Breska leikkonan Joan Plowright lést nýlega 95 ára gömul. Ferill hennar spannaði sex áratugi og hún hlaut fjölmargar viðurkenningar á ferlinum, þar á meðal Golden Globe-verðlaun og Tony-verðlaun. Hún var afar virt sviðsleikkona en lék einnig í kvikmyndum og sjónvarpi og var fagmaður fram í fingurgóma. „Það að leika er mér jafn lífsnauðsynlegt og að anda,“ sagði hún eitt sinn.
Hún fæddist árið 1929. Faðir hennar var ritstjóri og móðir hennar áhugaleikkona. Hjónabandið var vægast samt stormasamt, hjónin hnakkrifust og hentu hlutum hvort í annað og síðan tók við ísköld þögn þar til þau sættust.
Þegar Plowright sagði móður sinni ung að aldri að hún vildi verða leikkona sagði móðir hennar: „Þú ert ekkert olíumálverk en þú hefur neista og guði sé lof fyrir að þú hefur fótleggina mína en ekki föður þíns.“
Hún vann 15 ára gömul verðlaun á leiklistarhátíð, fór í leiklistarskóla og fékk sviðshlutverk. Umboðsmaður hennar sagði henni að nafn hennar Plowright minnti á starfsgrein og hljómaði eins og plógur og landbúnaður. Hann vildi að hún skipti um nafn. „Hann stakk upp á einhverju sem hljómaði eins og Desiree Day,“ sagði Plowright seinna. Hún aftók með öllu að skipta um nafn en skipti hins vegar um umboðsmann.
Hún varð fljótlega ein mest áberandi sviðleikskona Breta af yngri kynslóð og vakti athygli fyrir leik sinn í breskum eftirstríðsáraleikritum þar sem oft var fjallað um líf og vonbrigði alþýðufólks. Árið 1960 lék hún í leikritinu A Taste of Honey og kyssti þar svartan karlmann á sviði. Á þeim tíma þótti það djarft og var umdeilt.
Hún giftist leikaranum Roger Gage en brestir komu í hjónabandið þegar hún lék á sviði á móti goðsögninni Laurence Olivier í leikritinu The Entertainer eftir John Osborne og þau léku einnig í kvikmynd sem gerð var eftir leikritinu. Olivier var rúmum tuttugu árum eldri en hún.
Maður með snilligáfu
Olivier var kvæntur leikkonunni Vivien Leigh, sem hlaut heimsfrægð fyrir túlkun sína á Scarlett O‘Hara í stórmyndinni Á hverfanda hveli. Hjónabandið hafði verið afar ástríðufullt og hjónin höfðu leikið saman í kvikmyndum og á sviði. Leigh hafði lengi glímt við andleg veikindi sem versnuðu með hverju ári og höfðu að lokum gert hjónabandið að martröð fyrir Olivier og hann leitaði að útgönguleið.
„Hann sagði mér að hann stæði á krossgötum, lífið væri orðið skelfilegt og hann yrði að losna. Hann vildi fjölskyldulíf, innihaldsríkt líf,“ sagði Plowright. Þau skildu við maka sína og eignuðust saman þrjú börn, tvær dætur og son, sem öll hafa unnið við leikhús. Barneignir gerðu að verkum að Plowright varð að taka sér hlé frá leik og hún sagði sjálf að hún hefði misst af bitastæðum hlutverkum fyrir vikið.
Olivier hafði einungis verið kvæntur Plowright í ár þegar hann fann sér ástkonu. Sú var leikkonan Sarah Miles sem þá var átján ára en Olivier var 53 ára. Því sambandi lauk þegar Miles kynntist handritahöfundinum Robert Bolt sem varð eiginmaður hennar.
Gegnum hjónaband sitt varð Plowright mjög tengd vinnu eiginmanns síns við Breska þjóðleikhúsið. Þau léku mikið saman á sviði en hún var einnig ráðgjafi manns síns og studdi hann og ráðlagði honum að ráða hinn þekkta og harðskeytta gagnrýnanda Kenneth Tynan sem listrænan ráðgjafa leikhússins en hann hafði átt til að gagnrýna Olivier harðlega.
Árið 2006, í einu af þeim fáu viðtölum sem Plowright veitti á ferlinum, sagði hún að eiginmaður sinn hefði verið maður með snilligáfu en bætti við að slíkir menn glímdu einnig við sína djöfla. „Hann barðist við að sigra þessa djöfla og stundum tókst það og stundum ekki. Maður með snilligáfu er ekki venjuleg manneskja. Hann lifir ekki venjulegu lífi,“ sagði hún.
Olivier var sjálfhverfur og fullur af keppnisskapi. Hann var ekki besti eiginmaður sem hægt var að eignast. Einn daginn þar sem hjónin sátu við morgunverðarborðið opnaði Plowright umslag sem hún hafði fengið í pósti og þar var beiðni frá Olivier um skilnað. Plowright bað eiginmann sinn um skýringu. Hún hafði tekið að sér hlutverk í sýningu í leikstjórn Peters Hall. Olivier leit á Hall sem keppinaut sinn og sagðist ekki vilja sjá hana í leikriti undir hans stjórn. Hún dró sig úr sýningunni og gaf þá skýringu að hún væri með sýkingu í hálsi.
Á þessum tíma var fyrrverandi ástkona Oliviers, Sarah Miles, skilin við mann sinn. Olivier leitaði til hennar og þau endurnýjuðu sambandið. Hann var með krabbamein og þjáður af sársaukafullum húðsjúkdómi auk ýmissa kvilla. Fyrir nokkrum árum ræddi Miles opinskátt um samband þeirra. Hún sagði að Olivier hefði viljað giftast henni og að í bréfum sem hann skrifaði henni hefði hann lýst því hversu óhamingjusamur hann væri í hjónabandi sínu með Plowright.
Hefði dáið fyrir hann
Plowright eyddi löngum tíma fjarri heilsulausum eiginmanni sínum. Þeir sem hittu Olivier sögðu hann vera einmana mann. Hann sagði við vini sína: „Joan bjóst við að ég myndi deyja sjötugur.“
Leikarinn Robert Wagner, eiginmaður Nathalie Wood, kynntist hjónunum og eyddi tíma með þeim, sérstaklega Olivier sem honum þótti afar vænt um. Í ævisögu sinni bar hann Plowright ekki vel söguna og sagði hjónabandið langt frá því að hafa verið gott. „Mér fannst hún afar hörð við hann … hún var alltaf smásálarleg og önug … Það var greinilegt að aðalástæðan fyrir því að þau voru ennþá saman voru börnin þeirra, sem hann tilbað … Samband Larry og Joan byggðist alls ekki á ást og mér fannst hann eiga skilið miklu meiri samúð og tillitssemi en hann fékk frá henni.“
Olivier lést árið 1989 eftir áratuga erfið veikindi, 82 ára gamall. Í viðtali árið 2001 sagði Plowright: „Ég elskaði hann svo heitt að ég hefði dáið fyrir hann en það komu tímabil þegar ég vissi ekki hvernig ég ætti að geta búið með honum.“
Plowright hélt áfram að leika og sást í fjölmörgum kvikmyndum sem voru alls ekki allar samboðnar leikkonu í hennar gæðaflokki.
Hún hætti leik vegna veikinda árið 2014 en sjónin hafði hægt og bítandi gefið sig og hún var orðin lögblind. Hún sást síðast í heimildarmyndinni Nothing Like a Dame árið 2018 ásamt vinkonum sínum í leiklistinni, Maggie Smith, Eileen Atkins og Judi Dench.