningsmönnum Íslands fjölgað einnig. Í riðlakeppninni voru 200-300 áhorfendur vel merktir íslensku landsliðstreyjunni en nú þegar milliriðillinn er kominn á skrið er talið að um 1.000 Íslendingar séu mættir til Zagreb í Króatíu. Það munar um þann stuðning, okkar áttundi maður við sjö leikmenn liðsins inni á vellinum.
Sérsveitin svonefnda, stuðningsmannasveit Íslands, hefur farið fremst í flokki á pöllunum og staðið fyrir upphitunardagskrá fyrir leikina. Þannig var mikil stemning síðdegis í gær, fyrir leikinn gegn heimamönnum, Króötum, þó leikurinn hafi ekki spilast vel fyrir íslenska liðið.
Margir stuðningsmenn hafa verið stríðsmálaðir í framan, á handleggjum og fótleggjum. Sumir hafa gengið lengra, eins og Herdís Rútsdóttir fyrir leikinn gegn Slóveníu í byrjun vikunnar. Hún fór til Zagreb komin nokkra mánuði á leið og lét mála stórt hjarta í fánalitunum á bumbuna, eins og ein meðfylgjandi mynd ber með sér. „Þetta er búið að vera æðislegt. Þetta er geggjuð upplifun og sérstaklega gaman að Sérsveitin sé komin með enn meiri stemningu. Þetta er ógeðslega gaman,“ sagði Herdís kát í samtali við mbl.is. Herdís hefur verið ásamt fjölskyldunni að fylgjast með mótinu en móðir hennar, Guðbjörg Albertsdóttir, fékk ferð á HM í óvænta 60 ára afmælisgjöf.
Eftir úrslit leiksins í gærkvöldi er ljóst að vonin er veik að Ísland komist áfram í átta liða úrslit mótsins, þar sem liðið tapaði með meira en fjórum mörkum. Fjöldi Íslendinga er þó enn úti í Zagreb og mun hvetja strákana okkar áfram gegn Argentínu.